Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Selur danskt smurbrauð á Spáni
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 15. nóvember 2020 kl. 07:00

Selur danskt smurbrauð á Spáni

Keflvíkingurinn Einar Ragnarsson fékk hugmyndina þegar hann gekk strandlengjuna í Torrevieja. Opnun fyrirtækisins seinkaði um fjóra mánuði vegna Covid-19 og veiran hefur sett allar áætlanir úr skorðum.

Í vikufríi á Spáni fékk Keflvíkingurinn Einar Ragnarsson þá óvanalegu hugmynd að opna smurbrauðsfyrirtæki við Spánarströnd. Hann var ekkert að tvínóna við hlutina, stofnaði fyrirtæki og var farinn að smyrja danskt smurbrauð nokkrum mánuðum síðar, reyndar fjórum mánuðum síðar en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það skall nefnilega á heimsfaraldur og það hafði auðvitað áhrif á nýja ævintýri Keflvíkingsins sem mánuðina á undan hafði selt Suðurnesjamönnum málningu frá Flugger og þar á undan stýrt Húsasmiðjunni í Reykjanesbæ.

– Hvernig byrjaði þetta snittuævintýri þitt á Spáni?

Public deli
Public deli

„Það er nú saga að segja frá því en ég var alls ekki að hugsa um að flytja til Spánar þegar það kom upp – en til að gera langa sögu stutta þá var góð vinkona mín og strákurinn hennar í þriggja vikna sumarfríi í Torrevieja og ég skrapp þangað í viku. Á hverjum morgni gekk ég niður að strandlengjunni þar sem smábátahöfnin er og fram hjá tennisvöllum sem þarna eru. Ég var alltaf að rekast á Svía, Dani og Norðmenn sem ég spjallaði við og fór að spá í að það væri ábyggilega hægt að selja þeim „dansk smørrebrød“. Gunný hafði búið í Svíþjóð þar sem systir hennar var með fyrirtækið Snitten í Vejbystrand sem bjó til og seldi danskt „smørrebrød“ og hafði verið að hjálpa henni með það. Ég hafði kíkt í heimsókn þangað og þaðan kom hugmyndin um „smørrebrød“ sem ég gæti örugglega gert að veruleika á Spáni.

Ég hafði strax samband við öll sendiráð Norðurlandanna og fékk uppgefið hversu margir byggju á þessu svæði og hvar. Þegar ég hafði kortlagt þetta og sá hversu gífurlega margir væru þar, sumir allt árið og aðrir mestan hluta úr ári varð ég sannfærður að þetta væri möguleiki og ég hafði fundið út að enginn annar var að gera neitt í þessum dúr. Ég fór í framhaldinu að gera viðskipta-, kostnaðar- og söluáætlun miðað við það sem seldist í Vejbystrand og fólksfjöldann þar og varð heltekinn af þessu – ákvað að vera ekkert að bíða heldur gera þetta að veruleika strax.“

Snittur á netinu

– Hvar ertu með þetta og hvernig fer starfsemin fram?

„Framleiðslan fer fram í Almoradí sem er meðalstór bær á þessum slóðum með svipaðan íbúafjölda og Reykjanesbær, 22.500 manns, en þetta er týpískur spænskur bær og lítið sem ekkert um ferðamenn og örfáir útlendingar búa í bænum. Ég hef verið spurður margoft hvernig í ósköpunum mér datt í hug að vera með starfsemina í Almoradí. Því er til að svara að þegar ég hafði kortlagt hvar Skandinavarnir bjuggu á Alicante-svæðinu þá er Almoradí í miðjunni. Ég hugsaði fyrirtækið sem netfyrirtæki, enda heitir það Snittenonline og ég ætlaði að vera í mesta lagi í 30 mínútna fjarlægð frá væntanlegum viðskiptavinum. Starfsemin fer þannig fram  að pantanir berast á netinu og eru afgreiddar daginn eftir, annað hvort með heimsendingu eða sóttar á næsta afgreiðslustað. Við erum með tvo staði, í Torreviega og Almoradí, en reyndar er einnig hægt að koma á þessa staði og kaupa beint úr afgreiðsluborðinu. Síðan erum við í samstarfi við danska pylsuvagna sem staðsettir eru á mörkuðum, annar á Lemon Tree Market og hinn á Zoco Market, ásamt því að vera með sölu á veitingastaðnum Sugar Terrace Bar í La Finca, Algorfa.“

– Hvað er vinsælast og hvernig hefur þetta gengið?

„Ef ég byrja á því að svara hvernig þetta hefur gengið þá hefur einfaldlega ekkert af mínum áætlunum gengið eftir, sérstaklega ekki söluáætlunin en ég hef gert þær margar í mínum störfum hingað til. Við erum með um 25% af áætlaðri sölu og viðskiptaáætlunin eftir því. Ekki get ég nú sagt að mér hafi yfirsést eitthvað en ég gerði einfaldlega ekki ráð fyrir að allur heimurinn myndi breytast vegna veiru og hefur þetta ástand sett stórt strik í reikninginn hjá okkur eins og hjá flestum öðrum. Það stóð til að opna í febrúar en við gátum ekki opnað fyrr en í júlí þegar búið var að aflétta útgöngubanni og öðrum hindrunum. Þetta gengur mjög vel miðað við aðstæður og er engin spurning um að þetta dæmi getur bara farið upp á við. Viðtökurnar eru með ólíkindum og við erum endalaust með mjög svo ánægða viðskiptavini. Salan hefur aukist í hverri viku. Þetta er allt á réttri leið. Aðalmarkhópurinn er ekki á svæðinu eins og er og styttist í að hann komi en reikna má með að af þeim 22.000 Norðurlandabúum sem búa hér mestan hluta úr ári, en eru núna í sínum heimalöndum, munu 65% skila sér alveg á næstunni og þá bætist hressilega í kúnnahópinn. Þannig að hér er bara bjartsýni í kortunum og skemmtilegir hlutir að takast á við.

Ég vissi að til að þetta gengi upp þyrfti ég að að fá vinkonu mína með í dæmið og kæmi hún inn með sína þekkingu, kæmi framleiðslunni af stað og kenndi okkur hinum handtökin og útsjónarsemina varðandi það sem þarf að hafa í huga myndi þetta ganga vel. Ég komst að því að þetta er ekki „bara að smyrja brauð“ frekar en „málning er bara málning“. Það er vandasamt að mála vel og vandasamt að gera „smørrebrød“ svo vel sé og allt sem er í kringum það. Maður þarf að gera þetta með hjartanu og aldrei slaka á gæðakröfum.“

Roastbeef og rauðsprettan vinsælast

„Vinsælast er Roastbeef og þar á eftir er rauðspretta en það er gaman að segja frá því að við erum með tvær útgáfur af henni, annars vegar með majónesi, rækjum og svörtum kavíar ásamt gúrku, tómat og sítrónu sem samlandarnir eru hrifnari af og hins vegar með remúlaði, gúrku, tómat og sítrónu sem Svíar og Danir velja frekar. Þar á eftir kemur lifrarkæfa með söltuðu nautakjötssneiðum yfir, kjötsoðshlaupi og rauðlauk sem danskurinn kallar „Dyrlægens natmad“ (næturmáltíð dýralæknisins). Marineruð síld, steikt síld, purusteik og lax koma svo þar á eftir en við erum með fimmtán mismunandi tegundir eins og er. Við fáum allt hráefni frá Danmörku, t.d. glútenfrítt rúgbrauð, lifrarkæfu, Roastbeef, remúlaði, rauðsprettu, rækjur og lax en laxinn er norskur og rækjurnar eru veiddar við Grænland. Kál, tómatur, gúrka og annað grænmeti ásamt ostum er héðan.“

– Hvenær fluttir þú til útlanda og af hverju.

Það gerðist allt mjög hratt eftir að ég sá fram á að þessi hugmynd gæti orðið að veruleika. Ég fékk hugmyndina 10. júlí 2019 og þremur vikum seinna, 31. júlí, sagði ég upp vinnunni.  Svo í framhaldinu fór ég út í hverjum mánuði í misjafnlega langan tíma, stofnaði fyrirtækið, skoðaði fjöldan allan af húsnæði og keypti fyrirtækjabíl og fleira. Eins og ég sagði í upphafi þá var ég ekkert að hugsa um að flytja út en langaði að framkvæma þetta strax. Ég sagði Vigfúsi yfirmanni mínum í Flügger frá þessu og fékk mikinn stuðning og leyfi til að vera frá vinnu af og til svo framarlega sem allt væri í „orden“ í búðinni eins og hann orðaði það. Það má segja að Bubbi sé smá áhrifavaldur en ég er Bubba-fan og er með húðflúr á handleggnum með textanum „Lífið er aðeins dagurinn í dag og dagurinn á morgun ekki til“ úr laginu „Við vatnið“. Hef farið svolítið eftir þessu og langar að segja að ef einhver hefur löngun í að gera eitthvað svipað og sér möguleika á því að gera það að veruleika, þá láta vaða. Hafa þó eitt í huga sem ég hugleiddi mikið, um bæði fjárhagslegu hliðina og önnur mál. Að ég væri tilbúinn til að taka áhættu en þó ekki meiri en ég gæti ráðið við. Ég flutti svo út 30. nóvember og Covid-19 kom svo nokkru seinna og riðlaði öllu en sem betur fer lítur þetta allt vel út og er bjart framundan.“

„Ekkert af mínum áætlunum hafa gengið eftir, sérstaklega ekki söluáætlunin en ég hef gert þær margar í mínum störfum hingað til. Við erum með um 25% af áætlaðri sölu og viðskiptaáætlunin eftir því.“

Lítið um smit

– Hvernig er lífið þarna úti á Spáni, með tilliti til Covid-19 og svoleiðis?

„Það hafa verið fyrirsagnir í blöðunum heima um neyðarástand, útgöngubann og lokanir á ýmsum rekstri. Þetta er rétt en þó villandi, svipað eins og þegar hlutir eru teknir úr samhengi en á Alicante-svæðinu á margt af þessu ekki við. Flatarmál Spánar er rúmlega 500.000 ferkílómetrar með tæpar 48 milljónir íbúa og er virkilega slæmt ástand í norðurhlutanum þar sem meirihlutinn býr en Alicante-svæðið er grænasta svæðið á landinu og mjög lítið um smit. Hér í bænum var eitthvað um smit og var t.d. verið að slaka á með því að opna leiksvæði sem voru lokuð. Hér eins og annars staðar nota allir grímur og hendur sprittaðar áður en farið er inn í allar verslanir og alla aðra staði og hefur svo verið síðan í mars. Sett var á bann við að fara á milli sýslna til að koma í veg fyrir að fólk sé að ferðast inn á þetta svæði með hugsanlegt smit. Annars gengur lífið sinn vanagang og lítið rætt um Covid og að setja á sig grímu er jafn sjálfsagt og að setja á sig öryggisbelti og maður hefur lent í því að keyra með grímuna í fimmtán, tuttugu mínútur án þess að taka eftir því. Útgöngubannið, frá miðnætti til sex á morgnana, hefur ekki áhrif á neinn nema þá sem ætluðu sér á djammið eftir miðnætti.  Væri líklega einnig til gagns annars staðar en mikið af smitunum í Madrid í byrjun þriðju bylgjunnar voru einmitt rakin til skemmtistaða sem voru opnir fram á nótt.“

– Það væri nú gaman að fá snittur á Suðurnesin.

„Já, það er eitthvað til að pæla í – í framtíðinni. Þetta er svo gott og ég veit að það er margir sem eru sólgnir í danskt „smørrebrød“ og gætu hugsað sér að fá sér af og til. Við erum alltaf með ferskt, nýsmurt brauð á hverjum degi og seljum aldrei frá deginum áður. Það er oft eitthvað eftir og hef ég borðað tvo til þrjú brauð á nær hverjum degi í fjóra mánuði og verð eiginlega svekktur ef það klárast allt og ég fæ ekkert. Það væri nú gaman að geta boðið upp á þetta í heimabænum, hver veit? Þó ekki væri nema nokkra daga á ári til að byrja með,“ segir Einar og hlær. „Ég á miða á tónleika með Bubba 21. apríl 2021 og hver veit nema verði boðið upp á „smørrebrød“ frá Snitten 22. og 23. apríl á einhverjum veitingastaðnum heima. Ég tek á móti pöntunum á www.snittenonline.com,“ sagði Einar að lokum.