Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Sjórinn heillaði mig
Andrés Pétursson, skipstjóri á Hafdísi SU 220.
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
sunnudaginn 2. júní 2019 kl. 21:59

Sjórinn heillaði mig

„Pabbi var skipstjóri og ég fór fyrst á sjó með honum svona fimmtán til sextán ára. Ég var sjóveikur í byrjun en það sjóaðist til. Ég prófaði seinna að vinna í landi en það átti ekki við mig, sjórinn heillaði mig meira. Launin á sjó voru góð og það hafði auðvitað áhrif,“ segir Andrés Pétursson, 42 ára skipstjóri í Grindavík.

Andrés fór í skipstjórnarnám árið 2000 og er skipstjóri í dag. „Þetta starf á vel við mig en ég viðurkenni að eftir að ég eignaðist fjölskyldu þá er fjarveran erfiðari. Þetta starf er fínt tekjulega séð en ekki fjölskyldulega séð. Þetta er kannski bara eins og hver önnur vinna þannig, að ef þú vilt þéna vel þá þarftu að vinna mikið. Menn geta tekið sér frí ef þeir vilja en hér áður fyrr var róið út í eitt og keyrt á þessu. Í dag er meiri sveigjanleiki,“ segir Andrés sem staddur var um borð í línubátnum Hafdísi SU 220 frá Eskifirði, að ganga frá bátnum fyrir sumarfrí.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Það er nú svona þegar kvótinn er búinn þá verða menn að taka sér frí allt sumarið. Þá er gott að hafa lagt fyrir og geta tekið sér frí. Einhverjir fara að vinna við eitthvað annað á sumrin á meðan báturinn er í landi. Þegar menn taka langt stopp frá sjónum þá er einhver velgja í þeim þegar þeir fara aftur á sjó en það lagast fljótt. Ég tek mér frí í sumar og ætla að njóta þess að vera með fjölskyldunni, æðislegt og allt óráðið hvað við gerum en ég hlakka til sumarsins. Ég þarf samt að kíkja á bátinn og hafa eftirlit með honum,“ segir Andrés og brosir þegar hann talar um fríið framundan.