bygg 1170
bygg 1170

Mannlíf

Sá skrattann í hverju horni eftir að hafa lesið 1984
Mánudagur 21. október 2019 kl. 09:29

Sá skrattann í hverju horni eftir að hafa lesið 1984

Arnar Ingi Tryggvason er lesandi vikunnar. Hann starfar hjá Express ehf. og hefur einnig verið virkur í starfi Leikfélags Keflavíkur.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Stúlkan sem gat ekki fyrirgefið, ágætis heilaleysa úr hugarheimi Stig Larson eftir David Lagercrantz.

Hver er uppáhaldsbókin?

Þær eru margar en það sem situr helst í manni eru bækur sem maður las þegar maður var barn og enduruppgötvar þegar maður er orðinn uppalandi sjálfur. Dýrin í Hálsaskógi trónir þar efst á baugi.

Hver er uppáhaldshöfundurinn?

Þessi er erfið, það er sennilega sá sem ég er að lesa hverju sinni.

Hvaða bók hefur haft mestu áhrifin á þig?

Bækur geta verið svo margslungnar og mótandi, sú sem hefur líklega haft mest áhrif á mig á þeim tíma þegar ég las hana er 1984 eftir George Orwell. Eftir þá lesningu sá ég skrattann í hverju horni.

Hvaða bók ættu allir að lesa?

Þá bók sem vekur áhuga þeirra hverju sinni.

Hvar finnst þér best að lesa?

Þar sem ég er staddur hverju sinni held ég, sennilegast les ég þó oftast uppi í rúmi á síðkvöldum eða við rúmgaflinn hjá dóttur minni fyrir svefninn.

Hvaða bækur standa upp úr sem þú mælir með fyrir aðra lesendur?

Vestfjarðaþrílekur Jóns Kalmans, Hamskiptin eftir Kafka, Kirkja hafsins eftir Ildefonso Falcones og ýmislegt fleira í þeim dúr.

Ef þú værir fastur á eyðieyju og mættir velja eina bók til að hafa hjá þér, hvaða bók yrði fyrir valinu?

Góði dátinn Svejk, einfaldasta og  jafnframt flóknasta bókmenntapersóna allra tíma.