Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Nánast hnöttóttur birtingur
Miðvikudagur 4. maí 2022 kl. 13:13

Nánast hnöttóttur birtingur

Styrmir Gauti Fjeldsted, formaður Fluguveiðifélags Suðurnesja, segir frá nýstofnuðu veiðifélagi

Fluguveiðifélag Suðurnesja var stofnað í mars og mættu fimmtíu stofnfélagar til stofnfundarins. Á fundinum var kosið til formanns og stjórnar og er Styrmir Fjeldsted fyrsti formaður félagsins, með honum í fyrstu stjórn sitja Alfreð Elíasson, Aníta Carter, Brynjar Þór Guðnason, Bjarki Már Viðarsson, Marel Ragnarsson og Trausti Arngrímsson.

Víkurfréttir heyrðu í formanni félagsins en aðalfundur verður haldinn 9. maí næstkomandi og bindur Styrmir vonir við að sjá félagsmenn þá komna í 150 manns.

Public deli
Public deli

Styrmir segist alltaf hafa verið fárveikur fyrir veiði. „Ég man eftir mér fjögurra, fimm ára gömlum að veiða í Danmörku en ég bjó þar á þeim tíma. Svo eftir að ég flutti heim fór ég mikið með afa að veiða. Allar útilegur fjölskyldunnar snerust um að tjalda við eitthvað vatn.“

Styrmir lék með Njarðvík í fótboltanum og það tók sinn tíma. „Já, ég var alltaf í fótboltanum í Njarðvík en árið 2018 sleit ég liðband og reif liðþófa. Þarna þurfti ég að hætta í fótboltanum en það hafði ekkert verið á stefnuskránni hjá mér. Hins vegar fór ég að hafa meiri tíma þegar fótboltinn var ekki lengur inni í dæminu og þá þurfti ég að finna mér eitthvað að gera.“

Styrmir dembdi sér á fullu í fluguveiðina og sú della hefur nú leitt hann ásamt fleirum í að stofna veiðifélag, Fluguveiðifélag Suðurnesja – en hvernig félag er það?

Byrjað frá grunni

„Þetta er hugsað sem félagsstarf fyrst og fremst – alla vega svona í byrjun. Við sjáum fyrir okkur að vera með einhver veiðisvæði í framtíðinni en það er ekki draumasýnin að verða einhverjir stórir veiðileyfasalar. Það væri gaman að vera með eitthvað svona „svæðið okkar“ en það verður ekki lögð nein ofuráhersla á það að sanka að sér veiðisvæðum,“ segir Styrmir um nýja félagið en rúmlega hundrað manns sýndu því strax áhuga að ganga í félagið.

Félagið er ekki komin með nein svæði í leigu, er það? 

„Nei en það er samt hugmyndin að geta boðið félögum upp á veiðileyfi á betra verði og að geta komist á svæði sem þeir hafa kannski ekki haft aðgang að áður.

Þá er hugmyndin að geta verið með kynningarkvöld fyrir þau svæði sem félagið kemur til með að selja veiðileyfi á. Það munar miklu að renna ekki alveg blint í sjóinn þegar maður fer að veiða á nýju svæði.“

Styrmir segir að fræðslukvöld, kastkennsla, hnýtingarkvöld og fleira í þeim dúr séu á döfinni.

„Það væri mjög gaman ef hægt væri að búa til einhverju fluguhnýtingarmenningu. Stofna hóp sem hittist reglulega til að hnýta, það gefur manni mikið yfir veturinn. Ég þekki það vel sjálfur.“

Fluguveiðifélag Suðurnesja er með Facebook-síðu og þar eru upplýsingar um félagsskapinn.

Aníta Carter situr í stjórn félagsins. Hér (vinstra megin) er hún með afrakstur frá fluguhnýtingarkvöldi félagsins þar sem kennd voru undirstöðuatriði fluguhnýtinga. Alfreð Elíasson, veiðifélagi Styrmis og einn stofnfélaga Fluguveiðifélags Suðurnesja, er með einn vænan af Iðunni á myndinni til hægri.

Hvert er uppáhaldsveiðisvæði formannsins og hefurðu ekki einhverja veiðisögu að lokum?

„Ég er alltaf tilbúinn að prófa ný svæði en það hefur ekkert svæði náð að festa mig alveg nema Sogið. Ég hef veitt mikið í Soginu og það er minn staður.

Veiðisögu segirðu, það myndi kannski vera birtingur sem ég tók í Soginu í fyrra. Við Alfreð [Elíasson] vorum að veiða neðarlega í Soginu og hann hafði veitt þarna áður og lét mér eftir besta blettinn. Svo var hann einhvers staðar neðar að veiða þegar ég fékk þetta svakalega högg og flugan var tekin. Ég byrjaði að kalla á Fredda til að koma og aðstoða mig við að landa fisknum en hann heyrði ekki neitt.

Þegar hann stökk sá ég að þetta var enginn smá bolti og ég reyndi að kalla aftur á Fredda. Hann heyrði loks til mín en var þá búinn að vaða eitthvað út í ánna, það er ekkert grín að vaða þarna í Soginu út af straumþunga svo það tók hann tíma að koma.

Ég var að slást við hann í tíu mínútur og alltaf að kalla á Fredda til að hjálpa mér að landa honum. Svo þegar hann loksins kom var ég búinn að landa honum, rúmlega 60 cm, alveg silfraður og nánast hnöttóttur sjóbirtingur.“