Optical Studio
Optical Studio

Mannlíf

Stærsta björgunaraðgerð sögunnar!
Föstudagur 30. nóvember 2018 kl. 06:00

Stærsta björgunaraðgerð sögunnar!

Lokaorð Margeirs Vilhjálmssonar koma beint úr Helguvík

Bæjarbúar fylgdust agndofa með þegar sementsskipinu Fjordvik var bjargað úr Helguvík. Björgunaraðgerðir gengu sem betur fer vel og íbúar Reykjanesbæjar þurfa ekki að sætta sig við að vera með sokkið skipsflak í flæðarmálinu. Vel gert hjá öllum sem að björguninni komu.

Nú stendur yfir önnur og mun stærri björgunaraðgerð í Helguvík. Dótturfélag Arion banka, Stakksberg, glímir nú við það heljarverkefni að bjarga því sem bjargað verður úr þrotabúi Sameinaðs Silikons. Stakksberg boðaði íbúa Reykjanesbæjar til fundar til að fara yfir málin og kynna þeim hvað stæði til. Því miður ætla þeir ekki að uppfylla kosningaloforð Miðflokksins um að rífa niður ferlíkið og selja úr landi.

Arion banki gerði vel með að senda einstaklega vandaðan mann, Þórð Ólaf Þórðarson, til að vera í forsvari fyrir verkefninu. Hann er ekki öfundsverður af hlutverki sínu.

Margt mjög áhugavert kom fram á borgarafundinum sem haldinn var í Stapa. Meðal annars að búið væri að sökkva tuttugu milljörðum í verkefnið nú þegar og til stendur að setja aðra 4,5 í verkefnið til að koma á koppinn fullbúinni verksmiðju af bestu gerð. Alls ættu að skapast þar 180 störf. Á fundinum talaði einn sérfræðingur um að sjö verksmiðjur í sama iðnaði og sú í Helguvík væru starfræktar í Noregi, án teljandi vandræða.

Það kom verulega á óvart að helstu fyrirspyrjendur á fundinum voru menn sem eru í forsvari fyrir meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. En spurningar þeirra voru þess eðlis að það fékk mann til að hugsa hvort bæjarstjórn Reykjanesbæjar væri ekki búin að vinna neina heimavinnu í kringum þetta mjög svo óvinsæla verkefni. Hvernig væri til dæmis að skella sér til Noregs og heimsækja þar vinabæi okkar og fá að vita frá fyrstu hendi hvernig hafi gengið að vera með svona ferlíki í túnfætinum. Er þetta eitthvað sem gengur upp? Eða er þetta bara hreinn óskapnaður? Spyrja þá sem reynsluna hafa.

Það er kostur þegar stór málefni ber á góma að allir geti tekið vel upplýsta ákvörðun byggða á staðreyndum og rannsóknum. Það er ódýr lausn að senda verksmiðjuna bara í íbúakosningu. Það er fyrirfram tapaður slagur fyrir verksmiðjuna, enda óvinsæl með afbrigðum.

Komi í ljós að hún beri hingað eintómt svartnætti, mætti spyrja Arion banka hvort þeir væru tilbúnir að fjárfesta þessum 4,5 milljörðum í önnur og vænni verkefni í bænum. Af nógu er að taka.

Það væri t.d. kjörið að selja þeim höfnina í Helguvík. Þá væri þeim raunum lokið fyrir bæinn.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs