Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Sumrinu fagnað í anda Unu í Garði
Stjórn Hollvinafélags Unu í Sjólyst. F.v. Kristjana H. Kjartansdóttir, Jónína Hólm, Bryndís Knútsdóttir, Erna M. Sveinbjarnardóttir og Guðmundur Magnússon heldur á dóttur sinni, Unu Guðmundsdóttur. Á myndina vantar Ástu Óskarsdóttur og Þórunni Þórarinsdót
Mánudagur 27. maí 2019 kl. 14:00

Sumrinu fagnað í anda Unu í Garði

Hollvinafélag Unu í Sjólyst var stofnað í Garði árið 2011. Una var kölluð Völva Suðurnesja og sögð hafa tengingar í aðra heima. Þá var Una vel kunn í Garði fyrir það hversu barngóð hún var og af störfum sínum fyrir barnastúkuna Siðsemd nr. 14. Una lést árið 1978, þá 82 ára að aldri.

Hollvinafélagið hefur haft það fyrir sið að byrja sumarstarf sitt á Sumardaginn fyrsta og það gerði félagið einnig á þessu ári þrátt fyrir að unnið sé að endurbótum í Sjólyst, gamla húsinu hennar Unu. Víkurfréttir litu við í kaffi til Hollvinafélagsins sem fram fór í Samkomuhúsinu Garði að þessu sinni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Erna Marsibil Sveinbjarnardóttir er formaður Hollvinafélags Unu Guðmundsdóttur í Sjólyst, Garði.

Endurbætur standa yfir í Sjólyst
„Una var mjög merkileg kona og þekkt víða um land og útfyrir landssteinana. Hún vann mikilvægt starf hér í Garðinum. Una var þekktur lækningamiðill og sjáandi. Una bjó í húsi niður við sjó sem margir kalla Unuhús en heitir Sjólyst. Bærinn á þetta hús núna en Una arfleiddi bæjarfélaginu að húsinu þegar hún lést. Húsið var lengi vel í leigu en síðan var stofnað áhugamannafélag á afmælisdegi Unu 18. nóvember árið 2011 sem hefur starfað síðan. Þá gengu í félagið yfir hundrað manns en mörgum var umhugað um að nafni þessarar konu væri haldið á lofti. Bærinn gerði samning við Hollvinafélagið um notkun á húsinu en öll byggingarframkvæmd og annað er undir eftirliti eigandans, sveitarfélagsins. Nú er húsið í endurbyggingu og við sækjum um styrki sem renna beint til framkvæmdanna. Ég vona að þegar þetta ár er liðið þá verðum við búin að leggja átta milljónir til framkvæmdanna. Auk þess höfum við verið að byggja upp það sem við sjáum sem innra starf í húsinu þegar endurbótum er lokið. Húsið er friðað en það var byggt árið 1890. Una bjó í húsinu flest sín fullorðinsár en hún lést árið 1978.“

Allt í sjálfboðavinnu
„Hollvinafélagið fagnar sumarkomunni í samkomuhúsinu Garði á þessu ári og bjóðum við bæjarbúum gleðilegt sumar með tónleikum og veitingum án þess að fólk greiði fyrir. Öll sú vinna sem hefur verið lögð í endurbætur Sjólystar hefur farið fram í sjálfboðavinnu. Okkur finnst það í anda Unu að bjóða fólki að koma hingað þennan dag og sérstaklega að bjóða börn velkomin en Una vann mikið með börnum og unglingum alla sína tíð. Venja Hollvinafélagsins er að fagna sumarkomu í Sjólyst en vegna endurbótanna ákváðum við að fagna hér í Samkomuhúsinu þetta árið og vonandi getum við verið í húsinu hennar Unu að ári. Una hélt utan um stúkustarf í þrjátíu ár en hér í Samkomuhúsinu var hún með barnastúkuna Siðsemd. Það má segja að endurbygging svona gamalla húsa sé eins og að opna öskju Pandóru því það er alltaf eitthvað nýtt sem birtist, ef ein fjöl er tekin þá er eitthvað undir sem þarf að laga líka. Við bíðum þolinmóð með Sjólyst en höldum okkar striki og nýir félagsmenn eru ávallt velkomnir, alltaf pláss fyrir nýja félaga. Á Sumardaginn fyrsta höfum við haft það fyrir sið að eiga samstarf við Tónlistarskólann í Garðinum og einn nemandi kemur einnig úr Tónlistarskóla Reykjanesbæjar til að spila fyrir okkur á þeim degi.“

[email protected]