Mannlíf

Sex ára í saltfiskvinnu hjá afa
Miðvikudagur 1. maí 2019 kl. 11:55

Sex ára í saltfiskvinnu hjá afa

Kristín Eyjólfsdóttir, vaktstjóri í Íþróttamiðstöðinni Garði

„Já, hátíðisdagur verkalýðsins skiptir mjög miklu máli. Það á að gefa verkafólki frí þennan dag svo það geti sameinast í baráttunni. Ég á svo góðan yfirmann sem gefur alltaf frí 1. maí jafnvel þótt að gestir okkar hafi óskað eftir því að við höfum opið þennan dag. Hann er mjög innstilltur á að verkafólk og aðrir fái frí 1. maí. Það á að virða þennan dag meira en gert er. Allt hefur breyst í sambandi við þennan dag og kröfugöngur eru nánast horfnar. Við megum ekki gleyma tilgangi þessa dags og við eigum að láta unga fólkið okkar vita fyrir hvað dagurinn stendur. Við þurfum að halda okkur vakandi í launabaráttunni,“ segir Kristín Eyjólfsdóttir, vaktstjóri í Íþróttamiðstöðinni Garði

Hvað finnst þér um verkalýðsforystuna á landsvísu?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Það er komin ný verkalýðsforysta bæði hér og þar. Ég held að það hafi verið fínt að fá nýtt fólk inn núna. Fólk má ekki vera of lengi í formennsku. Það er gott að fá nýtt blóð inn reglulega til að viðhalda baráttuandanum. Alla vegana líst mér mjög vel á lífskjarasamninginn nýja, það sem ég er búin að kynna mér.“

Áttu minningu um 1. maí?

„Ég man eftir mér sex ára gamalli að breiða saltfisk hjá Odd afa í Prestshúsum í Garðinum. Þegar rigndi, voru allir kallaðir til að ná fiskinum inn í stæður. Ég var bara ellefu tólf ára þegar ég byrjaði að vinna í humar á sumrin en þá fengum við að garndraga í vélum, eitthvað sem börn á þessum aldri fengju sjálfsagt ekki að gera í dag. Ég vann í fiski í mörg ár en þetta var fyrsta starfið mitt. Man eftir svaka stemningu rétt fyrir 1. maí þegar við þurftum að verka allan aflann fyrir hátíðsdaginn 1. maí því þá var auðvitað gefið frí í frystihúsinu. Ég fór þá stundum í kaffi í hús verkalýðsfélagsins í Garðinum sem var alltaf í boði þennan dag. Fólk var prúðbúið. Þetta var hátíðsdagur og íslenski fáninn alls staðar dreginn að hún. Karlarnir fóru í jakkaföt, fólk dubbaði sig upp, klæddi sig í sparifötin, konur og karlar og börnin með. Allir gerðu sér dagamun. Mér finnst börn í dag missa af miklu sem fá ekki að kynnast fiskvinnu eða vinnu í frystihúsi en mér skilst að það megi ekki ráða yngra en sautján átján ára. Krakkar frá fermingaraldri hefðu svo gott af því að kynnast þessum störfum á sumrin, þó það væri ekki nema að vinna hálfan daginn í frystihúsi.“