Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Reykjanesbær 25 ára: íbúar bæjarins góndu á viðkomandi meira en góðu hófi gegndi
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
sunnudaginn 22. september 2019 kl. 08:06

Reykjanesbær 25 ára: íbúar bæjarins góndu á viðkomandi meira en góðu hófi gegndi

„Aðkomumanneskja gat átt von á því að íbúar bæjarins góndu á viðkomandi meira en góðu hófi gegndi,“ segir Guðrún Eggertsdóttir þegar hún rifjar upp æskuminningar sínar úr Keflavík en Víkurfréttir höfðu samband við brottflutta Keflvíkinga og Njarðvíkinga í tilefni 25 ára afmæli Reykjanesbæjar og báðu þá að rifja upp gamla tíma. Þar kom margt forvitnilegt fram um hvernig bæjarlífið var á árum áður.

Góðar æskuminningar

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Mér þótti gott að alast upp í Keflavík en stærsti hluti móðurfjölskyldunnar og hluti föðurfjölskyldunnar bjó þar. Það var öryggi í þessu og líka því að fólk var ekki mikið að skipta um húsnæði eða vinnustað. Þess vegna geta brottfluttir Keflvíkingar áttað sig á fólki í bænum með því að spyrja hvar viðkomandi hafi átt heima eða við hvað viðkomandi vann. Nú skiptir fólk oftar um vinnu eða heimili svo það er ekki hægt að nota þetta ráð lengur til að rifja upp kynni sín af fólki,“ segir Guðrún Eggertsdóttir.

Lítið af aðkomufólki

„Í uppvexti mínum var ekki mikið um aðkomufólk í bænum, ekki fyrr en Fjölbrautaskóli Suðurnesja tók til starfa. Það bar svo sjaldan við að aðkomumanneskja gat átt von á því að íbúar bæjarins góndu á viðkomandi meira en góðu hófi gegndi. Breyting varð á þessu þegar Fjölbrautaskóli Suðurnesja tók til starfa. Þá fór að sjást fólk í bænum, sem kom allsstaðar að af landinu, svo það var til að æra óstöðugan að ætla að átta sig á öllum þeim fjölda. Nú ber svo við að það sjást jafnvel erlendir ferðamenn í bæjarfélaginu. Á unglingsárum mínum var á tímabili ekki hægt að finna kaffihús í bænum en í dag er hægt að velja á milli veitingahúsa og er það vel.“

Fjölbreytt menningarlíf í Keflavík

„Á þessum árum voru mun færri skólar í bænum en í dag. Það voru barnaskólinn, nú Myllubakkaskóli, „litli“ skólinn við Skólaveg, gagnfræðaskólinn og iðnskólinn sem síðar varð grunnurinn að Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tónlistarskóli Keflavíkur stóð við Austurgötuna og sinnti veigamiklu menningarhlutverki í bænum. Æskulýðsheimilið var á efri hæðinni í húsinu og á miðvikudagskvöldum var þar starfrækt „opið hús“ en þangað komum við unglingar bæjarins, sumir til að spila fótboltaspil en flestir til að æfa dansana sem við höfðum lært í dansskólanum fyrr í vikunni. Eins og nærri má geta var margt um manninn og mikið fjör. 

Seinna komumst við á sveitaball í Stapa, jafnvel í Festi í Grindavík og enn seinna á diskótek í Bergás og það var ekki minna skemmtilegt. Rúnturinn var meldingarpunkturinn. Upp úr fermingu þótti bráðnauðsynlegt að hitta vini og kunningja á Hafnargötunni „á rúntinum“. Þá gengum við upp og niður Hafnargötuna, frá rútustöðinni (sem þá var að Hafnargötu 12) að Aðalstöðinni og aftur til baka, margar ferðir. Við vinkonurnar komum við á Brautarnesti, á leið á rúntinn, til að kaupa ís, hvort sem það viðraði til þess eða ekki, ís var keyptur allt árið um kring. 

Það var mikið tónlistarlíf í bænum og flestir þekktu einhvern sem var í hljómsveit og margar þeirra voru vinsælar um allt land. Við vorum ekkert gamlar stelpurnar sem vorum í Telpnakór Keflavíkurkirkju sem söng við barnamessur á hverjum sunnudagsmorgni.

Sunnudags- og fimmtudagskvöld voru bíókvöld. Valið stóð um að fara í Nýja bíó eða Félagsbíó. Okkur vinunum fannst það spennandi að nýjustu myndirnar voru nær undantekningarlaust sýndar í bíóunum í Keflavík áður en þær fóru til sýninga í Reykjavík eða annars staðar á landinu.“

Vinsælt að fara í sundlaugina

„Sundhöll Keflavíkur var mikið stunduð, mest þó á kvöldin. Þá var þar var margt um manninn og mikil læti en mjög gaman. Upp úr 1968 var haldin sundkeppni árlega í nokkur ár, á milli Norðurlandanna og sú keppni var tekin alvarlega af okkur sem þá vorum um það bil að komast í „bláu bókina“. Markmiðið með keppninni var að synda 200 metra og hægt að fá brons-, silfur- eða gullmerki, eftir því hvaða árangri var náð. Keppt var um hvert Norðurlandanna fengi flesta þátttakendur og hversu mikið var synt í hverju landi fyrir sig. Auðvitað vann Ísland alltaf, því eins og oft var miðað við höfðatölu þegar árangurinn var metinn. Aðrir eru betur til þess fallnir en ég að rifja upp annað íþróttalíf í bænum, sem var og er enn mjög öflugt.“

Mikil atvinna

„Þegar ég var unglingur var mikla vinnu að hafa í Keflavík. Ef ég man rétt voru alls sjö frystihús starfandi í bænum. Skólakrakkar spurðu ekki hvert annað hvort og þá hvaða vinnu þeir hefðu fengið yfir sumarið, heldur var spurt: „Í hvaða frystihúsi verður þú í sumar?“ Sumarhýran var drjúg, sjaldnast var einungis dagvinnu að fá því oftast var um mikla eftirvinnu og næturvinnu að ræða. Á þessum tíma var ekki talað um barnaþrælkun, engin hafði heyrt talað um slíkt. Yngstu starfsmennirnir í frystihúsunum voru þó rétt um fermingu og stundum yngri. Þetta var þó ekki fyrsta vinnan hjá okkur stelpunum því við vorum „í vist“ á sumrin eða réttara sagt, við pössuðum börn sem voru litlu yngri en við sjálfar. Farið var með þau á róló eða í skrúðgarðinn og deginum eytt þar. Við lékum okkur og hjálpuðumst að með börnin en ef eitthvað kom upp á þá voru mömmur okkar flestra heimavinnandi og hægt að fá þær til aðstoðar. Um ellefu, tólf ára aldurinn unnum við í bæjarvinnunni við að hreinsa götur og garða.“

Snjór á veturna

„Þegar snjóaði á veturna voru skíðasleðar og skautar dregnir fram og við renndum okkur líka á snjósleðum í „Jónasarbrekkunni“. Þegar frysti var stundum sprautað vatni á malarfótboltavöllinn til að búa til skautasvell. Það var ekki leiðinlegt að skauta þar á kvöldin, þegar búið var að lýsa upp völlinn en ég er ekkert viss um að íbúarnir í nágrenninu hafi verið mjög ánægðir með lætin í okkur unglingunum.“

Handavinnusýning

„Það rifjaðist upp fyrir mér að þegar haldið var upp á 25 ára afmæli Keflavíkurkaupstaðar, árið 1974, var sett upp sýning í Barnaskólanum í Keflavík á verkum nemenda við skólann. Ég tók þátt í uppsetningu á sýningunni ásamt öðrum skólasystkinum og kennurum. Síðan eru liðin nokkur ár og bærinn orðin 70 ára. Það er því vel við hæfi að senda bænum heillaóskir á þessum tímamótum.“

Guðrún Eggertsdóttir.