Blik í auga
Blik í auga

Mannlíf

Reykjanesbær hleypir þrautaleik af stað
Laugardagur 23. maí 2020 kl. 10:59

Reykjanesbær hleypir þrautaleik af stað

Reykjanesbær hleypir af stað þrautaleik fyrir allar fjölskyldur í Reykjanesbæ. Þrautaleikurinn, sem er í samstarfi við Skemmtigarðinn, fer fram 23.-24. maí og það eina sem þátttakendur þurfa til að taka þátt er sími. Ratleikurinn er haldinn í stað árlegrar barnahátíðar sökum breyttra aðstæðna í samfélaginu.

 „Okkur langaði svo að koma til móts við fjölskyldur sveitarfélagsins. Hin árlega barnahátíð var tilhlökkun fyrir marga og við gátum ekki annað en gert eitthvað fyrir fólkið í sveitarfélaginu. Leikurinn er sérstaklega hannaður með menningarverðmæti sveitarfélagsins í huga. Einnig viljum við hvetja fjölskyldur til að fara út og hreyfa sig dálítið en sérstök hreyfivika hefst hér í bæ í næstu viku. Ekki sakar að veðurspáin er okkur svo sannarlega í hag en við eigum von á tveggja stafa tölum og logni alla helgina,“ segir Guðlaug María Lewis, verkefnastjóri menningarmála hjá Reykjanesbæ.

Fjórir leikir eru í boði. Í Njarðvík, Keflavík, Innri-Njarðvík og í Ásbrú og í Höfnum sem flokkast sem einn leikur. Til að spila leikinn þarf að sækja „Loquiz“ appið.

„Þrautaleikurinn nær að sameina menningarhluta hátíðarinnar sem og fjölskyldudaginn sjálfan. Hægt er að taka þátt í öllum fjórum leikjunum eða skipta þeim niður eftir staðsetningum. Leikurinn er opinn alla helgina og gefst þátttakendum að hefja leik eftir eigin hentisemi,“ segir Guðlaug.

 Vegleg verðlaun verða veitt fyrir ýmsa þætti í leiknum. Nokkrir heppnir þátttakendur verða einnig dregnir út. Smelltu hér til að skrá þig til leiks.