Mannlíf

Smíðar glæsilega skartgripi úr mynt og gömlum skeiðum
Hér má sjá hluta þeirra hringa sem Óskar hefur smiðað en honum finnst silfur vera fallegasti málmurinn. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 24. desember 2021 kl. 12:19

Smíðar glæsilega skartgripi úr mynt og gömlum skeiðum

Óskar Herbert Þórmundsson, fyrrverandi lögreglumaður, hefur fengið útrás fyrir sköpunargleðina á síðustu árum við smíðar á glæsilegum skartgripum sem eru vægast sagt frumlegir og fallegir. Víkurfréttir litu inn á verkstæðið hjá Óskari og spurðu hann út í hvernig þetta fór af stað hjá honum.
Óskar ætlaði að verða listmálari en svo fór að hann starfaði við löggæslu í um fimmtíu ár. Fyrir aftan Óskar er málverk sem hann málaði af Helgu Ragnarsdóttur, eiginkonu sinni.

Hvernig byrjaðir þú á þessu, skartgripasmíði er nú varla hluti af lögreglunáminu?

„Nei, nei. Ég fór í Tækniskólann þegar það voru haldin námskeið þar, svona silfurnámskeið,“ segir Óskar. „Ég byrjaði á að sjá þetta á YouTube, að menn voru að smíða hringa úr peningum og varð alveg heillaður af því.

Þetta er svolítið skemmtilegt. Þú gerir gat í peninginn og snýrð honum við. Maður verður að passa sig að eyðileggja ekki neina stafi og svoleiðis, þannig að það er svolítil kúnst að snúa honum við.“

Óskar segir að þegar hann var byrjaður að gera hringa úr peningum fór hann að fá áhuga á að læra meira um málma. „Svo vindur þetta upp á sig maður minn, því þegar ég var búinn að vera í svona peningahringagerð þá langaði mig að læra meira um málma. Af því að málmur ekki það sama og málmur, það eru auðvitað þessir eðalmálmar sem eru gull og silfur – og auðvitað kopar líka. Það eru þessir þrír eðalmálmar, fyrsta, annað og þriðja sætið.“

Handavinna hefur alltaf heillað

Óskar var hugfanginn af listsköpun og gekk í Myndlistar- og handíðaskólann áður fyrr. Hann ætlaði að leggja listmálun fyrir sig en örlögin taka oft í taumana og breyta áætlunum fólks. 

„Þetta hefur alltaf heillað mig, myndlist og bara allt handverk. Ég átti ástralska konu og við komum hingað frá Ástralíu um haustið 1971 – og hún þá ólétt. Nú, ekki gat ég lagt list á borð fyrir fjölskylduna og sá að það var auglýst í lögregluna. Það er skemmst frá því að segja að ég gekk í lögregluna og var þar í tæp fimmtíu ár.“

Ferill Óskars í lögreglunni átti eftir að spanna nærri hálfa öld og á þeim tíma kom hann að fjölmörgum hliðum lögreglustarfsins. Hann var lögreglumaður, rannskóknarlögreglumaður, yfirlögregluþjónn auk þess sem hann var fulltrúi Íslands hjá NATO um tíma.

Vissulega eru munirnir sem Óskar smíðar einstakir.

Með handverkið í genunum

„Handverkið er í genunum, mamma var ofsalega flínk í höndunum. Hún saumaði út og gerði allskonar handverk, var ofsalega handlagin,“ segir Óskar og sýnir fallegan útsaum eftir mömmu sína.

„En það skipti ákkúrat engu máli fyrir konur á þessum árum hversu handlagnar þær voru, þær fengu enga viðurkenningu fyrir sín störf. Ég er alveg viss um að handbragðið kemur þaðan, frá mömmu.“

Það er nú sennilega eitthvað til í þessu hjá honum Óskari því það er ekki bara hann sem hefur gott lag á að vinna fallega muni í höndunum, börnin hans tvö, Þorbjörg og Þorkell, hafa bæði erft þessa hæfileika. „Tobba er í myndlistinni og Keli smíðar gítara,“ segir hann og er augljóslega ánægður með það.

Lá við hjónaskilnaði

„Þegar ég datt í það að búa til hring úr silfurskeið fór ég að leita hér heima, fann box og tók einn hring sem ég sagaði í sundur. Helga var að fljúga og ég sýndi henni þetta stoltur. „Sjáðu hvað þetta er flott, hvað þetta er fallegur hringur,“ segi ég. „Þetta er Renaissance (endurreisnartímabilið).“

„Rosalega er þetta fallegur hringur,“ segir hún og heldur áfram: „Bíddu, ég kannast eitthvað við munstrið.“

„Svo fór hún að gramsa í skúffunni hjá sér, sá að það vantaði eina skeið og fann eina sundurskorna hjá mér. Hún kom nánast með tárin í augunum og sagði: „Sagaðir þú í sundur ... eyðilagðir þú skeiðina mína?“ Þá var þetta brúðargjöf sem hún hafði fengið en ég bjargaði hjónabandinu með því að kaupa nýja, samskonar skeið,“ segir Óskar kíminn á svip.

Vinstra megin má sjá hálsmen, hring og skeið með Reykjavíkurmunstrinu. Það er vissulega fallegt og við hæfi að borgarfulltrúi skrýðist því í kvöldverðarboði í Höfða.

Enginn hringur eins

Handverk Óskars er mjög fallegt og hann vandar til verka við skartgripasmíðina. „Þetta er nákvæmnisverk og það þarf að hugsa vel út í það sem maður gerir. Þegar ég geri hringa úr silfurskeiðum þá kveiki ég þær saman til að gera hring. Margir snúa þær bara og þá verða þær ekki hringar heldur svona vafningar en ég geri það ekki. Vandinn er að glóhita þetta saman án þess að skemma munstrið,“ segir Óskar og sýnir mér fallegan hring sem hann hefur gert úr silfurskeið með Reykjavíkurmunstrinu. Samskeitin eru hvergi sjáanleg og það er ekki að sjá að hringurinn hafi nokkurn tímann verið skeið. „Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi, átti ekki til orð þegar hún sá þetta hjá mér. Hún gengur með þetta flesta daga og bar þetta t.d. í kvöldverðarboði í Höfða þar sem allir borgarfullltrúar voru saman komnir. Þá var hún með hálsmen og hring sem ég bjó til með þessu munstri en í Höfða borða allir með silfurborðbúnaði sem er skreyttur með þessu Reykjavíkurmunstri. Þetta er öndvegissúla Ingólfs Arnarsonar.“

Er kominn á eftirlaun

Óskar er kominn á eftirlaun og hættur að vinna en aðgerðarleysi fer honum ekki vel. „Ég gæti ekki verið að gera ekki neitt. Hvað á maður að fara að gera þegar maður er búinn að vinna alla sína ævi? Á maður bara að setjast fyrir framan sjónvarpið og bíða?,“ spyr hann.

Hann hefur gaman af því að vinna við handverkið en svo á golfið huga hans allan yfir sumartímann – og það getur verið tímafrekt.

„Fólk hefur verið að segja að ég þurfi að láta vita meira af þessu, ég nenni ekki að fara að vinna út í skúr – ég er kominn á eftirlaun. Þetta er bara hobbý en ef einhverjir vilja kaupa af mér þá er það í góðu lagi því þetta kostar allt saman. Þetta er dýrt hráefni.“

Óskar við vinnuborðið.