Nettó
Nettó

Mannlíf

Missa oft ljósið úr lífi sínu þegar makinn deyr
Þuríður Ingibjörg Elísdóttir, forstöðumaður.
Sunnudagur 14. apríl 2019 kl. 13:00

Missa oft ljósið úr lífi sínu þegar makinn deyr

„Já, eldra fólk getur auðvitað verið einmana. Hér hjá okkur sjáum við ríkidæmi fólks á efri árum í formi heimsókna ástvina sinna. Maður uppsker eins og maður sáir. Þeir sem hafa hlúð vel að fólki sínu um ævina fá það tilbaka,“ segir Þuríður Ingibjörg Elísdóttir, forstöðumaður hjúkrunardeilda í Reykjanesbæ.

Breytingarnar eru gífurlegar sem orðið hafa í samfélaginu okkar og sumir á besta aldri eiga jafnvel fullt í fangi með að fylgjast með, hvað þá eldra fólk. Maður veltir því stundum fyrir sér hvernig það sé að eldast í dag. Hvort eldri borgarar nái að fylgjast með öllu því sem er að gerast í kringum það, ef fólk hefur ekki náð tökum á allri samskiptatækninni. Hvort eldri borgarar séu afskiptir og einmana eða hvort fjölskyldur þeirra gefi sér tíma til heimsókna, sé duglegt að sinna gamla fólkinu sínu, ömmu og afa.

Áður fyrr bjuggu jafnvel nokkrir ættliðir undir sama þaki og elliheimili voru lítið notuð eða ekki til. Í dag eru elliheimilin horfin en í stað þeirra eru komin hjúkrunarheimili. Elda fólk býr lengur heima hjá sér og lögð er áhersla á að hvetja eldri borgara til þess að hreyfa sig reglulega og auka þar með hreysti sitt. Við kíktum í heimsókn á Nesvelli og spjölluðum við starfsfólkið um þessa hluti.

„Það vantar úrræði fyrir
ungt, veikt fólk í dag.
Það er raunveruleiki okkar."

Hverjir fara á hjúkrunarheimili?
Þuríður Ingibjörg Elísdóttir er forstöðumaður, hjúkrunardeilda, Nesvalla og Hlévangs.
Hún fagnaði heimsókn Víkurfrétta og gaf okkur innsýn inn í heim eldri borgara, þeirra sem dvelja á Nesvöllum.

„Gífurlegar breytingar hafa orðið á liðnum árum. Elliheimili eins og við þekktum þau eru ekki lengur til. Í dag eru þetta hjúkrunarheimili og fólk kemur veikara inn á þær stofnanir. Yfirvöld nútímans stefna að því að fólk geti verið heima hjá sér eins lengi og unnt er. Þetta er fallegt á blaði en því miður upplifa margir eldri borgarar óöryggi og einmanaleika heima hjá sér. Næringarskortur er orðinn algengari hjá eldri borgurum sem búa heima og þá óar við að elda sjálfir mat þegar þeir eru farnir að búa aleinir. Sú kynslóð sem í dag eru eldri borgarar missa margir ljósið úr lífi sínu þegar makinn deyr. Þetta sjáum við oft hjá karlmönnum sérstaklega. Þeir voru vanir því að konan sá um allt fyrir þá. Þeir kunna jafnvel ekki að elda. Konan hefur séð um allt sem viðkemur rekstri heimilisins og eiginmaðurinn verður því oft vængbrotinn þegar konan fellur frá.

Hjúkrunarheimilin taka á móti fólki á öllum aldri sem fyrst hefur farið í gegnum færni- og vistunarmat. Heilsan segir til um hverjir fara inn á hjúkrunarheimili. Það er ekki endilega gamalt fólk sem kemur inn á þessa stofnun. Manneskja á besta aldri getur til dæmis fengið alzheimer eða heilablæðingu. Við fáum einnig stundum íbúa hingað, maka sem koma, uppgefnir eftir að hafa hugsað um veikan maka sinn heima. Það vilja allir gera svo vel og hugsa vel um fólkið sitt en því miður getur umönnunaraðilinn gengið á eigin heilsu með því. Það eru breyttir tímar og ungt fólk er með ólíkari þarfir en það eldra, til dæmis félagslega. Því miður fá hjúkrunarheimilin ekki aukið fjármagn með þeim einstaklingum til að geta fylgt betur eftir þessum þörfum. Það vantar úrræði fyrir ungt, veikt fólk í dag. Það er raunveruleiki okkar,“ segir Þuríður með alvörutón.

Einmanaleiki eldri borgara
„Eldri borgarar sem búa heima eiga kost á heimaþjónustu og heimahjúkrun í umsjón sveitarfélaganna og ríkisins. Við á þessu landssvæði erum mjög lánsöm hvað vel er staðið að þessum málaflokki hér. Við höfum heyrt að sumir eldri borgarar sem þiggja þrif heima hjá sér, undirbúi þá heimsókn með því að þrífa aðeins sjálft svo það fái meiri tíma til að spjalla við manneskjuna sem kemur að þrífa. Já, eldra fólk getur auðvitað verið einmana. Hér hjá okkur sjáum við ríkidæmi fólks á efri árum í formi heimsókna ástvina sinna. Maður uppsker eins og maður sáir. Þeir sem hafa hlúð vel að fólki sínu um ævina fá það tilbaka. Nútímaþjóðfélag getur verið krefjandi fyrir eldri borgara. Við þurfum að muna eftir að hlúa að fólkinu okkar, heimsækja það og sinna því. Við sjáum að það gefur þeim svo mikið sem búa hér að fá gesti. Þau ljóma. Sem betur fer finnst mörgum dýrmætt að heilsa upp á ættingja sína og koma reglulega hingað. Það er ekki nauðsynlegt að stoppa lengi en að kíkja oftar og staldra stutt við, það passar mörgum sem búa hér, þar sem úthaldið er ekki eins og gestanna þeirra. Þegar við heimsækjum eldri borgara þarf oft ekki orð. Bara það að vera til staðar eða rifja upp liðna tíma. Sitja þögul saman og til dæmis strjúka handarbakið. Þarf ekki meira, bara að reka inn nefið. Hlúa vel að þeim þann tíma sem þau eiga eftir með okkur og er það sameiginlegt verkefni okkar á hjúkrunarheimilunum og aðstandenda að lífsgæði íbúanna okkar séu eins góð og hægt er,“ segir Þuríður.

Nesvellir í stað Garðvangs
Konurnar sem blaðamaður átti samtal við höfðu allar starfað áður á Garðvangi en sá staður þótti einstaklega heimilislegur. Hefur tekist að skapa jafn notalegt andrúmsloft á Nesvöllum?

„Andrúmsloftið felst í hverjum starfsmanni, viðhorfi hans og gildismati. Ég segi það alltaf að við höfum val um það hvernig við mætum til vinnu. Jákvæðnin skiptir öllu máli. Vinnuaðstaðan hér er svo miklu betri á allan hátt. Nesvellir og Hlévangur eru sjálfstæðar einingar innan Hrafnistu og við rekum þetta eins vel og við getum út frá því fjárframlagi sem við fáum. Hér er mikið gagnsæi. Starfshópurinn er samtaka og unnið er af heilindum og alúð í öllu sem við gerum. Bakstuðningur Hrafnistu er mikill og í krafti stærðarinnar erum við með mjög öflugt stoðsvið sem styður vel við bakið á okkur. Okkur finnst við hafa skapað heimilislegt andrúmsloft hér, sem er mikilvægt fyrir alla aðila, ekki síður fyrir aðstandendur íbúanna okkar. Við tökum stöðuna á hverjum degi og gerum það besta úr því sem við höfum. Þar sem ég hef unnið báðum megin borðsins, en ég vann sem hjúkrunarfræðingur og hjúkrunardeildarstjóri á Garðvangi, þá hef ég víðara sjónarhorn. Það er áríðandi að öllum líði vel, heimilisfólki, aðstandendum og starfsfólki. Við erum ekki lengur í einkennisbúningum en það er gert til þess að skapa heimilislegan blæ. Hér viljum við búa til notalegt andrúmsloft. Við höldum úti facebook-síðu fyrir aðstandendur heimilisfólks okkar en þá getur fjölskyldan fylgst með daglegu lífi hjá okkur. Þessi síða er einnig hugsuð fyrir þá sem búa erlendis,“ segir Þuríður með bros á vör.

marta@vf.is

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs