Mannlíf

Múmínálfaveröld heillar Hólmfríði
Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri Grunnskóla Sandgerðis og aðdáandi Múmínálfanna.
Laugardagur 6. apríl 2019 kl. 06:00

Múmínálfaveröld heillar Hólmfríði

Hún hafði aldrei safnað neinu fyrr en hún óvart fékk áhuga fyrir bollunum sem tengja hana við ævintýrin um Múmínálfana, sögur sem hún las í æsku. Múmínálfarnir eru aðalpersónurnar í bókaröð og myndasögum eftir finnlandssænska rithöfundinn og myndlistarkonuna Tove Jansson, sem gefnar voru út á árunum 1945 til 1970.

Á Safnahelgi á Suðurnesjum var margt að sjá. Ein af sýningunum sem fram fóru var bollasýning Hólmfríðar Árnadóttur, skólastjóra Grunnskóla Sandgerðis, en sýningin fór fram á Bókasafninu í Sandgerði. Þar leyfði Hólmfríður almenningi að sjá alla 64 Múmínálfabollana sína, alls hafa verið framleiddir 92 bollar. Við kíktum á sýninguna og fengum að vita hvers vegna hún er að safna öllum þessum bollum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Mínir nánustu voru að suða í mér að byrja að safna einhverju
„Ég hef alltaf verið hrifin af Múmínálfunum og las allar bækurnar sem barn. Það er svo fallegur boðskapur í þessum bókum. Fólkið í kringum mig var oft að suða í mér hvort ég ætlaði ekki að byrja að safna einhverju svo það væri léttara að gefa mér afmælisgjöf og svona. Árið 2014 sá ég fyrsta Múmínálfabollann þegar verið var að minnast 100 ára afmælis Tove Jansson en þann bolla langaði mig að eignast. Ég var ekki að eyða peningum í óþarfa svo ég nefndi þetta í fjölskyldunni að mér þætti kannski gaman að fá svona bolla. Svo leið tíminn og ári seinna, eða 2015, var ég að aðstoða bróður minn og las yfir ritgerð fyrir hann og fékk að launum frá honum fyrstu tvo bollana mína. Eftir þetta hafa nær allar gjafir sem mér hafa verið gefnar verið Múmínálfabollar. Við hjónin eigum afmælisdaga með stuttu millibili og hann hefur einnig fengið svona bolla að gjöf. Þetta hefur undið upp á sig þannig að í dag á ég, og við hjónin saman, alla þessa bolla. Það er ákveðin hvíld fyrir hugann að safna einhverju finnst mér, eitthvað annað en þetta vanalega. Heima hjá mér eru bollarnir í fullri notkun en þeir þola einnig að fara í uppþvottavél. Ég raða þeim upp í skápnum eftir árstíðum því þannig eru þeir einnig framleiddir. Það eru sumarbollar og vetrarbollar, einnig  jólabollar. Ég er farin að haga mér eins og alvöru safnari og hef keypt sjaldgæfa bolla beint frá Finnlandi hjá konu sem selur Múmínálfavörur þaðan á netinu. Það er heill heimur safnara til sem einblínir á Múmínálfana og eru þeir með íslenska facebook-síðu sem kallast „Múmínmarkaðurinn,“ segir Hólmfríður full af áhuga fyrir þessari töfraveröld Múmínálfanna sem hefur svo sannarlega fangað áhuga hennar. Í dag safnar hún þessum bollum, sem hlýtur að vera ákveðinn léttir fyrir aðstandendur hennar þegar kaupa á handa henni gjöf.


Þessir tveir bollar eru einstakir.

Fallegur boðskapur
„Ástríða mín byrjar í raun þegar ég las bækurnar um Múmínálfana sem barn. Mér fannst svo heillandi að þeir bjuggu á bak við kamínur í Finnlandi og þurftu að flytja burt og finna sér annan samastað þegar þeir gátu ekki lengur búið á bak við kamínur. Þá fundu þeir stað sem þeir kölluðu Múmíndal. Seinna kynnti ég Múmínálfana einnig fyrir dætrum mínum þegar léttlestrarbækur um þá komu fyrst út árið 1992. Myndirnar eru svo fallegar og einfaldar í bókunum og boðskapurinn mjög fallegur. Þarna eru alls konar týpur sem við getum tengt við okkur manneskjurnar. Það er svo skemmtilegt. Ég er farin að verða forvitin um sjálfan Múmíndal sem er skemmtigarður í Finnlandi en hef samt engin áform ennþá um að fara þangað. Það er einnig kaffihús í Helsinki sem er undir áhrifum frá Múmínálfunum. Það er aldrei að vita nema ég skelli mér einn daginn til Finnlands í Múmínálfaleiðangur,“ sagði Hólmfríður.

[email protected]


Múmínálfarnir eru skemmtilegir og bækurnar um þá sígild lesning.