Mannlíf

Svona týpískur Hagkaupskrakki
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
laugardaginn 24. apríl 2021 kl. 08:49

Svona týpískur Hagkaupskrakki

Harpa Jóhannsdóttir er svona týpískur Hagkaupskrakki eins og hún orðar það sjálf; sem var á götunni á sumrin og í skólanum á veturna. Hún ólst upp á Greniteignum í Keflavík og æfði á trompet sem þótti frekar lúðalegt – en sú reynsla átti eftir að skila henni tækifæri lífs síns. „Mamma fór með mig í tónlistarskólann því ég hafði séð myndband á MTV þar sem verið var að leika á saxafón og varð hreinlega ástfangin. Mér fannst hljóðfærið svo ægi-fall-egt. Það var eins og úr gulli og formið heillaði, mér var eiginlega alveg sama hvernig það hljómaði,“ segir Harpa Jóhannsdóttir í viðtali í hlapvarpinu Reykjanes - góðar sögur sem má nálgast á helstu hlaðvarpsveitum.

„Mamma skráði mig í tónlistarskólann og þar hittum við Karen Sturlaugsson sem var fljót að stinga frekar upp á trompeti sem ég samþykkti. Trompetinn átti vel við mig en það var samt alveg ferlega hallærislegt, við getum sagt lúðalegt, að læra á lúður. Ég fékk oft glósur frá krökkum eins og: „Hva ertu að fara á fund, af hverju ertu með skjalatösku?“ Þá óskaði ég þess stundum að ég spilaði á þverflautu eða klarinett því það var hægt að skella þeim í bakpokann. Seinna var ég svo góðfúslega beðin um að læra á básúnu því það vantaði í léttsveitina og þar kviknaði einhver ógeðslega góður kemmari. Við áttum vel saman.”

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Harpa kynntist þar einmitt öðrum básúnuleikara, Valdimar Guðmundssyni, sem seinna átti eftir að fara í rokkið eins og Harpa. „Það eru allir töffararnir í brassinu,“ segir Harpa og hlær.

Þegar Harpa var nítján ára gömul fréttist að tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir væri að leita að ungum konum á lúðra og fljótlega fékk Harpa símtal frá aðstoðarkonu hennar.

„Þetta er ekki stór markaður svo nafnið mitt fór þarna í pottinn og fljótlega var ég beðin um að koma og hitta Björk ásamt aðstoðarkonu hennar og leika fyrir þær. Ég var bara allt í einu komin inn í stofu heima hjá Björk með básúnuna mína sem var alveg súrrealískt.

Ég mætti með einhverja sónötu sem var pínu skrítið því Björk er svona „alternatív“ tónlistarmaður og í sérflokki í raun og var kannski ekki að leita eftir því. Svona frekar taktlaust hjá mér en hún var svo sem bara að kanna hvort ég gæti leikið á hljóðfærið. Hún hafði þægilega nærveru og þetta tók stuttan tíma. Nokkru seinna fékk ég svo annað símtal: Viltu ekki kýla á þetta? Og ég bara, jú, jú, geggjað!“

Harpa vissi ekki hvað hún væri að fara út í en við tók tveggja mánaða æfingarferli með brassinu og svo með hljómsveit og tónleikaferðalagið stóð samfellt í átján mánuði þar sem farið var í allar heimsálfur utan eina. „Þetta var því bókstaflega vinnuferð sem byrjaði með tónleikum í Laugardalshöll og svo vorum við bara komin til Kaliforníu á Cochella.“

Sama ár kynntist Harpa eiginkonu sinni, Thelmu Björk Jóhannesdóttur, og vakti samdráttur þeirra nokkra athygli, eða forvitni sumra.

„Við kynntumst á djamminu í Keflavík en hún er Keflvíkingur eins og ég. Við bjuggum meira að segja í sömu götu en sem betur fer var hún flutt í burtu þegar ég flutti þangað, annars hefði hún örugglega passað mig því hún er tíu árum eldri,“ segir Harpa og hlær. „Það hefði verið skrítið þarna nokkrum árum seinna. Það fóru samt alveg sögusagnir af stað: „Varstu búin að heyra að þetta er fyrrverandi kennarinn hennar?“ Og eitthvað fleira en það er ekki rétt og leiðréttist hér með,“ segir Harpa og kímir.

„Við fengum bara jákvæð viðbrögð, það var helst aldursmunurinn sem var á milli tannana á fólki og að við erum báðar frekar út fyrir kassann týpur. Þá var verið að smjatta á því hvernig peysan manns var á litinn og gerðar athugasemdir við frjálslegt klæðaval, mynstur og önnur skemmtilegheit – en fólki fannst það voðalega spennandi að þarna voru tvær konur í sambandi og það virtist fátt annað komast að svo ég fékk nóg. Er ég ekki annað en þetta? Getum við ekki talað um eitthvað annað en að ég sé lesbía, það er svo margt annað sem ég geri líka.“

Harpa og Thelma eiga saman drenginn Guðmund Hrafnkel sem er nýbyrjaður í skóla en þær eru báðar kennarar. Það vakti athygli þegar þær skrifuðu opið bréf á Facebook og sögðu frá lífi fjölskyldunnar, sem var nokkuð óvenjulegt.

„Hann Guðmundur Hrafnkell er magnaður drengur. Hann er einhverfur með málþroskaröskun og öll merki um ADHD. Það má segja að taugakerfið hans sé öðruvísi stillt en okkar. Hann er bara alls konar hann Guðmundur. Þetta er stórt verkefni og stöðugur lærdómur og alls konar erfitt og alls konar frábært,“ segir Harpa en hún lýsir sorginni og vanmættinum sem fylgir því að barnið þitt er ekki að þroskast á sama hátt og önnur börn.

Hér má heyra viðtalið