Mannlíf

Spennan magnast með hverjum deginum
Föstudagur 22. október 2021 kl. 08:44

Spennan magnast með hverjum deginum

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að framundan er frumsýning Leikfélags Keflavíkur á söngleiknum Fyrsti kossinn. Við hjá Víkurfréttum höfum fylgst með æfingum, tekið viðtöl og verið með vikulega umfjöllun um sýninguna og afmæli Leikfélagsins hér í blaðinu og nú er eins og fyrr sagði komið að frumsýningu. Það er augljóst að það liggur mikil vinna að baki uppsetningu leiksýningar og enn meiri þegar um tónlist og dans er að ræða eins og í þessari sýningu. Það er ekki aðeins fólkið sem sést á sviðinu sem kemur að sýningum heldur er líka hópur fólks sem vinnur á bakvið tjöldin og aldrei sést. Tæknifólk, förðunar- og hárgreiðslufólk, þeir sem sjá um búningana, ljósmyndarar og fleiri. Leikstjórinn þarf aðstoðarmanneskju og í þessari sýningu er Kristín Rán Júlíusdóttir sérleg aðstoðarkona Karls Ágústs Úlfssonar, leikstjóra. Okkur lék forvitni á að vita hvert væri hlutverk hennar í þessari sýningu og hvernig þetta gengur fyrir sig.

Hvað gerir aðstoðarkona leikstjóra?

Vogar aðalskipulag
Vogar aðalskipulag

„Hún í rauninni gerir bara allt sem hún er beðin um. Ég læt leikhópinn fá æfingaplan og læt vita ef það eru breytingar á skipulagi. Ég er á handritinu ef leikurum vantar línur og hleyp í skarðið ef einhvern vantar á æfingu. Það er í rauninni hægt að treysta á mig í næstum allt, nema kannski sem statista í dansinum og að hella upp á kaffi.“

Hvernig er að vinna með Kalla?

„Það er bara mjög þægilegt og skemmtilegt. Hann er yfirvegaður og vinnur í lausnum, sem er mjög gott. Svo eru sögurnar sem hann hefur að segja alveg hreint æðislegar og gaman að hlusta á þær. Búið að vera frábært að vinna með honum og maður á alveg pínu eftir að sakna þess eftir ferlið.“

Er leikhópurinn að standa sig vel?

„Alveg ótrúlega vel. Það er búið að vera æðislegt að fylgjast með þeim undanfarnar vikur. Er rosalegt stolt af þeim.“

Geturðu sagt í fáum orðum hvernig ein æfing gengur fyrir sig?

„Það er alltaf mikil gleði á æfingum. Við förum í gegnum ákveðin atriði eða tökum rennsli þar sem ég sit með handritið ef ske kynni að leikarar gleyma línum eða „kjúum“, sem gerist reyndar alls ekki oft. Milli þess er mikið fjör og mikið gaman.“

Spenna fyrir frumsýningunni?

„Já, mjög mikil. Hún magnast bara með hverjum deginum. Þetta verður geðveikt!“