Mannlíf

Sumarsýning í Bíósal Duus Safnahúsa
Duus Safnahús eru opin alla daga frá 12:00 til 17:00 og er ókeypis aðgangur í allt sumar.
Sunnudagur 18. júlí 2021 kl. 13:12

Sumarsýning í Bíósal Duus Safnahúsa

Duus Safnahús og Listasafn Reykjanesbæjar bjóða til samstarfs í sumar við fólk sem ástundar myndlist og býr á Suðurnesjum. Góð þátttaka var um sýningarpláss, átán einstaklingar sóttu um og af þeim voru fjórir valdir til þess að sýna á tveimur samsýningum í Bíósal Duus Safnahúsa. 

Seinni myndlistarsýningin opnaði í gær (17. júlí) og stendur til 22. ágúst 2021. Sýningin er samsýning Einars Lars Jónssonar (Larz) og Unnar Karlsdóttur.

Einar Lars Jónsson (Larz)

Einar Lars (f. 1978) hefur haft áhuga á listrænni ljósmyndun í fimmtán ár og sýnir ljósmyndir úr sýningunni Hugmynd|Perception. Á þessu ári hefur myndefnið einnig verið sýnt í Gallery Grásteini og eins verður það sýnt í Galleríi í miðbæ Stokkhólms í desember 2021.

Myndirnar eru sýn í efnisheiminn allt í kringum okkur. Þar sem litir, form og áferð eru í aðalhlutverki. Myndirnar eru kraftmiklar með vott af dulúð og eiga að hreyfa við ímyndunarafli sjáandans. Þær eru teknar víða þó mestmegnis á Suðurnesjum.

Einar Lars lauk B.A. í heimspeki frá Háskóla Íslands, hann var eitt ár í Feneyjum og nam þar við Ca´Foscari háskólann bæði ítölsku og heimspeki. Síðasta áratug hefur Einar Lars starfað sem knattspyrnuþjálfari og er með UEFA A og UEFA Elite þjálfaragráður.

Unnur Karlsdóttir 

Unnur er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún hefur málað og teiknað frá barnsaldri. Unnur vinnur með vatnsliti, ink (blek) og grafík í verkum sínum. Hún hefur lokið fjölmörgum námskeiðum í grafík og málun, einnig hefur Unnur tekið þátt í Nýsköpunarsmiðju Hakkit árið 2016.

Unnur stundaði nám við Myndlista- og Handíðaskóla Íslands, grunnnám 1980–1981 og textíldeild 1985–1988. Hún lærði fatahönnun við Columbine skolen í Danmörku 1991–1993.

Unnur hefur starfað sem myndmennta- og handmenntakennari og sem leiðbeinandi á handavinnustofu aldraða. Frá árinu 2011 hefur hún starfrækt Ljósberann sem er skermagerð.