Stilling Bílaþjónusta Suðurnesja
Stilling Bílaþjónusta Suðurnesja

Mannlíf

Presturinn sem elskar að lesa spennusögur
Séra Fritz Már Jörgensson, prestur við Keflavíkurkirkju.
Laugardagur 6. apríl 2019 kl. 12:00

Presturinn sem elskar að lesa spennusögur

Hann er ekki bara prestur við Keflavíkurkirkju heldur er hann með kirkju á netinu og skrifar spennusögur í frítíma sínum. Séra Fritz Már Jörgensson hóf störf um haustið 2017 hjá Keflavíkursókn, sem er sú stærsta á Suðurnesjum, en fram að því starfaði hann sem prestur í Noregi hjá norsku þjóðkirkjunni. Hann er kvæntur séra Díönu Ósk Óskarsdóttur, sjúkrahúspresti á Barnaspítala Hringsins, og saman eiga þau fimm börn og þrjú barnabörn.

Hvernig líkar honum starfið í Keflavíkurkirkju?
„Bara ótrúlega vel. Samfélagið við kirkjuna hér er svo gott. Söfnuðurinn svo virkur og duglegur að sækja kirkjuna sína. Mér hefur einnig verið vel tekið af öllum sem hér starfa. Það er bara svo gott fólk hérna. Keflavík þekkti ég áður, hingað hef ég alltaf haft góð tengsl í gegnum skyldfólk mitt en dágóður hópur af frændfólki mínu býr hér. Alveg frá barnæsku hef ég komið hingað suður með sjó. Svo þetta hefur bara verið ánægjulegt allt saman. Ég kem hérna inn í kirkju þar sem er frábær stemning og gott samstarf. Það er margt fólk sem kemur að því að gera þetta samfélag svona einstakt. Fólkið í bænum eru virkir þátttakendur og sækja hingað einnig vegna sálgæslu. Tengslin eru á svo breiðum grunni við Keflavíkurkirkju því hér erum við að þjóna öllum sem þurfa þess með,“ segir séra Fritz í einlægni. Það er kraftur sem fylgir röddinni hans Fritz og auðvelt að hrífast með þegar hann talar sem kemur sér örugglega vel fyrir prest.

Lifandi starf í kirkjunni
„Við erum ekki eingöngu með messur á sunnudögum heldur bjóðum við upp á fleiri góðar stundir. Ein þessara stunda er kyrrðarstund í hádeginu á miðvikudögum í kapellunni sem er mjög vel sótt. Eftir þessa stund er súpusamfélag í boði kirkjunnar og fólk nýtur þess að spjalla saman. Innflytjendur koma svo í kjölfarið og eiga bænastund á ensku. Á þriðjudögum í hádeginu erum við einnig með kyrrðarbæn í kapellunni en það er annað form á þeirri stund. Þar fer fram kristileg íhugun sem stendur yfir í tuttugu mínútur, einskonar hugleiðsla. Þá getur fólk komið hingað í hvíld og ró mitt í amstri dagsins. Kyrrð og friður fyrir þá sem vilja skreppa hingað. Svo erum við að fara af stað með Æðruleysismessu á miðvikudagskvöldum, sem verður einu sinni í mánuði, alltaf fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði klukkan 20 í kirkjunni. Þetta verður notaleg kirkjustund sem hefst 3. apríl. Upphaflega voru þessar messur hugsaðar fyrir fólk sem tengist tólf spora vinnu en hefur þróast yfir í að laða til sín fólk sem vill vinna í sjálfu sér. Gott að getað farið í kirkju í miðri viku að kvöldi og allir eru velkomnir.“

Að sýna hvert öðru kærleika
„Ég er mjög opinn með mína trú. Heima hjá mér biðjum við borðbænir og þökkum fyrir hverja máltíð. Ég held að meirihluti fólks hafi einhverja trú. Flestir höfðu barnatrú í æsku sem þróast og þroskast. Við signum okkur og förum með bænir. Við tileinkum okkur kristin gildi sem ganga út á það að sýna náunganum kærleika og vera til staðar þegar á bjátar. Við erum búin að vera með fermingarfræðslu fyrir níutíu unglinga í allan vetur. Krakkarnir eru svo frábærir, við þurfum að gefa okkur tíma til að kynnast þeim, hlusta á þau og vera til staðar. Kjarni kennslu okkar hefur verið að hjálpa þeim að tileinka sér boðskap Jesú um að koma fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig. Hugsaðu þér hvernig veröldin væri ef við vildum öll fylgja þessu kærleiksboðorði Krists. Veröldin væri góð.“

Til hvers að fermast?
„Þegar við fermum okkur þá erum við að staðfesta skírnina. Skírnin snýst ekki aðeins um trú heldur einnig um menningu og hefðir samfélags okkar, eitthvað sem þjóðin hefur gert í yfir þúsund ár. Þegar við erum að skíra þessi litlu skinn þá erum við að tengja þau inn í samfélag um kristin gildi sem snúast um náungakærleika. Við viljum öll að börnin okkar verði góðar manneskjur og umgangist gott fólk. Kærleikur umvefji líf barna okkar. Það er mannlegt að fara af leið en svo gott að geta ratað aftur til baka og farið inn á góða veginn aftur. Þar höfum við kristna trú. Fyrirmyndin er náttúrlega Jesús Kristur. Þetta var náungi sem umgekkst alla jafnt. Hann var í raun sá fyrsti fullkomni femínisti og dæmdi engan. Jesús setti skýr mörk og fylgdi ávallt sannfæringu sinni, hlustaði á innri röddina sína. Ég spyr oft sjálfan mig: „Hvað hefði Jesús gert?“ þegar ég er í vafa um eitthvað verkefni í lífi mínu og svarið kemur yfirleitt um hæl,“ segir séra Fritz og heldur áfram að tala um fermingarfræðsluna sem fram fer í Keflavíkurkirkju.

„Fermingarfræðslan fer fram þegar börnin okkar eru á mörkunum að verða fullorðin. Þau velta ýmsu fyrir sér og spyrja áleitinna spurninga um lífið og tilveruna. Við byrjum ávallt fermingarfræðsluna með því að fara með hópinn í Vatnaskóg því það er alltaf svo gaman í skóginum og þar fer fram mjög gott hópefli. Þau sem fermast vilja verða kristnir einstaklingar, auðvitað eru þau að spá í gjafirnar og veisluna en í grunninn vilja þau tilheyra kristinni trú. Við finnum það þegar við erum að kynnast þeim allan veturinn. Unglingar eru í raun alltaf eins. Þau eru vel upplýst og „gúggla“ prestinn ef þau vilja vita eitthvað meira um hann. Þá er eins gott að saga þín í rafrænu formi sé þér hliðholl,“ segir séra Fritz og hlær dátt.

„Nei, í alvörunni eru þetta frábærir krakkar og við viljum mæta þeim þar sem þau eru á þessum aldri. Við tölum um allt milli himins og jarðar við þau, nálgumst þau á forsendum þeirra en umfram allt á jafningjagrunni. Það þarf að ræða alla þá þætti sem snerta líf unglingsins, það getur verið kynhlutverk og fíkniefni. Ef maður skoðar þessa krakka þá eru þau bara svo einbeitt og falleg í trúnni. Við viljum efla þau í að hlusta á eigin innri rödd og samvisku sína. Við lærum um góðu gildin saman, æfum okkur í að verða að betri manneskjum.“

Ekki bara prestur
Yfir í allt annað því Fritz er ekki bara séra heldur einnig rithöfundur sem skrifar glæpasögur.
„Já, ég skrifa krimma, hefðbundna norræna krimma. Ég les sjálfur rosalega mikið og finnst ákveðin tegund af krimmum svo magnað verkfæri til þess að taka eitthvað samfélagslegt fyrir, eitthvað mein í samfélaginu okkar en það getur þessi ákveðna tegund af norrænni glæpasagnahefð gert. Fyrsta bókin mín var gefin út árið 2007 en síðan þá hafa fjórar bækur verið gefnar út. Fimmta bókin mín kemur út í apríl og heitir Líkið í kirkjugarðinum. Það er miklu meira en að segja það að skrifa heila bók en voða gaman þegar bókin er komin út á prent. Ég fæ ákveðna slökun út úr því að skrifa. Við hjónin erum einnig með kirkju á netinu sem nefnist netkirkja.is og er fyrir þá sem vilja fá hugvekju frá prestum, senda inn fyrirbænir og lesa orð dagsins. Netkirkja.is varð óbeint til úr doktorsverkefni mínu og er í dag samstarf sem margir prestar sem koma að,“ segir séra Fritz Már Jörgensson með bros á vör.

Ljósmyndastofa Oddgeirs - Barna
Ljósmyndastofa Oddgeirs - Barna