Nettó
Nettó

Mannlíf

Mikilvægt að nemendur geti gripið í góða bók
Miðvikudagur 2. janúar 2019 kl. 17:49

Mikilvægt að nemendur geti gripið í góða bók

- segir Jóhanna Helgadóttir, umsjónarkennari í 6. árgangi í Háaleitisskóla. Bekkjarbókasafnið Bókahillan hlaut samfélagsstyrk Krónunnar

Háaleitisskóli í Reykjanesbæ hlaut samfélagsstyrk Krónunnar fyrir bekkjarbókasafn í 6. árgangi í október sl. „Ég hef lengið verið þeirrar skoðunar að allir bekkir ættu að eiga sitt eigið bekkjarbókasafn. Það eflir og hvetur nemendur til lesturs. Bækur eru þannig bæði sýnilegar og mjög aðgengilegar nemendum þegar þeir hafa lausa stund. Mér finnst mikilvægt að nemendur geti gripið í góða bók þegar verkefnum kennslustunda lýkur,“ segir Jóhanna Helgadóttir umsjónarkennari í 6. árgangi í Háaleitisskóla.

Bókahillan

Í Háaleitisskóla á Ásbrú stunda nemendur af ólíkum uppruna grunnskólanám. Til þess að efla og hvetja nemendur til lesturs, ásamt því að skapa meiri lestrarmenningu í árganginum langaði umsjónarkennurum árgangsins að setja upp bekkjarbókasafn undir nafninu Bókahillan. Nafnið kemur úr íslenskunámsefni árgangsins, Orðspor 2. Í lok hvers kafla er fjallað sérstaklega um barna- og unglingabókmenntir í námsefninu og tvær til þrjár bækur kynntar sérstaklega fyrir nemendum, ásamt umfjöllun um höfunda bókanna.

Styrkurinn

„Við sóttum um styrk til þess að kaupa tvær hillueiningar á hjólum og 60 notaðar bækur, 30 bækur í hvorn bekk fyrir sig. Ég lagði mikla áherslu á það að við myndum kaupa notaðar bækur og styrkja þannig á sama tíma tvö góðgerðasamtök í Reykjanesbæ sem eru að gera mjög góða hluti fyrir samfélagið. Það eru Kompan, verslun á vegum Fjölsmiðjunnar, og Fjölskylduhjálp Íslands í Reykjanesbæ. Báðir þessir aðilar eru að selja notaðar bækur á mjög hagstæðu verði og leggja þannig samfélaginu lið. Bæði með því að gefa gömlum bókum líf og gera fleirum kleift að kaupa bækur. Í mínum huga skiptir svo miklu máli að það séu til bækur á heimilum fólks, sérstaklega fyrir börn og unglinga.“

Framkvæmd og afrakstur verkefnisins

„Það var að vonum mikil gleði að fá þær fréttir að verkefnið okkar hafi hlotið styrk,“ segir Jóhanna. Strax í kjölfar þess að fréttir bárust frá Krónunni að styrkja ætti verkefnið keypti Jóhanna hillurnar tvær. Nemendurnir voru mjög spenntir að heyra fréttirnar og var sú ákvörðun tekin að þeir myndu sjálfir setja hillurnar saman og dekkin undir. Það kom í hlut allra stúlknanna að gera það þar sem þær eru í námsgreininni Hönnun og smíði fyrir áramót. Kennari þeirra, Óskar Birgisson, var þeim innan handar. Jóhanna segir að stoltið og gleðin hafi ekki leynt sér í andlitum stelpnanna þegar þær rúlluðu bókahillunum inn í stofurnar í kjölfar þess að hafa sett þær saman. „Fyrir vikið eiga þau miklu meira í þessu verkefni,“ segir Jóhanna.


Vetrarfríið í skólanum, í október, nýtti Jóhanna ásamt sínum eigin börnum í það að velja og kaupa bækurnar.

„Ég fékk alveg frábærar móttökur í Kompunni og Fjölskylduhjálpinni þegar ég kom til þeirra og sagði þeim frá verkefninu. Ég var komin til þeirra í þeim tilgangi að styrkja þeirra góða málefni, en að sama skapi þótti þeim mikið til framtaksins koma og vildu leggja sitt af mörkum til þess að efla lestraráhuga grunnskólabarna. Það fór því svo að ég fór frá þeim með miklu fleiri bækur en ég átti von á því að geta keypt. Það þykir mér ótrúlega vænt um og get ekki þakkað þeim nægilega vel fyrir áhugann og stuðninginn fyrir verkefninu okkar,“ segir Jóhanna.

Jóhanna sneri aftur klyfjuð bókum í skólann eftir vetrarfríið og sáu nemendur í 6. JH um að raða bókunum í hillurnar fyrir árganginn. Bókahillurnar eru á hjólum og því auðvelt að færa þær til í stofunum.Bókahilla 6. SB.Stúlkur í 6. árgangi að setja saman bókahillu.

Jóhanna Helgadóttir, grunnskólakennari í Háaleitisskóla, í Fjölskylduhjálp á Suðurnesjum að velja bækur fyrir bekkjarbókasafnið.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs