Mannlíf

Sögur úr Safnasafni og víðar í Listasafni Reykjanesbæjar
Fimmtudagur 6. febrúar 2020 kl. 09:45

Sögur úr Safnasafni og víðar í Listasafni Reykjanesbæjar

Nýtt starfsár Listasafns Reykjanesbæjar hefst með opnun þriggja sýninga föstudaginn 7. febrúar kl. 18. Það telst til nokkurra tíðinda að aðalsýning safnsins samanstendur af verkum frá Safnasafninu á Svalbarðsströnd en safnið fagnar í ár 25 ára afmæli sínu með ýmsum hætti. Listasafn Reykjanesbæjar, sem ítrekað hefur notið vinsamlegrar fyrirgreiðslu Safnasafnsins á undanförnum árum, ákvað að taka forskot á þessi hátíðahöld með því að efna til sýningar á fjórum listamönnum úr ranni þess. Verk þeirra hafa verið snar þáttur í starfsemi Safnasafnsins hið nyrðra á undanförnum árum en hafa ekki verið áberandi hér syðra. Áherslur Safnasafnsins hafa verið á að safna því sem kallað hefur verið sjálfsprottin myndlist eða alþýðulist, oft verkum sjálfmenntaðra listamanna sem ekki hafa hlotið verðskuldaða viðurkenningu. Þannig vill Safnasafnið opna augu fólks fyrir fegurð mismunandi hluta og minninga, samhljómi persónulegrar iðju og fjöldaframleiðslu samhliða því sem safnið axlar þá ábyrgð að varðveita einstæð verðmæti.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Hálfdan Ármann Björnsson, Jón Eyþór Guðmundsson, Sæmundur Valdimarsson og Sigurður Einarsson. Þeir þrír fyrstnefndu má segja að séu afkomendur fornrar tréskurðarhefðar og í verkum þeirra renna saman fjörlegir hugarheimar þeirra og íslensk alþýðumenning, frásagnir af óvæginni lífsbaráttu almúgafólks og tilraunum þess til að gera sér lífið bærilegra með frásögnum af „kynlegum kvistum“ og íbúum í álfabyggð. Málverk Sigurðar Einarssonar umlykja þessar veraldarsýnir þrívíddarlistamannanna, uppfull með síkvikt samspil mannsækinnar náttúru og náttúrutengds mannlífs, ekki ósvipað því sem við sjáum í málverkum Jóhannesar Kjarvals. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Lífangar Arnbjargar Drífu

Á sama tíma verður opnuð sýning á verkum leirlistarkonunnar Arnbjargar Drífu Káradóttur og ber sýningin titilinn „Lífangar.“

Til sýnis verða verk unnin úr leir og postulíni en innblástur þeirra er jörðin, jurtaríkið og dýraríkið. Form eru stílfærð út frá náttúrufyrirbærum og frjálslega túlkuð með blandaðri tækni. Tilraun er gerð til að ná fram hughrifum, ýmist á nærgætinn eða áleitinn hátt, frá hugarkyrrð til hræringa. Lífangi, listaverkið sem sýningin dregur nafn sitt af, er samsett úr nokkrum skúlptúrum og leitast við að laða fram augljósar tengingar við sjávar- og jurtaríki. Verkið er unnið úr postulíni og mun á leikandi hátt teygja anga sína út í rýmið.

Arnbjörg Drífa hefur unnið með leir í yfir tuttugu ár, hún er menntaður keramískur hönnuður frá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Drífa var í starfsnámi í Kaupmannahöfn hjá Christian Bruun 2016–2017. Hún er í hópi Raku-skvísanna sem koma reglulega saman og holu- og rakúbrenna leir og sýndu þær m.a. á Ljósanótt 2019. Drífa rekur eigin vinnustofu í Reykjanesbæ, þar sem hún leggur megináherslu á rennslu, bæði með postulín og steinleir. Lífangar er fyrsta einkasýning Drífu. Sýningarstjóri er Inga Þórey Jóhannsdóttir, myndlistarmaður.

Úrval úr safneign

Loks verður opnuð sýning á úrvali verka úr safneign Listasafnsins sem safnið hefur eignast á síðustu tíu árum og kennir þar ýmissa grasa. Sýningarstjóri er Inga Þórey Jóhannsdóttir.

Ókeypis aðgangur er við opnun sýninganna og allir hjartanlega velkomnir. Safnið er opið alla daga frá kl. 12 til 17 og sýningarnar standa til 19. apríl.