bygg 1170
bygg 1170

Mannlíf

Sjoppan mikilvæg
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
miðvikudaginn 23. október 2019 kl. 07:33

Sjoppan mikilvæg

„Það var gott að alast upp í Keflavík, ég á margar góðar minningar þaðan. Margir kynlegir kvistir voru þá sveimandi um bæinn eins og Gvendur þribbi, Blakki, Stína Hjalta, Beggi og fleiri,“ segir Keflvíkingurinn Unnur Þórhallsdóttir þegar hún rifjar upp minningar úr gamla bænum hennar en Reykjanesbær fagnar 25 ára afmæli á þessu ári.

„Þegar ég byrjaði í skóla þá gekk ég í Barnaskóla Keflavíkur sem var græni skólinn efst á Skólaveginum. Var þar í tvo eða þrjá vetur og svo fór ég í stóra skólann sem heitir í dag Myllubakkaskóli og var þar upp í 7. bekk. Í frímínútum fórum við krakkarnir í Ragnarsbakarí á Hringbraut til að kaupa snúð og við hliðina inn í Nonna og Bubba til að ná okkur í gos. Við fórum líka í Sölvabúð og þar afgreiddi okkur Kaja danska, sem sagði alltaf: „Hvað ætla ég að fá?“. Svo héngum við á sjoppunni Brautarnesti við Hringbraut á kvöldin. Eftir barnaskólann fór ég í Gaggó, sem er Holtaskóli í dag, og var þar í fjögur ár. Þá var ýmislegt brallað og margir góðir kennarar voru að kenna í Gaggó sem þurftu að þola ýmislegt frá okkur krökkunum. Þegar við vorum komin í Gaggó þá fórum við alltaf í frímínútunum út í Skúlabúð sem var í Lyngholtinu.“

Krakkarnir alltaf að hittast

„Félagslífið fór aðallega fram á Hafnargötunni og löbbuðum við vinkonurnar upp götuna þar, upp og niður í hvaða veðri sem var. Þar var líka hangið á planinu við Aðalstöðina, á Dorró, á Ísbarnum hjá Kalla og fyrir utan Ungó þegar þar voru böll. Svo var farið á Mánabar eftir sundferðir til að fá sér pylsu. Einu sinni í viku var opið í Æskulýðsheimilinu og þá var auðvitað farið þangað. Stundum voru haldin böll á föstudagskvöldum og þá voru allir þar.

Bíóin voru vel sótt og það kom fyrir að við fórum í fimm-, sjö- og níubíó. Alltaf var farið í bíó á fimmtudögum því það voru sjónvarpslaust kvöld.“

Ókeypis á íþróttaæfingar

„Íþróttalífið er ofarlega í minningunni. Það var auðvelt að æfa hinar ýmsu íþróttir, man ekki eftir að það hafi þurft að borga nokkuð. Við vorum hvött áfram af snillingnum Sigga Steindórs sem var ekki ánægður með okkur ef við skiptum yfir í Ungmennafélagið til að geta spilað á Landsmótum því KFK var hans lið!

Á veturna spilaði ég handbolta og æfði sund. Ég spilaði handbolta með mörgum góðum stelpum eins og Gullu Jóns, Gestínu, Viggu, Laufey Kristjáns, Hebbu Daða, Hildi og Kristínu Kristjáns, Ingu Lóu og vinkonum mínum Auði Harðar, Jóu Reynis, Þurý, Sissu og Önnu Þóru ásamt fleirum. Á sumrin æfði ég fótbolta og voru helstu fyrirmyndir mínar úr karlaliðinu, eins og Gísli Torfa, Guðni Kjartans, Villi Ketils og fleiri stjörnur.“

Vantar meira líf á Hafnargötu

„Munurinn sem ég sé helst í Keflavík er sá að bærinn hefur stækkað gríðarlega og fólkinu fjölgað. Ásýnd hans hefur batnað til muna en þó finnst mér Hafnargatan vera líflausari en hún var hér áður fyrr. Ég kem reglulega til Keflavíkur til að hitta vini og fjölskyldu. Ég á marga góða vini sem búa enn í Keflavík og árgangurinn minn er duglegur að hittast. Mér þykir afar vænt um ‘58 árganginn og það er dýrmætt hversu góðir vinir við erum enn þann dag í dag.“