Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Sextán ára með sína fyrstu bók
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 29. desember 2020 kl. 07:03

Sextán ára með sína fyrstu bók

Ætluð öllum dönsurum og hjálpar þeim að skipuleggja sig betur

Dagbjört Kristinsdóttir, sextán ára dansmær úr Reykjanesbæ og nemi í Verslunarskóla Íslands, lét drauminn rætast og gaf hún út sína fyrstu bók nú í haust. Hún teiknaði og myndskreytti bókina sjálf auk þess að setja hana upp sjálf í tölvunni með hjálp móður sinnar. Þá gerði hún líka vefsíðu utan um verkefnið.

„Síðasta haust ákvað ég að hanna mína eigin bók sem lokaverkefni í 10. bekk. Mig hafði alltaf langað til að eiga hina fullkomnu dagbók sem inniheldur allt sem maður þarf í að skipuleggja sig á einum stað. Þá fór ferlið fyrst af stað en tók svo pásu eftir að ég skilaði verkefninu. Svo tók ég þá ákvörðun í sumar að gefa bókina út og endurhannaði næstum allt. Ég teiknaði og myndskreytti allt sjálf og fékk svo hjálp frá mömmu við að setja bókina upp í Indesign umbrotsforritinu og senda svo í prentun. Hún er ótrúlega opin, svo allir geti aðlagað hana sínu dansnámi og lífi. Bókin er ætluð öllum dönsurum á öllum aldri og hjálpar þeim að skipuleggja sig betur,“ segir ungi dansarinn en aðal áhugamál Dagbjartar er dans og fleira sem tengist list. Hún hefur æft dans frá því hún var fimm ára og æfir jazzballett og fleiri dansa auk þess að kenna í DansKompaníi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Dagbjört var með ákveðnar hugmyndir hvernig væri hægt að gera hina fullkomnu dagbók.

„Stór hluti bókarinnar er óskrifaður, bara auðar og línustrikaðar blaðsíður svo hægt sé að skrá hjá sér það sem mann langar. Auk þess eru gátlistar og fleira sem hægt er að fylla út þegar þörf er á. Svo inniheldur hún stóran kafla um svefn íþróttafólks og mikilvægi hans, stóran kafla um næringu og mataræði, fullt af hollum uppskriftum og svo tók ég viðtal við atvinnudansara sem er mjög áhugavert að lesa um.

Ferlið gekk ótrúlega vel þrátt fyrir Covid-19 og allt gekk hratt fyrir sig. Það var í byrjun ágúst sem ég hófst við að endurhanna allt og svo fór bókin í forsölu 1. nóvember. Auðvitað var þetta ekki allt dans á rósum en allt hafðist á endanum og ég er svo ánægð með útkomuna. Í náinni framtíð langar mig að gefa út aðra bók sem höfðar þá til alls íþróttafólks, ekki bara dansara og er því miklu stærri hópur. Mig langar að vinna meira í heimasíðunni minni og stækka hana, ásamt því að hanna meira og hef verið með alls kyns vangaveltur í gangi. Hvað nám varðar, langar mig að klára framhaldsskólanámið í Verzló og fara svo erlendis að dansa, annað hvort í nám eða vinnu. Ég hef hugsað mér að fara í prufur fyrir skóla í London og Danmörku á komandi ári en næst á dagskrá er samt önnur bók,“ segir dansarinn og útgefandinn ungi.