Rúmfatalagerinn 17.maí
Rúmfatalagerinn 17.maí

Mannlíf

Séra Erla Guðmundsdóttir:  Fékk púrtvín í altarisgöngunni
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
sunnudaginn 21. mars 2021 kl. 07:10

Séra Erla Guðmundsdóttir: Fékk púrtvín í altarisgöngunni

„Ég fermdist 12. apríl árið 1992 í Keflavíkurkirkju. Dagurinn var eftirminnilegur og gleðilegur eftir allt tilstandið sem staðið hafði yfir í marga mánuði. Hugmyndir að veitingum velt fyrir sér í marga mánuði. Allt málað innadyra og parket lagt á heimilið. Mamma saumaði rúmteppi, gardínur og púða í herbergið mitt sem var í stíl við hræðilega myntugræna veggi. Ég hafði fengið að vera miðdepill allan veturinn í stórfjölskyldunni sem sífellt spurði um fermingardaginn og margt sem honum tilheyrði. Er ég lít til baka finnst mér fallegt hversu mikinn áhuga og athygli fólkið sýndi þessum degi. Frá þessum degi fyrir 29 árum hefur fermingarversið fylgt mér; Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir. (Fil. 4, 13.),“ segir Sr. Erla Guðmundsdóttir, sóknarprestur í Keflavíkurkirkju.

Sólning
Sólning

– En fermingarfræðslan?

„Fermingarfræðslan fór fram í gamla Kirkjulundi. Sr. Lárus Halldórsson leysti sr. Ólaf Odd af í námsleyfi. Síðar kom sr. Helga Soffía Konráðsdóttir honum til hjálpar því við þóttum víst erfið. Við vorum vikulega í fræðslu. Um haustið söfnuðum við auglýsingum í fermingarblaðið sem við svo seldum um vorið. Þar komu myndir af hverjum hópi með nafni og heimilisfangi allra. Þetta var vegna skeytasölunnar. Ég á enn blaðið. Ég veit ekki hvort ég skar mig úr hópnum en það sem ég hafið gaman af fræðslunni. Öllu því sem sagt var og kennt. Tók innra með mér ákvörðun um að vera sjálfboðaliði í Keflavíkurkirkju þegar ég yrði fullorðin. Foreldrar voru boðnir á fund. Mínir komu heim skellihlæjandi þar sem þau voru öll látin syngja Úmbarassa. Þetta er reyndar góð hugmynd sem við höfum ekki reynt. Sr. Helga Soffía og þáverandi eiginmaður hennar Sr. Toshiki Toma fermdu okkur. Gaman að segja frá því. Þau eru mínir kollegar í dag og Toshiki hefur verið með vikulegar bænastundir í Keflavíkurkirkju fyrir flóttafólk.“

– Þurftirðu að læra mikið utan að?

„Við þurftum að kunna Faðir vorið, trúarjátninguna, Litlu biblíuna og Gullnu regluna.“

– Hvernig var veislan?

„Foreldrar mínir, ömmur, móðursystur og mágkona mömmu lögðu mikið á sig að útbúa fallega fjölskylduveislu mér til heiðurs. Á borð var lagður svínahamborgarhryggur með öllu tilheyrandi, marsípanskreytt fermingarkaka sem var eins og Biblía, heimagerð kransakaka og fleira góðgæti. Ótal sparistell úr mörgum áttum staflað á borð við nellikkuskreytingu. Sjónvarpssófinn settur í svefnherbergið til að rýma fyrir veisluborðinu og hjónarúmið í bílskúrinn til að koma sófanum fyrir. Það voru nær 70 manns sem komu í veisluna. Þröngt heimafyrir en það var aldrei inni í myndinni að fara með veisluna í sal. Eftir á að hyggja var þetta hálfgerð klikkun, að mála allt áður en tuttugu börn komu með kámuga fingur og leggja nýtt parket er allir gengu inn á skónum.“

– Altarisgangan?

„Altarisgangan fór fram í sjálfri fermingarathöfninni. Þá gengu fjögur fermingarbörn í einu, ásamt foreldrum, til altaris og krupu við gráturnar. Við fengum oblátu og nær fullan bikar af víni og ég man enn hvað þetta var vont. Með þessu formi tók altarisgangan langan tíma. Þá var púrtvíni útdeilt en í dag erum við með lífrænt ræktaðan vínberjasafa.“

– Fékkstu margar gjafir?

„Ég fékk úr, gullhring, tjald, útskorinn prjónastokk, þrjá þríkrossa, trú, von og kærleikshálsmen, box með hárrúllum til að hita, gullnælu, orðabók, 39 þúsund krónur, hnakk, hillur, allt nýtt í herbergið. Ég á þetta allt í dag nema hillurnar, hnakkinn og aurana.“

– Hvernig varstu klædd?

„Ég var í hvítum kjól, blúndusokkum og hvítum skóm með slaufu og stóra, hvíta slaufu í hárinu.“

– Svafstu með rúllur nóttina áður, fórstu í greiðslu, í ljós og fleira?

„Eldri stelpur lögðu okkur línunar með ljósabekkina. Kaupa tíu tíma kort. Byrja hægt, annan hvern dag og svo daglega síðustu fimm skiptin. Hversu marga tíma við ættum að hafa klút yfir andlitinu svo við myndum ekki brenna. Samviskusamlega og þakklátar fórum við eftir þessum leiðbeiningum. Það voru miklir útreikningar í kringum ljósabekkjaferlið. Ég fékk heitar rúllur í hárið um morguninn og þurfti því ekki að sofa með þær og gloss á varirnar sem var risastórt skref í förðun fyrir mig.“