Stuðlaberg Pósthússtræti

Mannlíf

Mikilvægt að allir muni að anda
Gróa og Lísa brosmildar með hvatningarverðlaunin.
Sólborg Guðbrandsdóttir
Sólborg Guðbrandsdóttir skrifar
laugardaginn 29. júní 2019 kl. 06:40

Mikilvægt að allir muni að anda

-Fleiri skólar grípi tækifærið og innleiði jóga og slökun fyrir nemendur á skólatíma

Verkefni Gróu Bjarkar Hjörleifsdóttur og Guðrúnar Lísu Einarsdóttur, Jóga og slökun í Heiðarskóla, hlaut Hvatningarverðlaun fræðsluráðs Reykjanesbæjar nú í ár en verðlaunin voru afhent í bíósal Duus Safnahúsa fyrir stuttu.

Fræðsluráð Reykjanesbæjar efnir árlega til hvatningarverðlauna fyrir einstaka kennara, kennarahópa og starfsmenn í leikskólum, grunnskólum og tónlistarskóla Reykjanesbæjar en verðlaunin eru veitt fyrir verkefni sem þykja skara fram úr og vera öðrum til eftirbreytni.

Markmið Jóga og slökunar er að nemendur læri á tilfinningar sínar og geti nýtt sér aðferðir til þess að takast á við áskoranir daglegs lífs. Andlegt álag og streita er í dag eitt stærsta heilbrigðisvandamál heims og því mikilvægt að nemendur eigi tæki og tól til að takast á við þær áskoranir í framtíðinni.

Verkefnið er fyrir nemendur Heiðarskóla í 1.–4. bekk sem fara í jógakennslu einu sinni í viku þar sem þeir læra slökun og núvitund en það stendur einnig til boða fyrir nemendur á unglingastigi skólans að velja jóga sem valgrein.

Um hvað snýst þetta verkefni?

Lísa: Þetta snýst um jóga og slökun fyrst og fremst. Gróa er búin að kenna fyrsta og öðrum bekk og ég með þriðja og fjórða. Við erum búin að fara í gegnum þessar helstu jógastöður með þeim, slökun og núvitund. Við förum í gegnum tilfinningar og hvernig við getum reynt að stjórna þeim. Svo er Gróa búin að sjá um valið fyrir unglingastigið.
Gróa: Valið er fyrir 8.-10. bekk, þá velja þau að koma í jóga. Þá tökum við þetta meira á þeirra stigi. Við erum alltaf að reyna að bæta þetta og hjálpa þeim að læra á tilfinningarnar sínar, þannig ef þau eru til dæmis reið þá vita þau hvaða tæki þau geta notað til að aðstoða sig. Þetta er mjög brýnt verkefni.

Er mikilvægt að þau læri á þessum aldri að hafa stjórn á tilfinningunum sínum?

Lísa: Algjörlega, það er mikilvægt á öllum aldri. Við höfum við verið að kenna þeim yngstu öndunaræfingar sem hjálpa þeim að sofna. Mjög margir krakkar eiga í erfiðleikum með að fara að sofa.
Gróa: Þau eru kvíðin og áhyggjufull, eru komin með herðarnar alveg upp í háls og þá er alveg nauðsynlegt að þau læri þetta. Þau eru dugleg að nota þetta heima og það er það sem maður vill.

Hvernig lýst krökkunum á þetta verkefni?
Lísa: Svona 97% af krökkunum eru alveg til í þetta en það eru nokkur prósent sem eiga í miklum erfiðleikum með að slaka á og það eru krakkarnir sem maður vill helst ná til.
Gróa: Þau eiga mörg mjög erfitt með að sitja kyrr. Þetta kemur smám saman, því meira sem við förum í þetta. Á næsta ári tökum við 5. bekk. Við ætlum hægt og rólega að fá allan skólann í þetta. Þetta mun virka og hefur verið að virka.
Lísa: Þetta snýst ekkert bara um það að sitja kyrr heldur að ná því að vera svolítið ánægð þar sem þau eru. Þau eiga ótrúlega mörg í erfiðleikum með það að bara vera.
Gróa: Af hverju líður mér svona? Hvað get ég gert til þess að róa mig niður? Mörg þeirra eru hrædd við að fara að sofa og eru myrkfælin. Ég held að þetta sé bara akkúrat það sem þau þurfa, til dæmis fyrir prófkvíðann sem er orðinn mjög mikill núna í dag. Þau eru að taka vel við þessu og segjast nota þetta heima fyrir. Þetta síast inn hægt og rólega og þau þurfa á þessu að halda, alveg greinilega.

Mikil hugarfarsbreyting hefur átt sér stað í samfélaginu síðustu ár gagnvart jóga og hugleiðslu. Hvernig upplifið þið það?

Gróa: Ég er jógakennari og það eru alltaf fleiri og fleiri sem fara og læra það að vera jógakennarar af því þau finna að þar eiga þau heima. Það þurfa allir á þessu að halda, að muna að anda. Þegar allur heimurinn er kominn á axlirnar á þér þá þarftu aðeins að róa þig niður. Þetta er bara gott, andleg heilsa skiptir öllu máli eins og líkamleg heilsa.

Af hverju er mikilvægt að þetta komi inn í skólana, frekar en að krakkarnir geri þetta bara sjálfir utan skólatíma?

Lísa: Ég held þetta sé ákveðin forvörn, ef það er hægt að segja sem svo. Að kenna þeim hvernig á að takast á við þetta allt saman, allt áreitið í kringum okkur, áður en það fer að vera íþyngjandi eða of erfitt að komast út úr vítahringnum. Eins og við þekkjum í okkar kennararstétt þá er fólk að upplifa kulnum hægri vinstri. Þetta er ekkert nema streita náttúrulega og við þurfum að kenna krökkunum okkar að takast á við þetta og líka að kenna þeim að þetta sé ekki eðlilegt ástand.
Gróa: Þetta er ekki komið nógu mikið inn í íþróttirnar utan skóla, að róa sig niður og anda. Vonandi, með þessu skrefi, og þessum Hvatningarverðlaunum, þá taka fleiri við sér því þetta er nauðsynlegt.

Hvaða þýðingu hefur það fyrir ykkur að fá Hvatningarverðlaunin?

Lísa: Það hefur rosalega mikla þýðingu fyrir okkur. Það er verið að segja okkur að við séum að gera eitthvað gott og þá líður manni ótrúlega vel. Þá er maður fullviss um að þetta festist í sessi. Þetta hættir ekki bara eftir þetta skólaár. Við fáum fleiri tækifæri til þess að gera þetta betur.
Gróa: Þetta er mikið hrós. Vonandi grípa fleiri skólar tækifærið. Ég held þetta sé hvatning fyrir bæjarfélagið að tileinka sér þetta.

Hvernig er að starfa sem kennari í Heiðarskóla?

Lísa: Það er æðislegt. Skólaandinn er geggjaður.
Gróa: Það er frábært, frábært starfslið. Þetta er besti skólinn.

Eru krakkar á þessum aldri of mikið í símanum? Er það að spila inn í?

Gróa: Heiðarskóli er náttúrulega tækniskóli og við ætlum ekki að tala á móti því. En við vitum það alveg að krakkarnir eru mjög mikið í tölvunum og símunum. Auðvitað hefur það áhrif. Krakkarnir eru ekki komnir með það mikinn þroska til að geta tekist á við allt það áreiti sem því fylgir. Með jóga, slökun og núvitund reynum við að hjálpa þeim að standa svolítið með sjálfum sér. Það er hluti af því sem við erum að reyna að vinna með, að kenna þeim að það skipti ekki máli hvað öllum öðrum finnist, ef þér líður vel. Við getum alveg verið sérvitringar, það er allt í lagi. Tækin sjálf eru góð en við þurfum náttúrulega, eins og með allt annað, að kenna þeim að nota þetta. Það tekur tíma. Með hverju árinu verður það vonandi betra.
Lísa: Ég held við séum alveg þokkalega framarlega í því í Heiðarskóla, að kenna þeim hvernig við getum notað tækin. Að það þurfi ekki alltaf að vera í þeim, en að við getum notað þau á góðan og uppbyggilegan hátt.

Finnst ykkur jóga og slökun eiga að vera partur af aðalnámskrá?

Lísa: Tvímælalaust, þetta er hluti af andlegri heilsu. Þannig auðvitað skiptir þetta máli hjá krökkum, rétt eins og það að læra að lesa og skrifa.