Max Norhern Light
Max Norhern Light

Mannlíf

Sólborg Guðbrandsdóttir safnar fyrir Fávitum
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 14. júní 2020 kl. 07:07

Sólborg Guðbrandsdóttir safnar fyrir Fávitum

Sólborg Guðbrandsdóttir er 23 ára tónlistarkona, fyrirlesari og laganemi, hún hefur einnig starfað sem blaðamaður fyrir Víkurfréttir. Núna stefnir hún að útgáfu bókarinnar Fávitar.
„Ég brenn fyrir jafnrétti og hef varið miklum tíma síðastliðin ár í að reyna að láta gott af mér leiða. Það er mér hjartans mál að þessi bók verði að veruleika,“ segir Sólborg um verkefnið.

Bókin Fávitar verður hennar fyrsta bók en hún mun innihalda mörg hundruð spurningar íslenskra ungmenna sem Sólborg hefur séð um að svara á fyrirlestrum um allt land sem og á Instagram-síðunni Fávitar. „Þær fjalla meðal annars um femínisma, fjölbreytileika, kynfæraheilsu, kynlíf og ofbeldi. Spurningarnar og fjöldi þeirra sýnir fram á gífurlega þörf fyrir kyn- og kynjafræðslu, sérstaklega þegar kemur að unglingum sem virðast hafa margar spurningar en ansi fá svör um þessi málefni. Ef þessi bók hefði verið í boði þegar ég sjálf var unglingur hefði það geta sparað mér ansi margar erfiðar tilfinningar og upplifanir.“

– Hvað varð til þess að þú ákvaðst að taka slaginn gegn stafrænu og annars konar kynferðisofbeldi? Hvenær varð þér málstaðurinn svona hugleikinn?

Ég hafði verið á samfélagsmiðlum í nokkur ár og lent annað slagið í einstaklingum sem óðu alveg yfir mín mörk, hvort sem það var með óumbeðnu kynferðislegu tali eða kynfæramyndum, suði yfir einhverju kynlífstengdu eða hreinlega hótunum. Ég vissi hve algeng svona samskipti voru á netinu og mig langaði að reyna að gera eitthvað til að vekja fólk til umhugsunar um þetta. Mér var gjarnan sagt að „blokka viðkomandi“, halda áfram með daginn minn o.s.frv. en ég var ósammála því að þetta væri eitthvað sem ég þyrfti bara að þola ef ég ætlaði að vera áfram á samfélagsmiðlum. Þess vegna fór ég af stað með þetta, fyrir fjórum árum síðan, til að fræða um stafrænt kynferðisofbeldi og skila skömminni þangað sem hún á raunverulega heima.

– Telur þú að það sé erfiðara fyrir ungmenni að komast í gegnum lífið í dag á tímum samfélagsmiðla og þá sérstaklega þar sem fólk getur siglt undir fölsku flaggi og í skjóli nafnleyndar? Er mikið ofbeldi og áreiti unnið úr launsátri?

Fólk virðist alla vega oft leyfa sér að segja mun meira á bak við skjáinn en það myndi gera augliti til auglitis, hvort sem það er undir réttu nafni eða fölsku flaggi. Samfélagsmiðlar geta klárlega aðstoðað til við að stækka tengslanetið manns en á sama tíma er svo rosalega greiður aðgangur að manni og það er ekkert alltaf gott. Það getur verið erfiðara að setja skýr mörk á netinu heldur en augliti til auglitis og þess vegna skiptir fræðsla um samskipti svo ótrúlega miklu máli. Það ættu ekkert að gilda aðrar reglur á netinu en í raunveruleikanum og fólk á ekki að fá bara að komast upp með það að beita ofbeldi á netinu. Ég hef heyrt talað um samfélagsmiðla sem „tvíeggja sverð“ og ég er sammála því, ef þú notar þá á uppbyggilegan hátt þá eru þeir frábærir en ofbeldi þrífst ansi vel á netinu og það er samtal sem við þurfum að eiga, ef við ætlum einhvern tímann að ná að breyta því.

– Hvernig hefur Instagram-síðan Fávitar þróast, er ofbeldið orðið grófara í dag en það sem var að berast þér fyrst frá þolendum?

Síðan Fávitar byrjaði sem átak gegn stafrænu og annars konar ofbeldi og hún er það í raun og veru ennþá. Fyrstu tvö árin einkenndist síðan af skjáskotum af kynferðislegri áreitni á netinu sem ég fékk send til mín frá alls konar fólki ásamt sögum þeirra af öðru kynferðisofbeldi í þeirra daglega lífi. Á þeim tíma tók það virkilega á mig að halda úti þessari síðu. Ég var daglega áminnt um það hversu mikið ofbeldi á sér stað í raun og veru og reyndi eins og ég gat að vera til staðar fyrir brotaþola og hlusta. Í stað þess að einblína bara á það slæma og gefast upp ákvað ég að reyna að hugsa í lausnum, fór af stað með fyrirlestra og hóf að sinna fræðslu inn á síðunni. Í dag hef ég unnið sem fyrirlesari í tvö ár og hitt þúsundir ungmenna um allt land og rætt þessi mál við þau. Fræðsla getur komið í veg fyrir ofbeldi og það hlýtur að vera markmiðið okkar, að minnka ofbeldið í heiminum eins og við mögulega getum. Ofbeldið er ennþá mjög gróft og langstærsti hluti þess gerist á bakvið luktar dyr. Þess vegna er mikilvægt að við pössum upp á hvert annað og grípum inn í, ef við annað hvort verðum vitni að ofbeldi eða teljum að eitthvað óeðlilegt sé í gangi hjá fólkinu í kringum okkur.

– Hvað einkennir helst það stafræna ofbeldi sem þú ert að sjá að beitt sé í dag?

Stafrænt kynferðisofbeldi er alls konar en það sem ég tel að sé algengast í dag eru óumbeðnar kynfæramyndir, hótanir um dreifingu nektarmynda, hótanir um annars konar ofbeldi, boð um vændiskaup eða óumbeðið kynferðislegt tal. Það er mjög mikilvægt að fólk viti að ofbeldi, sama hvar það á sér stað eða að hverjum það beinist, er ólöglegt og þeim sem vilja leita réttar síns og kæra ofbeldið til lögreglu er velkomið að gera það.

– Hverjir/hverjar eru að verða fyrir ofbeldinu?

„Hver ekki?“ væri eflaust styttra svar. Ég held ég þekki ekki manneskju sem hefur aldrei orðið fyrir einhvers konar ofbeldi en þau sem senda oftast á mig varðandi ofbeldi eru ungt fólk, oftast undir tvítugu.

– Nú man ég eftir því þegar þú tæklaðir gaur sem hafði í hótunum við fyrrverandi kærustu. Hún hafði leitað til þín vegna hótana fyrrverandi um birtingu á myndskeiði nema hún myndi senda sjálfsfróunar- eða kynfæramyndir. Er algengt að stúlkur/ungar konur séu að eiga við svona hótanir?

Já, því miður þá er það mjög algengt að fólk reyni að hrifsa völd kvenna yfir eigin líkama með því beita svona ofbeldi. Í gegnum tíðina finnst mér við, sem samfélag, hafa tekið á svoleiðis málum með því að skamma fólk fyrir að hafa yfir höfuð tekið af sér nektarmyndir, eins og það sé einhver glæpur og afsaki það þá að einhverju leyti að nektarmyndirnar fari í dreifingu. Það er ekkert skömmustulegt eða ólöglegt við það að taka af sér nektarmyndir. Það er heldur ekki ólöglegt að senda svoleiðis myndir áfram með samþykki viðtakandans. Skömmin felst raunverulega í því að viðtakandinn brjóti það traust sem honum var gefið með því að dreifa nektarmyndunum áfram í því skyni að niðurlægja, græða á þeim eða kúga til frekara ofbeldis. Þessi þolendaskömm er svo ótrúlega úrelt og þarf að stoppa.

– Ég veit að þú hefur sjálf mátt þola ýmsar útgáfur af óumbeðnum óþverra. Þú færð sendar typpamyndir og jafnvel eitthvað sóðalegra en það. Er algengt að stelpur fái slíkar sendingar? Hversu sóðalegt og gróft er það sem börn og ungmenni eru að fá sent í dag?

Við skulum bara orða það þannig að flest skilaboðanna, sem ég hef birt á Fávita-Instagramminu, eru það ógeðsleg að ég vil helst ekki þylja þau upp í blaðaviðtali. Ég hvet þau sem áhuga hafa, og vilja kynna sér málin betur, að skottast á Instagram og skoða skilaboðin með eigin augum. Mjög margar tólf ára stelpur hafa haft samband við mig eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi á netinu. Svo ungar eru þær.

– Það er leitað til þín með ýmis konar spurningar um allt milli himins og jarðar. Á ungt fólk erfitt með að fá eða finna svör við því sem brennur á því?

Það virðist vera. Ég hef fengið mörg þúsund spurningar frá ungu fólki síðustu ár. Kynfræðslan í grunnskólum landsins er af skornum skammti og hefur verið lengi, þrátt fyrir áratugalanga kröfu ungmenna um að stjórnvöld auki hana. Þessi fjöldi spurninga sýnir það vel hversu mikilvægt það er að auka kynfræðslu fyrir öll börn. Það gengur ekki að skólakerfið okkar virki fyrir sum börn og önnur ekki. Við þurfum að tryggja jafna menntun fyrir þau öll. Þetta snýst ekkert um að fullorðnir viti allt eða geti svarað öllum spurningum sem börn og unglingar hafa. Það er allt í lagi að segja: „Ég er ekki viss en ég skal samt reyna að komast að því fyrir þig og aðstoða þig.“ Stundum þurfa ungmennin okkar bara að finna fyrir því að það sé einhver í lífinu þeirra sem hlustar á þau og virðir.

– Segðu mér frá fyrirlestrum og hvernig hafi gengið að komast inn í skólana? Hvernig hefur viðhorf skólakerfisins verið?

Það hefur gengið voðalega vel. Ég hef bæði verið að flytja fyrirlestra í grunn- og framhaldsskólum og svo á kvöldin í félagsmiðstöðvum. Þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég geri. Það er svo dýrmætt að fá að tala um þessa hluti opinskátt við alls konar fólk. Mér hefur alltaf verið vel tekið af starfsfólki í þeim skólum sem ég hef verið bókuð og ég kann að meta það. Ég hef líka oft verið bókuð af foreldrafélögum í grunnskólum en þau geta einmitt farið fram á að fá fyrirlesara inn í skólana á skólatíma með fræðslu.

– Hvernig kom það til að Fávita-fræðslan verður tekin upp á Akureyri?

Grunnskólakennari á Akureyri hafði samband við mig og spurði mig hvað mér fyndist um að hann myndi nota efnið á síðunni minni til kennslu á unglingastigi. Mér fannst það auðvitað bara sjálfsagt mál og gaf góðfúslegt leyfi. Í framhaldinu samþykktu svo bæjaryfirvöld á Akureyri að áfanginn „Fávitar“ yrði valgrein í boði fyrir allt unglingastig í grunnskólum Akureyrarbæjar næsta haust. Þetta er auðvitað algjör heiður. Í kjölfarið á þessu hafa svo fleiri kennarar og skólastarfsfólk í öðrum grunnskólum á Íslandi sett sig í samband við mig og óskað eftir nánari upplýsingum um fyrirkomulagið og lýst yfir áhuga á þessu verkefni.

– Ákvaðstu að fara í bókaútgáfuna í framhaldið af því?

Ég hafði verið með hugmyndina af bókaútgáfu í kollinum í smá tíma en fyrirkomulagið á Akureyri hvatti mig til að láta verða af þessu. Mig langaði að koma þessum gríðarlega fjölda spurninga frá unglingunum og svörum við þeim á prent og stefni á að gefa út bókina Fávitar fyrir jól.

– Hvernig verður bókin og hvernig á að kosta það verkefni?

Fávitar verður fræðslubók, byggð á nákvæmlega þeim spurningum sem íslenskir unglingar hafa til samskipta, kynlífs, ofbeldis, fjölbreytileika og fleira, og svör við þeim. Ég held hún muni bæði gagnast við kennslu, hvort sem það er innan eða utan skóla, eða til að skapa umræður heima fyrir. Þessi bók verður leiðarvísirinn sem ég sjálf sem unglingur hefði haft virkilega gott af því að hafa til hliðsjónar þegar ég var með ýmsar vangaveltur um lífið og tilveruna. Ég stefni á að gefa bókina út á eigin vegum og er þess vegna að safna fyrir útgáfukostnaðinum. Það er söfnun í gangi inn á Karolina Fund en sú síða er „all or nothing“ fjármögnunarverkefni sem hefur ákveðinn tímaramma, svo annað hvort tekst mér að safna upphæðinni allri eða ekki. Nú þegar er helmingi markmiðsins náð og það eru rúmlega tuttugu dagar af söfnuninni eftir en peningurinn færi meðal annars í að greiða fyrir umbrot, prófarkalestur, teikningar, prentun og dreifingu. Á Karolina Fund er m.a. hægt að forpanta bók eða bækur hjá mér og styrkja þannig útgáfuna.

Með því að smella á Karolina Fund getur þú heitið á verkefnið Fávitar – Fræðslubók um fjölbreytileika, ofbeldi, samþykki og kynlíf.

Með hressum nemendum í grunnskóla í Reykjavík og í Grunnskóla Grindavíkur.