Sindri -3-10 des
Sindri -3-10 des

Mannlíf

Pabbi er fyrirmynd mín í þessu starfi
Bjarney Sólveig Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn.
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
laugardaginn 1. júní 2019 kl. 14:00

Pabbi er fyrirmynd mín í þessu starfi

-segir Bjarney Sólveig Annelsdóttir sem er nýskipaður yfirlögregluþjónn við embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og fyrsta konan sem gegnir því mikilvæga starfi hér á landi

Yfirlögregluþjónn er næstur fyrir neðan lögreglustjóra en því starfi gegnir Ólafur Helgi Kjartansson hér á Suðurnesjum. Bjarney er yfir almennri deild og rannsóknardeild.

Baddý er hún ávallt kölluð og verður fertug í næsta mánuði. Hún er gift Sigurði Kára Guðnasyni, lögregluþjóni, og eiga þau þrjú börn saman. Baddý er sjálf elst í fjögurra systkina hópi. Hún á þrjá yngri bræður, tveir þeirra starfa sem tollverðir. Foreldrar hennar eru Annel Jón Þorkelsson og Dóra Fanney Gunnarsdóttir. Faðir hennar, Annel, er lögregluþjónn og segir Baddý það hafa haft mikil áhrif á sig þegar hún sá pabba sinn í lögreglubúningi í fyrsta sinn.

Pabbi með þrjár tölur hnepptar
„Ég var níu ára gömul þegar pabbi byrjaði í löggunni og ég man alltaf hvað hann var flottur og fínn þegar hann var búinn að klæðast búningnum á leið á fyrstu vaktina sína. Ég var rosalega stolt af pabba mínum. Mér fannst mjög merkilegt og spennandi að pabbi væri lögga en hann vann áður í fiski og tók U beygju þegar hann varð lögregluþjónn. Pabbi var flottur í lögreglubúningnum með hvítt kaskeiti á höfðinu, í glansandi svörtum lakkskóm og með þrjár tölur hnepptar. Þessir gömlu búningar fannst mér mjög virðulegir. Ég veit ekki hvort þetta hafi haft áhrif á ákvörðun mína seinna meir, að fylgjast með pabba mínum þegar ég var lítil, en eftir að ég fékk stúdentspróf árið 1999 ákvað ég að sækja um sumarstarf í lögreglunni á Keflavíkurflugvelli og fékk starfið. Ég man vel eftir konunum sem voru með þeim fyrstu hér suðurfrá til að gegna starfi innan lögreglunnar, til dæmis þeim Heiðrúnu og Brynju. Annars var ég bara venjuleg stelpa þegar ég var lítil, lék mér með dúkkurnar mínar og svona. Ég var samt mjög forvitin sem barn og las dagblöðin því ég vildi fylgjast með því sem var að gerast í kringum mig. Í grunnskóla var ég alltaf mjög ábyrgðarfull og hafði ákveðnar skoðanir á hlutunum, meira að segja hjálpaði ég stundum kennaranum að fá krakkana til að þegja. Ég fékk oft þá athugasemd frá kennurum að ég yrði mjög líklega sjálf kennari seinna meir.“

Baddý ásamt föður sínum Anneli Jóni Þorkelssyni.

Ætlaði fyrst að verða viðskiptafræðingur
Hugurinn stefndi á viðskiptafræði en hjartað fékk að ráða för þegar Bjarney valdi sér framtíðarstarfið.

„Þegar ég byrjaði sjálf í lögreglunni þá hvöttu mamma og pabbi mig áfram og studdu. Ég var mjög stolt þegar ég klæddist sjálf í fyrsta sinn lögreglubúningi og skynjaði vel ábyrgðina sem fylgir þessu starfi en innra með mér var einnig ótti. Eitt er að langa í starfið en annað að vera komin í gallann á leið á fyrstu vaktina sína. Þetta sumar vann ég aðallega í hliðinu við varnarsvæðið. Þarna vorum við aðeins tvö á vakt, ég og amerískur hermaður. Þetta voru allt aðrir tímar en í dag þegar lögreglan hefur stórmannað gæsluna til dæmis í kringum flugvöllinn vegna breyttra heimsmála, mansals og fleira. Þarna sinntum við saman gæslu í hliðinu og lögreglan sá um eftirlit á varnarsvæðinu. Ég ætlaði ekkert að ílengjast í þessu starfi en fékk ráðningu í rúmt ár eða þar til ég ákvað að slíta á naflastrenginn við foreldra mína og fara að heiman 21 árs í nám að Bifröst. Óskar Þórmundsson var yfirlögregluþjónn á þessum tíma, alveg yndislegur maður og hann sagði við mig þegar ég fór í viðskiptafræði á Bifröst; „Já, já, Baddý mín, þú kemur aftur, því þú ert lögga.“ En ég vildi fara út fyrir þægindarammann og fara að heiman enda ætlaði ég að verða ríkur viðskiptafræðingur en ekki lögga. Þegar ég var næstum búin þar með námið fannst mér þetta hundleiðinlegt og ákvað að sækja um í Lögregluskólanum fyrir árið 2003. Á þessum tíma var ákveðin valnefnd sem valdi nemendur inn í skólann. Ég vissi að ég yrði að fara í námið, sótti um og fékk inni. Ég vildi vinna með hjartanu en ekki hausnum en það geri ég í lögreglunni þó ég noti auðvitað heilbrigða skynsemi einnig í starfinu.“

Vissi að ég var á réttri hillu í lögreglunni
Mörg skemmtileg tækifæri opnuðust hjá Baddý eftir nám í Lögregluskólanum en hún ákvað einnig að klára BS nám í viðskiptafræði og hefur því breiðan grunn menntunar í dag.

„Ég kláraði Lögregluskólann og við útskriftina í Bústaðarkirkju, vissi að ég var á réttri hillu. Ég fékk gæsahúð þarna í athöfninni og hafði aldrei fundið þetta áður svona sterkt, ja ekki nema þegar ég eignaðist börnin mín. Ég var ein af þremur nemendum sem fengu hæstu einkunn og var einnig valin lögreglumaður skólans. Þetta var mikill heiður og ég var mjög stolt. Eftir þetta starfa ég við lögregluna í Hafnarfirði í eitt ár og klára einnig BS í viðskiptafræði. Svo var haft samband við mig frá Lögregluskóla ríkisins og mér boðið að kenna þar sem ég og þáði. Þetta var frábært tækifæri. Þarna var ég 26 ára og kenndi við skólann í tæp sjö ár. Svo fann ég að mig langaði aftur í lögregluna, Keflavík togaði í mig og ég réði mig þangað. Mér leið strax vel þar. Við erum eins og ein stór fjölskylda, mórallinn er góður og húmorinn frábær þá og nú. Það verður að vera því starfið er krefjandi og getur verið erfitt. Þetta voru allt önnur verkefni og stundum erfið samskipti við fólk sem lögreglan þurfti að hafa afskipti af. Á þessum árum var miðbærinn í Keflavík stappaður um helgar og margir á rúntinum sem náði alveg upp á gömlu Aðalstöðina. Það var mun meiri hasar á þessum árum í miðbænum okkar. Í dag er þessi hlið á starfinu mjög breytt og jafnvel hvað varðar útivistartíma barna því börn eru ekki eins mikið úti.“

Hvað þarf til þess að verða lögregluþjónn?
Margir eiga þann draum frá unga aldri að starfa með lögreglunni þegar þeir verða fullorðnir en hvað þarf til þess? Þú þarft að hafa stúdentspróf og hreint sakavottorð. Þú þarft einnig að standast þrekpróf og vera íslenskur ríkisborgari. Mikilvægt er að þú talir góða íslensku. Baddý hafði þetta að segja fyrir þá sem langar að starfa í lögreglunni:

„Lögreglustarf er ekki fyrir alla og þú finnur það fljótt hvort það hentar þér. Flestir fara í lögregluna af hugsjón en ekki út af launaumslaginu. Maður finnur það að fólk sem starfar í lögreglunni eru fyrirmyndir og þegar við erum ekki í búning þá er samt fylgst með okkur því margir vita hverjir starfa við löggæslu í bænum okkar. Við viljum fjölga fólki af erlendum uppruna í lögreglunni hér á Suðurnesjum því hlutfall þeirra hefur vaxið mikið. Þó er nauðsynlegt að fólk tali góða íslensku svo ekki sé hætta á misskilningi. Lögregluliðið þarf að endurspegla samfélagið.“  

Hefur hún nýjar hugmyndir varðandi nýja starfið?
Þegar komið er inn á skrifstofu núverandi yfirlögregluþjóns rekur maður augun í alls konar uppbyggilegar bækur á hillu og á borði. Maður fær það á tilfinninguna að Baddý sé dugleg að rækta hugann og sjálfstraustið með allskonar aðferðum.

„Já, ég er dugleg að fræðast um það hvernig hægt er að styrkja sig í starfi bæði andlega og líkamlega. Við þurfum að passa okkur að lenda ekki í kulnun og þess vegna læt ég þessar bækur liggja hér frammi til þess að ýta þessari lesningu að starfsmönnum mínum. Maður þarf að þekkja sjálfan sig og mörkin sín. Ég passa upp á þetta sjálf, einnig hef ég manninn minn og fleiri til þess að ýta við mér þegar ég er farin að þreytast. Ég veit að hugleiðsla og jóga getur haft góð áhrif á fólk sem vinnur í krefjandi störfum. Áhugamál mitt er að hlaupa og rækta líkama minn enda verðum við lögreglumenn að halda okkur í góðu formi. Ég er skapstór kona sem þori að segja stopp við aðra og láta vita þegar ég er búin að fá nóg. Það eru ekki allir þannig og því þurfum við að vakta hvert annað hér í lögregluliðinu. Við þurfum að passa upp á hvert annað og halda okkur í formi bæði andlega og líkamlega. Svona uppbyggjandi bækur hafa góð áhrif á okkur sem manneskjur. Starfsandinn er góður hér í lögreglunni og vil ég styðja við það á allan hátt. Ég vil að starfsmenn mínir leiti til mín með allt sem liggur þeim á hjarta varðandi starfið. Ég vil efla lögregluliðið bæði andlega og líkamlega. Við þurfum að vera tilbúin að fylgja straumum og stefnum. Ég vil vera vakandi yfir starfsmönnum okkar og styrkja samstarf lögreglunnar við samfélagið. Framtíðin er í þá átt að efla tengsl á milli okkar og samfélagsins. Mér finnst gaman að hafa áhrif á starfsemi okkar en við erum í stefnumótun og ætlum að birta niðurstöðurnar um mánaðamót. Hugmyndin er að tengja lögreglu og samfélag betur saman. Félagslegur stuðningur innan liðsins er mikilvægur, þarna getum við bætt hvort annað upp. Framtíðin er björt þegar við vinnum saman að bættu samfélagi.“

Ástin í lífi Baddýjar
Eiginmaðurinn er einnig í lögreglunni en þau hjónin eru dugleg í líkamsrækt vegna starfsins og einnig að rækta fjölskyldu sína.

„Við hjónin kynntumst í Lögregluskólanum og eigum samtals þrjú börn. Hann átti son fyrir sem er sextán ára í dag. Við eigum tvö yngri börn saman, níu ára dóttur og tveggja ára son. Stelpan okkar er skvetta og finnst gaman að foreldrar hennar séu löggur. Eldri sonurinn spurði mig hvað það þýddi að ég væri orðinn yfirlögregluþjónn svo ég útskýrði þær skyldur fyrir honum en móðir hans er einnig lögreglumaður svo hann er umvafinn löggum. Pabbi minn er lögregluþjónn einnig svo það er allt fullt af laganna vörðum í fjölskyldunni. Við hjónin hlaupum mikið og erum í líkamsrækt svo það eigum við sameiginlegt vegna starfsins. Hann styður mig í starfi og er kletturinn minn vil ég segja. Við erum algjörir heimalingar og elskum að vera með fjölskyldunni okkar. Ég á geggjaðan vinkonuhóp en við erum tíu talsins og höfum verið vinkonur síðan við vorum í barnaskóla langflestar. Þetta er svona saumaklúbbur sem hittist einu sinni í mánuði og svo á ég marga lögregluvini, bæði karla og konur. Mér þykir vænt um fjölskyldu mína, bróðir minn skírði dóttur sína um daginn í höfuðið á mér og þá grét ég en það geri ég ekki oft,“ segir Baddý með bros á vör.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs