Lyfta.is
Lyfta.is

Mannlíf

Skrautlegir hattar á árlegu púttmóti
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
fimmtudaginn 21. júlí 2022 kl. 13:10

Skrautlegir hattar á árlegu púttmóti

Góð þátttaka var á árlegu hatta-púttmóti sem haldið var níunda árið í röð á púttvellinum Mánaflöt þann 19. júlí. Þau Eydís Eyjólfsdóttir og Hafsteinn Guðnason standa að mótinu en um er að ræða púttmót þar sem þátttakendur spila hring á vellinum og skarta litríkum og skrautlegum höfuðfötum og frjálsum upphæðum safnað til styrktar Íþróttafélagsins Ness.

Eftir að hafa spilað hring saman á vellinum gæddu þátttakendur sér á kaffi, vöfflum og kökum og veitt verðlaun fyrir flottasta höfuðfatið. Þátttakendur kusu um það hver bar flottasta hattinn og voru þau Jónas Franzson og Gunnþórunn Gunnarsdóttir kosin hattakóngur og hattadrottning þetta árið. Eydís, sem er oftast kölluð Dísa, segir mótið alltaf vera jafn skemmtilegt. „Þetta er dásamlegt fyrir fólk til þess að hafa eitthvað að gera og hreyfa sig í góðum félagsskap,“ segir hún.

Myndir frá hattamótinu má sjá hér að neðan:
Eydís og Hafsteinn

Hatta-púttmót 2022