Mannlíf

Söngvaskáld haldin í síðasta sinn
Mánudagur 21. janúar 2019 kl. 10:49

Söngvaskáld haldin í síðasta sinn

Gunni Þórðar, Ellý og Jóhann G.

Tónleikaröðin Söngvaskáld á Suðurnesjum verður haldin í síðasta sinn árið 2019 með þrennum tónleikum í Hljómahöll en markmiðið er að vekja athygli á ríkum tónlistararfi Suðurnesjamanna á afslöppuðum stofutónleikum þar sem saman fara ljósmyndir, sögur og tónlist.
 
Þau sem standa að baki tónleikaröðinni eru þau Dagný Maggýjar, handritshöfundur og kynnir, Arnór B. Vilbergsson, organisti í Keflavíkurkirkju, og Elmar Þór Hauksson, söngvari.
 
Þau segja tónlistarröðinni hafa verið vel tekið frá upphafi en hún hófst árið 2016 og hefur fjallað um níu söngvaskáld fyrir fullu húsi.
 
„Þetta hefur verið skemmtilegt verkefni og frábært hvað Suðurnesjamenn hafa tekið því vel en það er óhætt að segja að við séum komin með okkar fastagesti sem kaupa miða á alla tónleikana á hverju ári. En nú er svo komið að við höfum fjallað um helstu söngvaskáldin svona fyrir utan þá sem eru starfandi í dag svo við teljum að nú sé tímabært að hætta, nema annað komi í ljós,“ segja þau og hlægja.
 
Verkefnið hefur vakið athygli og var valið til kynningar á hugmyndadögum Rúv á síðasta ári sem mögulegt dagskrárefni í útvarpi. „Það væri gaman ef af því yrði enda höfum við tekið upp alla tónleikana með það fyrir augum, enda er hér um að ræða mikilvæga sögulega heimild þar sem við höfum tekið viðtöl við söngvaskáldin og fengið að nota myndir úr einkasöfnum þeirra. Þetta efni er því hvergi annars staðar til.“
 
Söngvaskáldin sem fjallað verður um í ár eru Gunnar Þórðarson 7. febrúar, Ellý Vilhjálms 7. mars og Jóhann G. Jóhannsson 4. apríl. Tónleikarnir verða, að sögn tónleikahaldara, með svipuðu sniði og áður þar sem áhersla er lögð á notalega samverustund. „Við eigum svolítið erfitt með að taka okkur alvarlega og vera í þessu virðulega tónleikaformi, enda finnst okkur miklu betra að við skemmtum okkur líka, það smitar sér til áhorfenda sem oft hafa verið virkir þátttakendur á þessum tónleikum í óvæntum uppákomum.“
 
Þeir sem kaupa miða á alla þrenna tónleikana fá 15% afslátt á miðaverði sem er 4.900 kr. Miðasala er hafin og fer fram á hljomaholl.is.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024