Max Norhern Light
Max Norhern Light

Mannlíf

Reykjanesið er fallegast - sjáið flottar myndir
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 23. maí 2020 kl. 07:58

Reykjanesið er fallegast - sjáið flottar myndir

Krilla og Milla bjóða upp á fjölbreyttar gönguferðir um Reykjanesið og Stór-Reykjavíkursvæðið.

Vinkonurnar og leiðsögumennirnir Milla og Krilla hafa boðið upp á mánudagsgöngur á Reykjanesinu og á Stór-Reykjavíkursvæðinu að undanförnu. Hefur verið nokkuð góð mæting og í vikunni komu um 60 manns.

„Við ætlum að halda þessu áfram út maí og jafnvel aðeins inn í júní. Fyrir mig fædda og uppalda í Keflavík finnst mér allt hér á Reykjanesinu fallegast en Sogin sem við gengum á síðasta mánudag eru með því fallegra á skaganum. Verst hvað vegurinn þangað er erfiður og hægfara,“ segir Kristin Jóna Hilmarsdóttir, Krilla, í samtali við Víkurfréttir. Krilla hefur verið á fleygiferð sem leiðsögumaður og göngugarpur undanfarin ár, hér á landi og einnig hefur hún farið með hópa til útlanda.

„Í þessum gönguferðum síðustu vikur höfum við farið á nokkra staði: Mánudaginn 4. maí var farið með um 30 manns á Ketilstíg við Seltún í Krýsuvík. Önnur gangan okkar, 11. maí, í henni fórum við skemmtilegan hring í Búrfellsgjá frá Kaldárseli og miðað við veðurspá vorum við bara nokkuð ánægðar að fá tuttugu manns. Þriðja ferðin, 18. maí, þá fórum við með 60 manns um sjö kílómetra hring um Sogin sem er sérkennilegt háhitasvæði fyrir sunnan Trölladyngju og Grænudyngju, stundum kallað litli Laugarvegurinn. Við fengum vin okkar, áhugaljósmyndarann og augnlækninn Ólaf Má Björnsson, með í för og fór hann í hraðkennslu hvernig á að taka flottar myndir á símann og vinna þær aðeins fyrir samfélagsmiðla,“ sagði Kristín Jóna og bætti því við að ekki væri búið að fastsetja næstu göngur en hvatti áhugasama að fylgjast með viðburðum á Facebook, MilluogKrillu ferðir.

Hér má sjá umfjöllunina og myndirnar stærri í rafrænum Víkurfréttum.