Max Norhern Light
Max Norhern Light

Mannlíf

Ólöf Kristín er fyrsta konan sem verður formaður GS
Með golfkonum úr Golfklúbbi Suðurnesja á Spáni.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 14. desember 2019 kl. 16:17

Ólöf Kristín er fyrsta konan sem verður formaður GS

Konur stýra Golfklúbbi Suðurnesja

„Ég verð að viðurkenna að ég þurfti smá umhugsunartíma áður en ég ákvað að taka að mér formennskuna í GS eftir að uppstillinganefnd GS hafði samband við mig,“ segir Ólöf Kristín Sveinsdóttir, nýkjörinn formaður Golfklúbbs Suðurnesja sem fagnaði 55 ára afmæli á árinu.

Síðastliðið sumar var Ólöf í kvennaráði GS sem hún segir að hafi verið mjög gaman, enda frábærar konur, að hennar sögn, sem eru duglegar að mæta og spila saman. „Ég kynntist í leiðinni starfinu og fólkinu í klúbbnum betur og sá hvað starfsfólkið og stjórnin lögðu mikinn metnað í að reka góðan golfvöll með skemmtilegu félagsstarfi. Þetta allt og samtal um tækifærin framundan við framkvæmdastjórann hana Andreu gerði það að verkum að ég ákvað að gefa kost á mér.“

Það er ekki langt síðan Ólöf kynntist golfíþróttinni en hún er fyrsta konan sem verður formaður Golfklúbbs Suðurnesja. Þá er kona einnig framkvæmdastjóri GS. Það er því óhætt að segja að konur séu við völd í GS en kvennastarfið í klúbbnum hefur verið ákaflega farsælt á undanförnum árum.

„Ég fór á nokkur námskeið en ætlaði nánast aldrei út á völl, það var svo um jólin 2011 fór ég til Flórída, keypti mér golfsett og byrjaði. „Ég hef stundað golfið mismikið síðan þá. Ég gekk í klúbbinn árið 2016 en í blíðunni í sumar var ekki hægt annað en að vera út á velli á öllum lausum stundum. Mitt mottó í golfinu er „það er gaman“ en ekki forgjöfin enda er ég með 31 í forgjöf.

Fyrrverandi formaður, Jóhann Páll Kristbjörnsson, og hans fólk er að skila af sér mjög góðu ári bæði rekstrarlega og eins var blásið miklu lífi í mótahald á árinu. Afreksfólkið okkar stóð sig líka framúrskarandi vel. Ég get ekki annað en verið bjartsýn á næsta ár enda erum við með öfluga starfsmenn, metnaðafulla stjórn og frábæra félagsmenn, en allir vilja sjá klúbbinn sinn vaxa og dafna,“ sagði nýr formaður Golfklúbbs Suðurnesja.

Með Kristni Jakobssyni, eiginmanni sínum í golfi á Spáni.

Ólöf Kristin fór holu í höggi á Leirdalsvelli í Garðabæ árið 2017.