Vilhjálmur Árnason
Vilhjálmur Árnason

Mannlíf

Pönkarinn sem varð virðulegur skólastjóri
Halldór Lárusson hefur frá mörgu að segja í þessu skemmtilega viðtali enda marga fjöruna sopið á sínum ferli. VF-mynd: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 13. mars 2021 kl. 12:59

Pönkarinn sem varð virðulegur skólastjóri

Halldór Lárusson er skólastjóri Tónlistarskóla Sandgerðis, hann er fæddur á Akureyri en fluttist sem barn til Reykjavíkur „... og er bara svona miðbæjarrotta, Latté-lepjandi lopatrefill,“ segir Halldór og hlær við. „Ég bjó lengst af í borginni en hef reyndar búið víða síðan þá, bæði hér heima og erlendis.“ Við Halldór tókum tal saman í slagverksstofu tónlistarskólans og hann hefur frá ýmsu skemmtilegu að segja.

Gastu ekki valið þér eitthvað annað hljóðfæri? 

„Menning heillaði mig mikið strax frá unga aldri. Ég hlustaði mikið á tónlist, las mikið og sótti kvikmyndahús mikið. Ég er yngstur okkar systkina og Valur, bróðir minn sem er næstur mér í aldri, hlustaði mikið á músík og langaði að verða tónlistarmaður. Hann var alltaf að kaupa sér plötur og ég hlustaði mikið á græjurnar hans, stalst í þær þegar bróðir minn var ekki heima við lítinn fögnuð hans. Einn daginn kom hann heim með plötuna „Red“ með hljómsveitinni King Crimson. Þarna var ég ellefu, að verða tólf ára, og það hreinlega gerðist eitthvað í hausnum á mér. Þegar ég heyrði þessa músík þá vissi ég hvað ég ætlaði að gera það sem eftir væri – og það varð bara einstefna eftir það. Það var bara alveg á hreinu að ég ætlaði að verða trommari, kom aldrei neitt annað til greina. Ég var búinn að máta luftgitar fyrir framan spegilinn, það virkaði ekki.“ 

Faðir Halldórs var látinn og hljóðfæravalið vakti lítinn fögnuð hjá móður hans sem latti hann frekar en hvatti til tónlistarnámsins: „Gastu ekki valið þér eitthvað annað hljóðfæri?,“ spurði hún og það gerði Halldór ennþá einarðari í því að leggja þetta fyrir sig. „Á þessum tíma bjuggum við í Hlíðunum og ég fór sjálfur gangandi niður í Tónlistarskóla Reykjavíkur í Skipholt og sótti bara um sjálfur. Var tekinn í langt viðtal af Jóni Nordal, þáverandi skólastjóra. Eftir á að hyggja hefur honum örugglega þótt svolítið sérstakt að fá einhvern lítinn gutta, labbandi inn í skólann til að sækja um og viðtalið snerist að mestu um hverra manna ég væri – en ég komst inn. 

Sólning
Sólning

Á þessum árum var ekki hægt að innrita sig í nám á trommusett svo ég byrjaði í klassísku slagverksnámi, lærði á marimbu, pákur og fleira slagverk en það var alltaf trommusett út í horni og ég góndi á það. Mér fannst þetta ekki alveg það skemmtilegasta en af einhverri þrjósku hélt ég áfram, svo sótti ég alltaf einkatíma hjá Papa Jazz, Guðmundi Steingrímssyni, og fleirum eins og margir.“

Sextán ára gamall baksviðs á Hornafirði árið 1979 (t.v.) og trommað með Spilafíflum á Hótel Borg 1980 (t.h.).

Bylting þegar pönkið kom 

„Þegar pönkið kom varð alger bylting og ég tók mér hlé á tónlistarnáminu og gerðist pönkari. Allt í einu fóru allir að spila út um allt og ég þurfti að passa mig á að minnast ekki einu orði á það að ég hafi verið að læra í tónlistarskóla, það mátti ekki. Við dauðvorkenndum þessum „skallapoppurum“ sem voru að spila í cover-böndum [ófrumsamið efni], við vorum sextán, sautján ára, litum svo niður á þessa gæja og sögðum: „Við erum mættir, nú getið þið bara hætt! Þið eruð bara skallapopparar, við erum mættir og við erum ekki að fara að spila lög eftir aðra.“ Þetta var viðhorfið. 

Það er svo gaman að horfa til baka á þennan tíma,“ segir Halldór. „Nú er ég virðulegur skólastjóri tónlistarskóla og hvet fólk til að læra á hljóðfæri en ég er ofboðslega þakklátur fyrir þennan tíma því ég lærði svo mikið á honum. Málið var að maður átti ekki að gera neitt sem aðrir voru búnir að gera. Þetta ýtti manni út í það að vera skapandi og eftir á að hyggja þá lærði maður rosalega mikið á þessu.“ 

Ein æfing og tvö gigg 

Halldór hefur leikið með fjölmörgum hljómsveitum í gegnum tíðina og segir pönkið hafa verið hans stökkpall inn í bransann. „Ég var reyndar byrjaður mjög ungur, fimmtán ára, að spila á sveitaböllum. Var að þvælast með miklu eldri gaurum á Höfn í Hornafirði, Búðardal og út um allt að spila á böllum. Svo var ég að vinna í byggingavinnu eitt sumarið á Grettisgötu og verkstjórinn minn var að lesa Vísi í kaffitímanum og sagði: „Hey, það er verið að auglýsa eftir trommara í smáauglýsingunum.“ Ég hljóp út í sjoppu og fékk að hringja, mætti í prufu sama kvöldið og var ráðinn á staðnum. Síðan átti ég að mæta á æfingu daginn eftir því næstu tvo daga þar á eftir voru tónleikar. Þetta voru svaka tónleikar sem voru haldnir á sviði í Lækjargötunni, fyrir framan MR, og svo aftur í Laugardalshöllinni síðar um kvöldið. „Annað hljóð í strokkinn“, mikil pönkhátíð. Ein æfing og svo tvö gigg daginn eftir, þetta byrjaði með hvelli.“ Þetta var um 1980 og hljómsveitin var Spilafífl sem spilaði víða í kjölfarið og kom m.a. fram í kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar Rokk í Reykjavík. 

„Við vorum alveg á jaðrinum að vera samþykktir af pönkurunum því sveitin innihélt tvo sem gætu hafa uppfyllt skilyrðin að vera skallapopparar, höfðu báðir verið að spila cover-tónlist sem var alger dauðasynd. Ég og Birgir Mogensen, sem fór seinna í Kuklið, hlutum náð þannig að bandið slapp nokkurn veginn. Við vorum allir nokkuð góðir spilarar og ef maður horfir á Rokk í Reykjavík er margt þar sem eldist ekki vel – en sumt eldist ágætlega.“ 

Brjálæðistími með Bubba 

Halldór man ekki alveg hve lengi Spilafífl lifði en síðan gekk hann til liðs við hljómsveit sem hét Með nöktum ásamt bassaleikaranum Birgi Mogensen og söngvaranum Magnúsi Guðmundssyni úr Þey, hann þvældist líka með söngleik í Stúdentaleikhúsinu en svo einn daginn hringdi síminn: „... og ég var beðinn að spila með Bubba í MX-21. Ég held að ég hafi verið tuttugu og eins árs og þá tók við brjálæðistími þar sem var mikið spilað og mikil keyrsla. 

Eftir að þessu tímabili lauk fór ég aftur í tónlistarnám, fór í Tónlistarskóla FÍH sem þá var nýstofnaður og ég fór að læra á klassískt píanó. Ég vildi ekki verða einn af þessum trommuleikurum sem gamli brandarinn átti við: Hvað eru margir tónlistarmenn í bandinu? Þeir eru þrír og einn trommari,“ segir Halldór og hlær við. „Ég var reyndar búinn að vera í einkatímum hjá Birni Björnssyni, sem var upprunalegi trommarinn í Mannakornum, og hann kenndi mér gríðarlega mikið. Hann flaug ekki hátt en var æðislegur kennari.“ 

Júpíters á Reading UK Festival 1992.

Reynslan er ómetanleg

„Ég var alltaf að spila, og litið til baka er stór og ómetanlegur hluti af mínu tónlistarnámi reynsla í gegnum spilamennskuna og að vinna með fólki – allskonar fólki í allskonar tónlistarstefnum víða um heim. Eftir að hafa spilað með Bubba var hljómsveitin Júpíters stofnuð sem starfaði frá ‘88 til ‘94. Það var alveg magnað prójekt því það innihélt allt frá sprenglærðum tónlistarmönnum til fólks sem kunni nánast ekki neitt, hafði jafnvel byrjað að spila á hljóðfæri viku fyrr. Einhverra hluta vegna varð summan úr þessari blöndu alger snilld. Við gáfum út einn disk og náðum töluverðum vinsældum, stóru útgefendunum til mikillar armæðu því við gáfum þetta út sjálfir. Við urðum reyndar aldrei vinsælir út fyrir 101 má segja, þar var alltaf fullt á öllum tónleikum. Við héldum alveg tónleika annars staðar en það mættu fáir á þá, Reykjavík var okkar helsti vettvangur. Við spiluðum frumsamið efni, svona suðræna sveiflu, og tónleikarnir leystust oftar en ekki upp í böll.“


Tónlistin alþjóðlegt tungumál 

Árið 1995 flutti Halldór til Hollands, hann langaði reyndar til Frakklands en þáverandi kona hans þverneitaði að flytja þangað, sagði að Frakkar væru svo leiðinlegir. „Það var eiginlega út af tónlistinni að ég vildi flytja. Mér fannst ég búinn að gera svo margt hérna heima og hafði alltaf heillast af framandi tónlist. Systir mín t.d. bjó mörg ár í Sádi-Arabíu og var alltaf að senda mér kassettur með þjóðlegri, arabískri tónlist – sem ég skildi, þetta var eitthvað sem ég fílaði. Vinir mínir spurðu bara: „Hvað er að þér?“ Ég fattaði ekki Bítlana en ég fattaði þetta og ég hlustaði alltaf mikið á óhefðbundna tónlist. Ég var ekki mikið fyrir hefðbundna popptónlist, var alltaf út á jaðrinum að hlusta á eitthvað skrítið og fólki fannst ég svolítið skrítinn. 

Mig langaði að flytja til Frakklands því ég vissi að þar var suðupottur allskyns tónlistar, sérstaklega frá Afríku. Holland var annar valkostur og þar fór ég að vinna með manni sem hét Seydouba Soumah og var frá Gíneu í Vestur-Afríku. Við vorum með prójekt í gangi í fimm ár, þetta var stórt band, dansarar og allra þjóða kvikindi; nokkrir Gíneubúar, Íslendingur, Þjóðverji, Hollendingur og Indónesíubúi. 

Ég lærði rosalega mikið af samstarfi okkar Seydouba Soumah. Hann hafði verið barnastjarna í heimalandi sínu, Gíneu, sem liggur á milli Sierra Leone og Senegal og er eitt fátækasta land í heimi. Soumah spilaði á hljóðfæri sem heitir Kora og er svona nokkurs konar harpa með 21 streng og hann samdi mikið af ljóðum og lögum sem við fluttum. Hann var sprenglærður á þeirra vísu, þeir nota ekki nótur sem dæmi og þeirra tónlistarnám er allt öðruvísi því honum var fenginn svokallaður meistari sem hann bjó hjá. Hann var alger snillingur en er því miður dáinn, lést árið 2002. Að vinna með þeim var nýr skóli, þeir nálguðust tónlist á allt annan hátt heldur en við hér á vesturlöndum, það er allt annar hugsanagangur og mikið leikið eftir tilfinningu. Maður þurfti algerlega að endurskoða hvernig maður nálgast tónlist. Þetta er ákveðið tungumál þar sem allir geta talað saman, í þessum hópi voru nokkrir frá Gíneu og þeir töluðun nánast enga ensku, bara frönsku og ég talaði ekki mikla frönsku. Upp úr þessu sköpuðust stundum samskiptaörðugleikar eða mjög skondnir misskilningar og það var oft mikið hlegið – en við töluðum alltaf sama málið í gegnum tónlistina – og svo ég vitni í Seydouba Soumah, hann sagði: Tónlist sameinar!“


Halldór hér að spila á tónleikum í Slóveníu árið 1995 með hollensku pönksveitinni The Harries.

Spilað með hollenskri pönkhljómsveit fyrir misskilning 

Halldór bjó í Hollandi í fimm ár og á þeim tíma frílansaði hann líka, þ.e. hann lék með hinum og þessum, var þá eiginlega kominn í hlutverk skallapopparans. „Stundum varð maður bara að taka einhver gigg til að hafa ofan í sig og ég spilaði með hljómsveit sem hét September. Hún var rekin af hjónum, hann var Rússi og sá um hljóðkerfið en konan var hollensk söngkona og mikil díva. Þar var ég að spila cover-tónlist í kokkteilboðum um borð í einhverju skipi og minnisstæðasta giggið var þegar við spiluðum fyrir skattstofuna í Rotterdam, á fljótabáti á síki í Rotterdam. Ég þurfti að mæta í smóking og mátti ekki láta mikið í mér heyra – og svo þegar þessari uppákomu var lokið kom maður og borgaði okkur svart með reiðufé. Þetta er Holland í hnotskurn. 

Svo spilaði ég með hollenskri pönkhljómsveit, The Harries, fyrir misskilning. Þá var ég tiltölulega nýkominn út og að vinna í að afla mér tengsla. Ég komst nefnilega að því þegar ég kom þarna út að heimurinn er talsvert mikið stærri en Ísland – og samkeppnin harðari og allt í einu var maður bara eitthvað pínulítið peð. Þá var einhvern tímann hringt í mig að morgni, eftir að ég hafði verið að hengja upp auglýsingar og reyna að ota mínum tota. Þá var það fönkhljómsveit sem trommarinn hafði hætt daginn áður en þeir voru að fara í þriggja vikna tónleikaferðalag til Slóveníu og Króatíu og þurftu að leggja af stað á miðnætti þetta sama kvöld, þeir hringdu á milli níu og tíu um morguninn. Það var eitthvað smá dílað og vílað um laun og svoleiðis – svo sagði ég við þá að ég skildi hugsa málið í hálftíma. Nú ég hringdi til baka og sagðist vera til. Hljómsveitin flutti eingöngu eigið efni og bað mig að mæta á æfingu í hádeginu með hljóðfæri og vera búinn að pakka ofan í tösku því við myndum æfa þangað til við förum því ég þyrfti að læra lögin þeirra, þetta var 29 laga prógram. Ég hugsaði bara: „Guð minn góður!“ Nema þegar ég mæti á staðinn þá var þetta ekki fönkhljómsveit heldur pönkhljómsveit, mér hafði misheyrst. Svo það var bara æft í tíu, tólf tíma og svo haldið af stað til Slóveníu, mættum til Ljubljana klukkan átta kvöldið eftir og fyrsta gigg átti að byrja klukkan níu. Svo var ferðast um Slóveníu og Króatíu, það var mjög sérstakt. Þetta var áður en stríðinu lauk, eða því var lokið í Slóveníu en ekki í Króatíu.“

Lífshræddur við landamærastöð 

„Þar hélt ég að ég yrði drepinn, að þetta væri stundin sem ég myndi hverfa. Við vorum á landamærunum inn í Króatíu og þar var allt fullt af hertrukkum og skriðdrekum og læti. Þetta eru náttúrlega fjallahéruð og við vorum upp í einhverju skógi vöxnu fjalli. Hinir voru allir Hollendingar en ég var með íslenskt vegabréf og þá var sagt við mig: „Því miður, þú þarft vegabréfsáritun.“ Þetta var bara tveimur, þremur tímum fyrir tónleika svo nú voru góð ráð dýr og ég spurði hvar ég gæti fengið áritun. „Þú færð hana hérna hjá mér,“ svaraði hermaðurinn. „OK, get ég fengið áritun?,“ segi ég. „Já, sjálfsagt en það kostar fimm kunas,“ svaraði hann að bragði. 

Við vorum bara með þýsk mörk en það var ekki að ræða það að taka við því. Hann benti mér á að fara í banka og benti okkur á einhvern vinnuskúr hinu megin við veginn, þetta var eiginlega bara gámur og þar inni var ekkert nema gamalt skólaborð, akfeitur karl og peningaskápur. Hann skipti fyrir mig yfir í kunas, fimm kunas var kannski svona fimmtíu kall íslenskar, og ég fór til baka og borgaði landamæraverðinum sem setti einhvern límmiða í vegabréfið hjá mér. Ég tek svo vegabréfið, þakka fyrir mig og sný mér við. Þá byrjaði hann að öskra, sagði mér að stoppa, æpti á einhverja hermenn og það drífur að einhverja fimmtán, tuttugu hermenn. Ég hugsaði bara nú er þetta búið. Eina orðið sem ég skildi var „Islandia, Islandia!“ Hermennirnir hafa sennilega séð hvað ég var hræddur því þeir voru mjög alvarlegir á svipinn og hópurinn stillti sér upp fyrir framan mig. Svo fóru þeir allir að brosa og hlæja og vildu fá að taka í hendina á mér. Þá var málið að Jón Baldvin, eða réttar sagt Íslendingar voru fyrstir til að viðurkenna sjálfstæði Króatíu þannig að ég var besti vinur þeirra. Eftir það var ég alltaf fljótur að minnast á að ég væri frá Íslandi.“ 

Var að breytast í Evrópubúa 

Halldór bjó í Hollandi í fimm ár en fannst hann þá vera að breytast í Evrópubúa. „Mér fannst rosalega gott að búa þarna en þetta íslenska element sem við erum með, þennan sprengikraft. Okkur dettur í hug að gera eitthvað og framkvæmum það. „Hey, setjum upp tónleika. Þú hringir í þennan, ég hringi í þennan og höldum þá eftir tvær vikur.“ Þarna úti skipuleggur þú hlutina með hálfs árs eða árs fyrirvara og mér fannst ég vera að verða eins og þeir. Þú dettur ekkert inn í kaffi óboðinn, þú gerir það með eins, tveggja vikna fyrirvara.“ Á þessum tíma var Halldór kominn með sitt fyrsta barn og fjölskyldutengslin voru farin að toga, því ákvað hann að flytja heim aftur árið 2000. 

„Fimm ár er langur tími í tónlistarbransanum og þá er maður svolítið dottinn út úr því sem er að gerast hérna heima. Svo ég byrjaði á því að reka stuðningsheimili fyrir félagsþjónustuna í Reykjavík fyrir krakka sem voru að koma út langtímavímuefnameðferð, ég hafði unnið við það áður á meðferðarheimili sem hét Tindar og var sérhæft vímuefnameðferðarheimili fyrir unglinga. Ég sem sagt vann þar meðfram tónlistinni því það er ekki auðvelt lifa á henni einni saman. Þú þarft að segja já við öllum djobbum sem þú ert beðinn um – því ef þú segir nei hringir sá aðili pottþétt aldrei í þig aftur. Svo ég tek hattinn ofan fyrir þeim sem ná að draga fram lífið á þessu því það er ekki auðvelt. Ég vann yfirleitt með tónlistinni, allavega að hluta til. Ég rak þetta stuðningsheimili í þrjú eða fjögur ár og þá ákváðum við að flytja til Grindavíkur, ég og Fanný, núverandi konan mín sem ég hafði kynnst árið 2002.“ 

Það var svo fljótlega eftir að Halldór flutti í Grindavík að hann var beðinn um að byrja að kenna þar. 

„Það var hringt í mig úr tónlistarskólanum, ég hafði eitthvað verið að kenna prívat en þá fór ég að kenna af einhverju viti. Ég var alltaf að spila eitthvað en hafði aldrei verið í neinu föstu djobbi þótt ég hefði unnið í alls kyns verkefnum og spilað með hinum og þessum. Síðan var mér boðið að kenna hérna í Sandgerði árið 2007 og ég hef kennt á trommur hér síðan.“

Halldór, Fanný og börn kunna vel við sig í Sandgerði.

Langaði ekki að verða skólastjóri 

Árið 2013 var Halldór beðinn um að leysa þáverandi skólastjóra Tónlistarskóla Sandgerðis af vegna veikinda en hann neitaði því í byrjun. 

„Ég sagðist ekki hafa neinn áhuga á því vegna þess að mér fannst ekkert spennandi að fara að gera einhverjar fjárhagsáætlanir og launaskýrslur. Myndin sem ég hafði af starfinu var allt önnur en það í raun og veru er og svo hafði ég alltaf svo mikið að gera – en það varð nú samt úr að ég leysti af í mánuð, svo annað mánuð og þann þriðja. Áður en ég vissi af voru þetta orðin tvö ár en á þeim tíma hafði ég komist að því að þetta væri afskaplega spennandi starf; krefjandi, skapandi og gefandi. Svo þegar starfið var formlega auglýst þá sótti ég um og hef verið skólastjóri síðan.“ Halldór segist hafa fundið fljótlega að að hann langaði að flytja til Sandgerðis því hann þekkti lítið til þar þótt hann væri búinn að kenna við skólann í mörg ár. 

„Maður þekkti leiðina að skólanum og heim. Mig langaði að flytja hingað til að tengjast samfélaginu betur, að það væri hægt að ná í mann hvenær sem er ef það væri eitthvað. Svo hafði mér alltaf þótt andrúmsloftið hérna svo jákvætt gagnvart tónlistarskólanum bæði af bæjaryfirvöldum og íbúum. Ég hef unnið við kennslu þar sem andrúmsloftið er algerlega hið gagnstæða og maður var einhvern veginn alltaf með vindinn í fangið á leiðinni upp brekku. Hérna var ekki til króna í kreppunni en alltaf mætti manni þetta jákvæða andrúmsloft og það heillaði mig. Stemmningin hér heillaði mig og fjölskyldan mín var eiginlega ekkert síður áfjáð í að flytja hingað svo við fluttum hingað í desember 2017 og okkur finnst alveg frábært að vera hérna.“

 Menning verður til 

– Ég hjó eftir því að þú sagðir í lok tónleika hér í Bókasafninu að ef það er ekki menning á staðnum þá býr maður hana til. Þú hefur haft aðkomu að mörgum verkefnum hér er það ekki? 

„Ég er svona það sem er kallað „dúer“ ef ég sletti. Ég þarf alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni og ef mér leiðist þá bý ég mér til eitthvað að gera. Menning, og þá sérstaklega tónlist, er mín ástríða og þessi hugmynd eins og með Jazzfjelagið fæddist árið 2019. Það er innangengt frá okkur í tónlistarskólanum yfir í bókasafnið svo ég varpaði fram með þeirri spurningu hvort við gætum ekki haft nemendatónleika í bókasafninu, bara svona sem uppbrot til að vera ekki alltaf hérna innanhúss. Við gátum rúllað yfir öllum hljóðfærum og spiluðum bara þar. 

Ég elska bækur og ég elska tónlist. Það var fínn hljómburður í bókasafninu og þá datt mér í hug að sameina þetta tvennt með því að stofna eitthvað tónlistarfélag. Við ákváðum að kalla þetta djassfélag til að setja einhvern hatt á þetta – djassfélag er mátulega snobbað [nú hlær Halldór] en djass er svo teygjanlegt hugtak. Ég meina á Montreal-djasshátíðinni í Kanada 1988 var aðalnúmerið Bon Jovi, er það djass? Allavega myndi bókasafnið ekki bera mikla rokktónleika, það liggur í hlutarins eðli. Nú Jazzfjelag Suðurnesjabæjar var stofnað og ég fór af stað í að leita að styrkjum.“

Jazzfjelag Suðurnesjabæjar sækir í sig veðrið 

Sóknaráætlun Suðurnesja hefur staðið þétt að baki Jazzfjelags Suðurnesjabæjar og í raun haldið í því lífinu segir Halldór. Sóknaráætlun Suðurnesja og Suðurnesjabær sem leggur til aðstöðuna fyrir tónleika félagsins. 

„Svo stofnaði ég bara litla Facebook-síðu og það var bara strax fullt af fólki komið á síðuna – og tónlistarmenn höfðu samband og spurðu hvort þeir gætu spilað. Stefnan var að það yrði frítt inn, tónlistarmenn kæmu og gætu spilað fyrir gesti en við bjóðum ekki upp á neitt nema vatn og kaffi. Við getum reddað píanói en restina þyrftu þeir að koma með sjálfir.“ 

– Eru þessir tónlistarmenn að koma fram án þess að fá borgað? 

„Nei, verandi sjálfur tónlistarmaður þá þekki ég vel hvernig það er að vera beðinn að spila gegn því að fá fullt af giggum út á það. „Við getum ekkert borgað en þetta verður fínasta auglýsing fyrir þig.“ 

Hringdu í pípara og reyndu að fá hann til að koma til þín klukkan ellefu á laugardagskvöldi gegn góðum meðmælum. Ég vildi ekki bjóða tónlistarmönnum upp á það að koma hingað til að spila og fá ekkert fyrir það, það var ekki inni í myndinni. Þess vegna fór ég í það að safna styrkjum, við erum ekki að borga þeim mikið en allavega þannig að fólk fái eitthvað fyrir sinn snúð.“ 

Ferskir vindar 

– Þú hefur verið virkur í þátttöku í menningarhátíðinni Ferskir vindar. 

„Já, mér var boðið að taka þátt sem lókal listamaður og það var alveg æðislegt. Þarna voru listamenn frá átján löndum, alls konar listafólk; gjörningalistafólk, myndlistafólk, tónlistarfólk. Fólkið mætti og svo var bara byrjað að vinna. Þá minntist ég nú vinar míns, Sedouba Soumah, sem sagði tónlist sameina – en ég segi: „List sameinar!“ Þarna kom fólk frá mjög ólíkum menningarheimum og listafólk eru algerir vinnumaurar, ég held að þetta sé það harðduglegasta fólk sem þú getur hugsað þér. Að sjá atorkuna, sköpunargleðina og vinnukraftinn. Verkin í Ferskir vindar eru alls konar, þau geta verið unnin úr allskonar efni og í öllum stærðum. Sum verkin voru risastór og stundum þurfti fólk hjálp við þau, þá sameinaði hópurinn bara krafta sína áður en það sneri sér svo að næsta verkefni. Þarna var fólk að frá því snemma á morgnana og langt fram á nótt en það var náttúrlega alltaf deadline á hvenær allt þyrfti að vera tilbúið. Þetta var alveg æðisleg reynsla.“ 

Halldór á vini út um allan heim og hann segir Ferska vinda vera orðna vel þekkta menningarhátíð víða. „Ég er svo heppinn að vera með hljóðfærasamning við japanskan framleiðanda og ég heimsótti þá 2017. Ég sagði þeim frá Ferskum vindum og einn þeirra vissi allt um þá. Þetta er haldið hér á hjara veraldar en er þekktara en við gerum okkur grein fyrir, Ferskir vindar er ansi þekkt. 

Það er eitthvað við Japan, ég hef komið til hátt í fjörutíu landa en Japan er eina landið sem ég sakna á hverjum degi. Verkefnið Sacred Noise, Heilagur hávaði, var sameiginlegt verkefni mitt, japanska raftónlistarmannsins Natsuki Tamura og Amon Bey sem er franskur Bandaríkjamaður og dansari. Við ætluðum að fara lengra með verkið og vorum búnir að leggja drög að því að ferðast með það hér innanlands og í Frakklandi – svo kemur Covid og það frestaðist allt saman. 

Ég hef líka verið að vinna með hollensku tónlistarfólki í hljómsveitinni BeesandUs. Þeir taka upp lög og senda mér. Síðan tek ég upp hjá Smára Guðmunds í Stúdíó Smástirni og sendi út. Það er orðið mjög auðvelt að vinna á milli landa.“ 

Verkefnið Sacred Noise, Heilagur hávaði, sameiginlegt verkefni Halldórs, japanska raftónlistarmannsins Natsuki Tamura og Amon Bey sem er franskur Bandaríkjamaður og dansari.

Tónlistarnám er eilífðarnám 

Tónlistarskóli Sandgerðis þjónar um 170 nemendum. Inni í þeirri tölu er svokallaður forskóli, sem eru nemendur í fyrsta, öðrum og þriðja bekk. Síðan er hljóðfæraval í fjórða bekk, þá velja börnin sér hljóðfæri til að læra á í eitt ár. 

„Krakkarnir velja sér hljóðfæri til að æfa í eitt ár, þau geta náttúrlega ekki valið hvað sem er en geta valið úr ákveðnum hljóðfærum. Þetta er unnið í afar góðu samstarfi við Sandgerðisskóla og börnin æfa í tveggja til fjögurra krakka hópum, tvisvar í viku, hálftíma í senn. Með þessu læra þau undirstöðuatriðin í tónlist. Við erum með um sjötíu nemendur í einkatímum og kringum hundrað í samstarfi við Sandgerðisskóla. Við leggjum gríðarlega áherslu á að mæta þörfum samfélagsins, vera sýnileg og að hafa námið aðgengilegt og skemmtilegt samhliða hefðbundnu akademísku námi.

Hér Sandgerðismegin í Suðurnesjabæ erum við í álmu sem tengd er við Sandgerðisskóla. Það er innangengt milli skólanna og hér koma krakkarnir trítlandi á milli á sokkunum á skólatíma. Það er mikill kostur því hérna geta tónlistarkennarar mætt klukkan átta á morgnana og byrjað að kenna því við fáum að taka krakkana úr kennstustundum. Það er gert í mjög góðu samstarfi við grunnskólann og komin hefð fyrir því. Þetta fyrirkomulag reynist mjög vel, við erum að fá krakkana óþreytta og þetta brýtur líka upp skóladaginn hinu megin. Það er líka löngu búið að rannsaka að tónlistarnám styður mjög vel við stærðfræði, lestur og félagsfærni. Svíar og Bandaríkjamenn eru lengst komnir í því að nýta tónlistarnám til að styrkja þá sem eiga erfitt með lestur, stærðfræði eða við að mynda félagsleg tengsl.“ 

Ellefu ára gamall valdi Halldór sér starfsvettvang og vinnur enn við sína ástríðu. Hann segir tónlistarnám gefandi og að allir geti lært tónlist. Að læra nótur í tónlist er bæði fljótgert og það einfaldasta – en þú ert alla ævi að læra á hljóðfærið, þú nærð fljótlega ákveðinni færni en ert alltaf að bæta þig. Þetta er eilífðarnám.“

Ellefu ára gamall valdi Halldór sér starfsvettvang og vinnur enn við sína ástríðu. VF-mynd: JPK