Mannlíf

Sokkadrottningin úr Keflavík
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
miðvikudaginn 23. október 2019 kl. 07:29

Sokkadrottningin úr Keflavík

Það er örugglega ekki gaman að verða atvinnulaus. Við fengum fréttir af því um daginn að tugum bankastarfsfólks var sagt upp sem minnti á tímana í hruninu þegar hundruðir manna og kvenna stóðu uppi án atvinnu. Maður getur rétt ímyndað sér óvissuna, hræðsluna sem fyrst kemur upp í huga fólks því það er svo margt sem hangir á spýtunni. Fólk þarf bæði að standa við afborganir af lánum og að eiga fyrir nauðsynjum, s.s. mat og fleiru. Svo er það ekki síst sjálfsvirðingin sem bíður hnekki.

Guðrún Ólafsdóttir starfaði sem bókari í Danmörku en var sagt upp störfum og ekki bara einu sinni heldur tvisvar. Eftir að henni var sagt upp í seinna skiptið opnuðust nýjar dyr að sjálfstæðum atvinnurekstri þegar hún fékk tilboð sem leiddi hana út í eigin rekstur. Hún ákvað að slá til og sér ekki eftir því í dag.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Við hittum Guðrúnu að máli og fengum þessa sögu frá henni.

Starfaði lengi erlendis

Guðrún er fædd og uppalin í Keflavík en bjó lengi erlendis eða þar til hún varð atvinnulaus, þá ákvað hún að koma heim og freista gæfunnar með eigin atvinnurekstur.

„Ég er Keflvíkingur í húð og hár en flutti burt árið 1985 til Reykjavíkur og þaðan til Portúgal. Þar starfaði ég sem markaðsstjóri hjá Sportvörum sem var i eigu Axel Ó skóverslunarinnar. Árið 1996 fékk maðurinn minn vinnu í Danmörku og við ákváðum að flytja þangað með dóttur okkar sem þá var einsoghálfs árs gömul. Okkur langaði að breyta til aftur og prófa eitthvað nýtt. Ég starfaði sem bókari hjá Coca Cola Tapperierne og seinna Sony Nordic A/S.  Carlsberg keypti síðan Coca Cola og flutti starfsemina til Jótlands. Þá fékk ég starf sem bókari hjá Sony Nordic og starfaði hjá þeim í tíu ár eða þar til þeir ákváðu að flytja bókhaldsdeildina til Rúmeníu en þetta gera mörg stór fyrirtæki núorðið til að lækka launakostnað og launatengd gjöld. Ég vann við SAP-kerfið sem er svona „Rolls Royce“-inn innan bókhaldskerfa, sem aðeins stóru fyrirtækin nota vegna þess hversu dýrt það er. Stórfyrirtæki eru því miður farin að flytja ákveðna starfsemi til landa þar sem þeir fá ódýrara vinnuafl til að sinna bókhaldi og innkaupum, til dæmis fór IBM með sitt til Indlands og Philips til Póllands svo ég nefni nokkur dæmi. Hjá Sony voru skipulagsbreytingar á þriggja ára fresti með uppsögnum og tilfæringum og nýjum framkvæmdastjóra. En það eru svo miklar breytingar innan þessa geira að þeir verða að aðlaga sig markaðinum sem breytist mun hraðar nú en áður tíðkaðist,“ segir Guðrún.

Þegar einar dyr lokast opnast aðrar

Guðrún fór síðan að vinna hjá hollensku fyrirtæki sem starfaði innan tryggingageirans og var þar í þrjú ár þegar það fréttist að nýr framkvæmdarstjóri væri að koma og enn voru skipulagsbreytingar í vændum.

„Ég var nýkomin úr mat og opna tölvupóstinn minn og þar er uppsagnarbréf frá framkvæmdarstjóranum sem sjálfur hafði fengið uppsagnarbréf nokkrum dögum áður en hann starfaði í Noregi. Þegar ég var hálfnuð að lesa uppsagnarbréfið heyri ég að ég fæ skilaboð á Messanger og freistast til að athuga hver væri að senda mér þau. Þar stendur á ensku: „Sæl Guðrún, hvernig hefurðu það?“ Ég varð mjög undrandi að fá þessi skilaboð frá gömlum skólafélaga sem ég hafði kynnst árið 1980 þegar ég var við nám í Englandi en við höfðum ekkert verið í sambandi síðan þá, eða ekki í 35 ár. Ég talaði svo við hann þegar ég var komin heim um kvöldið og hann sagði mér að hann ætti sokkaverksmiðju og hafi framleitt sokka í 25 ár. Þegar leið á samtalið spyr hann: „Nú þegar þú ert búin að missa vinnuna, hvað ætlarðu þá að fara að gera?“ Ég vissi ekki hverju ég átti að svara, enda hafði ég ekki haft tíma til að hugsa málið en skellti svona fram í gríni: „Ja, kannski ég fari bara að selja sokka og hló.“ Hann greip svar mitt á lofti og sagði það vera góða hugmynd. Ég dró í land og sagðist ekki vera mikill sölumaður, myndi örugglega bara gefa alla sokkana í staðinn fyrir að selja þá. Ég ætti heldur engan pening til að stofna fyrirtæki. Hann sagði það ekki vera neitt vandamál, hann myndi hjálpa mér. Mér fannst ég leidd áfram, það var svo augljóst og tilboðið frá vini mínum opnaði nýja möguleika fyrir mér. Þetta var í apríl árið 2016 sem ég varð atvinnulaus. Ég dreif mig heim til Íslands eftir að hafa fengið sendan fullan poka af sokkaprufum sem mér leist mjög vel á en ég vildi sýna fólkinu mínu og fá álit þeirra. Til að gera langa sögu stutta þá fékk ég fyrsta gáminn sendan til Íslands í febrúar árið 2017, eða níu mánuðum seinna, og þetta hefur verið upp á við síðan. Nú er ég með annan fótinn í Danmörku og hinn á Íslandi. Ég bý hjá foreldrum mínum þegar ég er á Íslandi en er með heimili mitt ennþá í Kaupmannahöfn,“ segir Guðrún.

Íslenskt fyrirtæki

Guðrúnu fannst betra að stofna fyrirtækið á Íslandi vegna þess að hér var einfaldara fyrir hana að kynna sér regluverkið í kringum svona rekstur og landið miklu minna en Danmörk.

„Ég notaði uppsagnarfrestinn til að undirbúa nýja fyrirtækið. Það fyrsta sem ég gerði var að búa til heimasíðu sem ég hafði aldrei gert áður en þetta lærist bara. Svo fékk ég dóttur mína til að hanna vörumerkið, sem hún gerði svo snilldarlega en hún býr og starfar í dag sem hjúkrunarfræðingur á Ísafirði ásamt eiginmanni sínum.

Fyrsta sendingin var 20 feta gámur, fullur af sokkum. Ég byrjaði með 27 tegundir í mismunandi stærðum og sumar í mismunandi litum, það voru bómullarsokkar, ullarsokkar, bambussokkar, CoolMax-sokkar, hversdagssokkar, vinnusokkar, þunnir og þykkir sokkar. Samtals 56.000 pör, þar af 3.000 skíðasokkar svo ef einhvern vantar skíðasokka þá á ég nóg af þeim,“ segir Guðrún, hlær og bætir við: „Sjálf hafði ég enga reynslu af svona rekstri en þegar ég lít til baka þá sé ég að ég hef lært heilmikið af að vinna hjá fyrirtæki eins og Sony, þar sem ég vann náið með fólki í öllum deildum fyrirtækisins og þá sérstaklega sölu- og markaðsdeildinni.“

Erfitt að byrja að selja

Það var engin smá farmur af sokkum sem sendur var til Guðrúnar og hún átti eftir að selja en hvernig gekk það hjá henni í upphafi?

„Já, gámurinn var kominn og þá var bara að byrja að selja á heimasíðunni hélt ég, allt var klárt og ekkert að vanbúnaði. En viðskiptavinirnir voru hvergi sjáanlegir. Ég gafst ekkert upp heldur ákvað að ef viðskiptavinurinn kæmi ekki til mín þá yrði ég að fara til hans. Svo einn daginn fyllti ég bílinn af sokkum og ákvað að keyra til næsta bæjar þar sem ég þekkti engan því þetta var mikil áskorun fyrir mig að ganga í hús og selja. Ég ákvað samt að fara og kynna heimasíðuna og bjóða fólki að skoða sokkana. Í fyrstu tveimur húsunum kom engin til dyra en í því þriðja svaraði ungur maður og tvær litlar stúlkur stóðu fyrir aftan hann. Ég kynnti mig og sagðist vera að kynna heimasíðu þar sem ég byði upp á úrvals sokka. Hann horfir á mig og spyr: „Ertu að segja mér að þú sért að ganga í hús og selja sokka?“ Þá hugsaði ég: „Bara að jörðin myndi opnast og gleypa mig,“ sem var heitasta ósk mín á þessari stundu. Ég var samt snögg að hugsa, rétti strax úr mér og svaraði honum án þess að roðna og brosti: „Já,“ full sjálftrausts og brosi mínu breiðasta og þá segir hann allt í einu: „Snilld, þetta er bara snilld. Kona mín vinnur í fiski, er alltaf svo kalt á fótunum og svitnar mikið. Áttu ekki einhverja góða sokka handa henni?“ „Jú,“ svara ég. Það endaði með því að hann keypti sokka á alla fjölskylduna og var voða ánægður,“ segir Guðrún og hlær dillandi hlátri. Það er létt í kringum Guðrúnu sem tekur sjálfa sig ekki of hátíðlega og gerir oft grín að sjálfri sér.

Boltinn byrjar að rúlla

Guðrún hélt áfram næstu daga að selja hús úr húsi.

„Þessi fyrsta sokkasala staðfesti fyrir mér að ég væri að gera rétt, þannig að næstu daga hélt ég áfram að ganga í hús. Það voru ekki margir heima á daginn, þess vegna ákvað ég að fara í fyrirtæki og fór svo í söluferðir út um allt land. Ég heimsótti bændur sem allir tóku vel á móti mér. Oft var manni boðið í kaffi og jafnvel mat. Stundum hitti ég á þá í fjósinu eða við að járna hesta. Það kom fyrir að vinir og kunningjar voru í heimsókn, þá var bara slegið upp sokkapartýi og allir keyptu sokka. Fólk var svo ánægt með að fá vöruna keyrða heim að dyrum. Það skemmtilega við þetta allt saman var að nokkru síðar byrjuðu viðskiptavinirnir að hringja í mig og dásama sokkana, vildu kaupa meira af þessum og hinum og töluðu um hvað þeim fylgdi mikil vellíðan. Eitt sinn var ég að verða bensínlaus og renndi inn á næstu bensínstöð, sem var einnig matsölustaður, og þegar ég stoppaði bílinn við dæluna, sá ég iðnaðarmenn í hóp koma gangandi á móti mér á leið inn á grillið. Í sama augnabliki steig ég út úr bílnum og spurði: „Strákar, vantar ykkur ekki góða sokka?“ „Ertu að selja sokka?“ spyr einn þeirra og það næsta sem ég veit er að ég opna skottið á bílnum og þeir hópast í kringum mig og kaupa sokka,“ segir Guðrún og hlær að vitleysunni. Það var bara að henda sér út í djúpu laugina og vera ófeimin.

Hún heldur áfram frásögn sinni af sveitaferðinni; „Í einni versluninni bauð framkvæmdastjórinn mér inn á skrifstofu, skoðaði sokkana og spyr mig hvort ég geri mér grein fyrir því hvað ég sé með góða vöru. Hann segist vita það því faðir hans framleiddi sokka í mörg ár og að hann hafi sjálfur unnið í útivistarverslun og viti því hvað hann sé að tala um. Ég tók þá ákvörðun strax í byrjun að hafa verðlag sanngjarnt því ég vildi frekar hafa meiri hreyfingu á lagernum. Ég lít á sokka sem nauðsynjavöru en ekki lúxusvöru,“ segir Guðrún, greinilega hæstánægð með árangur vinnu sinnar en í dag er hún mest að halda utan um lagerinn og senda í verslanir eða að selja sokka á netinu. 

Socks2go komið til að vera

„Dóttir mín hjálpaði mér með vörumerkið og vinkona mín með nafnið Socks2go. Mig langaði að nafnið tengdist nafninu mínu á einhvern hátt og byrjaði á að setja upphafsstafi mína GÓ sem þróaðist yfir í vörumerkið Socks2go. Alls staðar hafa þessir sokkar slegið í gegn, salan gengur vonum framar. Ég er mjög þakklát og get ekki hugsað mér að fara aftur að vinna við fyrra starf. Það fylgir þessu ákveðið frelsi þó maður þurfi að hafa aga og skipuleggja tíma sinn vel. Ég hef lært margt undanfarin ár. Eitt af því sem ég passaði mig á í öllum ferðum mínum var alltaf að skilja eftir nafnspjald svo fólk gæti haft samband ef því líkaði varan,“ segir Guðrún sem er bjartsýn á framhaldið.

Atvinnuleysið opnaði nýjar dyr fyrir mér sem ég hafði hugrekki til að ganga í gegnum. Það er svo mikilvægt að halda áfram og að gefast ekki upp.

Atvinnuleysi opnaði fyrir nýtt ævintýri

„Ég vil halda áfram að byggja þetta upp því ég veit að ég er með góða vöru. Vinna mín er orðin að ástríðu, það er gaman að byggja svona upp frá grunni og ég segi að varan selji sig sjálf. Þegar fólk finnur mikinn mun á gæðum þá reynir ekki mikið á söluhæfileika mína. Sokkarnir frá mér fást nú í 50 verslunum víðsvegar um landið, bæði hér á Suðurnesjum og  víðar. Þeir eru meira að segja komnir í sölu í Bandaríkjunum og Danmörku. Krónprins Danmerkur á sokkapör frá mér en ég sendi honum bambussokka í tilefni 50 ára afmælis hans og fékk skriflegar þakkir fyrir. Það var mjög skemmtilegt. Þegar ég lít til baka er ég mjög þakklát fyrir það hvernig lífið tók allt aðra stefnu en ég átti von á. Atvinnuleysið opnaði nýjar dyr fyrir mér sem ég hafði hugrekki til að ganga í gegnum. Það er svo mikilvægt að halda áfram og að gefast ekki upp. Fara aftur upp á hestinn ef þú dettur af baki. Reynsla er eitthvað sem þú getur ekki keypt en hún kemur ekki nema þú gerir eitthvað. Ég er farin að fá viðurnefnið sokkadrottningin og mér finnst það bara skemmtilegt. Ég hafði ákveðnar fyrirmyndir þegar ég byrjaði en þær eru að bjóða góða vöru á góðu og viðráðanlegu verði. Ég segi að góðir hlutir gerast hægt og ég lít bara björtum augum á framtíðina,“ segir Guðrún að lokum með bros á vör.