Mannlíf

Sumir í flauels jakkafötum
Davíð í íslenska hátíðarbúningnum á fermingardaginn.
Laugardagur 27. mars 2021 kl. 06:28

Sumir í flauels jakkafötum

-Davíð Óskarsson kaus þó frekar íslenska hátíðarbúninginn

„Tískan á þessum tíma var að mig minnir frekar nýmóðins, sumir voru þó aðeins villtari og klæddu sig upp í 60’s stíl í útvíðum flauels jakkafötum, alla vega einhverjir af strákunum. Það var mjög vinsælt hjá stelpunum að vera með skraut í hárinu rétt eins og Jesús kristur þegar hann var krossfestur. Ég var þó aðeins þjóðlegri og klæddist íslenska hátíðarbúningnum og notaði ég jakkann og vestið lengi vel eftir fermingu,“ segir Davíð Óskarsson, markaðsstjóri hjá Blue Car rental, þegar hann rifjar upp ferminguna.

– Hvernig var veislan og manstu eftir eftirminnilegri gjöf?

„Veislan var frekar hefðbundin heimilisveisla og var öllum helstu ættingjum boðið, engin risaveisla, aðeins það sem húsið bauð upp á. Mig minnir að veitingarnar hafa allar verið heimagerðar. Ég sé mest eftir því hvað ég borðaði lítið í veislunni sjálfri, því um kvöldið þegar ég komst loks í matinn var svo lítið eftir en hann var mjög góður. Eftirminnilegasta gjöfin var að ég held fyrsti MP3 spilarinn minn sem ég keypti fyrir fermingarpeningana. Einnig man ég eftir því að hafa fengið svefnpoka sem þoldi -60° gráður og áttavita en ætli það hafi ekki verið snjóbrettið og snjóbrettabúnaðurinn sem ég fékk sem skildi mest eftir sig – en hverjum er ekki sama um gjafirnar, eru ekki allir að hugsa um peninginn?“

– Hvernig var fermingarundirbúningurinn?

„Undirbúningurinn sjálfur var alfarið í höndum foreldra minna varðandi veisluna en fermingarfræðslan sem við fórum í gegnum var nokkuð skemmtileg, þá þurftum við að mæta einu sinni í viku í Kirkjulund og hlusta á Sigfús prest tala um tilgang lífsins og kristna trú. Einnig var farið skemmtilegt fermingarferðalag í Vatnaskóg.

Að öðru leyti man ég lítið eftir þessum degi en ég man þó að ég var tilbúinn í lífið eftir þessa vígsluathöfn þó að ég muni ekki boðorðin tíu.“