Mannlíf

Skammast mín fyrir að baka ekki eins og ömmur mínar gerðu
Föstudagur 27. nóvember 2020 kl. 07:23

Skammast mín fyrir að baka ekki eins og ömmur mínar gerðu

Halldís Jónsdóttir, flugfreyja, er ein af mörgum sem nýta sér netverslun fyrir jólin en hún bakar ekkert og skammast sín svakalega fyrir það. Halldís er áhugasamur kylfingur og yrði ekki mjög svekkt ef það væri golfdót í jólapakkanum.

– Ertu byrjuð að kaupa jólagjafir?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Já, heldur betur, ég hef nýtt mér netverslunina og 11/11 kom sterkur inn.

– Hvað með jólaskreytingar, eru þær fyrr í ár?

Ég er  vön að byrja að skreyta á fyrsta í aðventu en er núna búin að setja ljós í glugga og bæti í hægt og rólega.

– Skreytir þú heimilið mikið?

Skreyti ekkert svaka mikið, frekar látlaust en finnst þessi tími skemmtilegur og reyni að hafa hann huggulegan.

– Bakar þú fyrir jólin og ef hvað þá helst?

Ég baka ekkert fyrir jólin og verð að segja að ég skammast mín svakalega fyrir það. Sérstaklega í ljósi þess að ömmur mínar, Gunna og Hædý, voru báðar svaka bakarar og ég hefði betur lært af þeim.

– Hvernig sérðu desember fyrir þér í ljósi Covid-19?

Jólastemmningin þessi jól verður lágstemmd eins og gefur að skilja. Við förum rólega yfir og reynum að njóta sem best.

– Eru fastar jólahefðir hjá þér?

Jólin hjá mér byrja í hádeginu á Þorláksmessu, þá eigum við hjónin brúðkaupsafmæli og við förum í mat til mömmu og pabba þar sem pabbi eldar spænskan saltfiskrétt. Ég reyni að vera búin að þessu helsta og við njótum dagsins. Uppáhaldsdagur ársins hjá mér og jólin komin.

– Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir?

Ég man alltaf eftir jóladegi sem var haldinn hátíðlegur á Hringbrautinni hjá ömmu Gunnu og afa Jóa í mörg ár. Þar sameinuðust móður- og föðurfjölskyldan mín og við eyddum deginum saman. Þar var oft margt um manninn, verið að borða frá morgni til kvölds. Minnist þess tíma með mikilli hlýju og er glöð að eiga þessar góðu minningar.

– Hefurðu sótt messu um jólahátíðina?

Er ekki mjög kirkjurækin en fór í miðnæturmessu á aðfangadagskvöld fyrir mörgum árum og fannst mjög hátíðlegt.

– Eftirminnilegasta jólagjöfin?

Eftirminnilegasta jólagjöfin eru sennilega skíðin sem við Jói bróðir fengum eitt árið. Pabbi hafði mikið fyrir að fela þau en auðvitað lágum við út í glugga og sáum hann setja þau út í skúr á aðfangadag. Við vorum svo mætt í Jónasarbrekku á jóladag á Atomic-skíðunum.

– Er eitthvað sérstakt sem þig langar í jólagjöf?

Til að ég geti nú bætt mig í golfinu, þá held ég að með góðu fleygjárni (Wedge) og nokkrum tímum hjá golfkennara þá smelli þetta allt saman!

– Hvað verður í matinn hjá þér á aðfangadag?

Ég er svo heppin að maðurinn minn sér alveg um matseldina á jólunum. Við erum vanaföst og strákarnir okkar velja matinn. Undanfarið hefur verið rækjukokteill, hamborgarhryggur og súkkulaðikaka. Svo erum við mamma pínu dekraðar, viljum helst ekki reykt kjöt og fáum kalkúnabringur.

Hver veit nema eiginmaður Halldísar laumi nýju fleygjárni í jólapakka fyrir frú Halldísi.