Mannlíf

Mikill skóli og upplifun
Ingvi Þór og Aron í Boston.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 8. maí 2022 kl. 06:47

Mikill skóli og upplifun

Ingvi Þór Hákonarson og Aron Rúnarsson hjá Brunavörnum Suðurnesja sóttu nám í bráðatækni 
í Boston.

„Þetta var mikill skóli og upplifun. Maður sá allt og sjúkrabílinn var bara eitthvað allt annað dæmi,“ segir Ingvi Þór Hákonarson, sjúkraflutningamaður og starfsmaður hjá Brunavörnum Suðurnesja, en hann og félagi hans, Aron Rúnarsson, komu heim nýlega eftir að hafa sótt nám í bráðatækni í Boston.

Hvernig kom það til að þið ákváðu að fara í nám í bráðatækni?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Ég var búinn að skoða þetta nám í nokkur ár og hafði mikinn áhuga á að fara erlendis og sækja mér þessa menntun. Brunavarnir Suðurnesja auglýsa svo að þeir ætla að senda tvo starfsmenn út í námið, svo við sóttum nokkrir um og við Aron urðum fyrir valinu.“

Um hvað snýst það?

„Námið snýst aðallega um að ná sér í meiri þekkingu og meiri færni í starfi sem vonandi skilar sér í betri þjónustu við íbúa á svæðinu. Bráðatæknir hefur meiri heimildir til að framkvæma ákveðna hluti t.d. lyfjagjafir. Stefna Brunavarna Suðurnesja er að hafa bráðatækni á vakt á öllum vöktum hjá okkur. Vonandi munu þeir senda fleiri starfsmenn út síðar.
Í dag erum við þrír og einn starfsmaður er núna staddur í Boston og mun klára námið í lok apríl. Átta aðrir Íslendingar stunda nám í sama skóla í Boston í dag.“

Undirbúningur mikilvægur

Hvernig fór námið fram?

„Það byrjaði á bóklegu námi sem hófst í nóvember 2020 og við kláruðum það 1. nóvember 2021. Ég varð alltaf að passa upp á að komast í netttengingu til að sinna náminu þó ég væri á ferðalagi með fjölskylduna um sumarið. Þann 1. nóvember 2021 héldum við svo út til Boston. Þar þurftum við að taka EMT-B sem er grunmenntun í sjúkrabílafræðum þó við værum búnir að taka það fyrir mörgum árum hér heima á Íslandi.  Það tók okkur 3 daga með smá verklegri kennslu og bóklegu prófi og síðan hófst bootcamp í 11 daga. Þar vorum við einu Íslendingarnir ásamt 30 bandarískum nemum. Þessa 11 daga voru verklegar æfingar og byrjuðu allir dagar á bóklegu prófi sem var gert til að sjá hvar við værum öll stödd í fræðunum. Reglulega tókum við svo verkleg próf og fengu þeir sem þurftu tækifæri til að taka þau aftur ef þeir náðu ekki prófinu. Á þessum 11 dögum voru um tíu nemendur sendir heim og þar með var þessu námi lokið hjá þeim. Kaninn er mjög harður á að nemendurnir séu vel undirbúnir fyrir námið og geti gert alla hluti upp á tíu. Bootcampið endar svo með verklegum prófum og bóklegu prófi, ef nemandinn nær þeim getur hann hafið verknám á sjúkrahúsi og svo síðar sjúkrabíl.“

Er það ekki sérstök lífsreynsla að fara í verknám á sjúkrahúsi og standa vaktir á sjúkrabíl í Boston?

„Jú þetta var mikill skóli að taka verknámið í Boston. Sjúkrahúsið var þannig að maður sá allt og það var mikil reynsla að fá að upplifa það. Sjúkrabílinn var bara eitthvað allt annað dæmi. Við vorum á stað sem heitir Fall River og þeir sem störfuðum á sjúkrabílnum voru að vinna 24 tíma vaktir og var maður orðinn frekar tæpur þegar það voru bara 7 tímar eftir af vaktinni og þessir bílar stoppa lítið, þeir eru bara á fullu þessa 24 tíma. Þar sáum við allt, t.d fórum við í svakalega hnífaárás og mann sem var með skotáverka og margt fleira. Við tókum 300 tíma á sjúkrabíl. Þessir bílar sem eru með bráðatækni (paramedic) fara bara í þá flutninga sem eru forgangs flutningar. Á Íslandi flokkum við þá F-1 og F-2 og þeir eru allan sólarhringinn á bláum ljósum með sírenur.“

Hvernig mun þetta svo virka þegar þið hefjið störf aftur hjá BS?

„Það breytist lítið. Við munum klárlega vera með meiri ábyrgð en áður. Brunavarnir Suðurnesja eiga frábæra starfsmenn sem leggja hart að sér til að þjónusta íbúa eins vel og hægt er. Við munum klárlega koma til með að koma okkar þekkingu til allra starfsmanna BS,“ segir Ingvi Þór.

Ýkt í sjónvarpinu

Það var freistandi að spyrja Ingva Þór hvort þeir hefðu fengið sömu upplifun og sjá má í mörgum þáttum um slökkvilið og sjúkrahús í bandarískum sjónvarpsþáttum. 

„Það er búið að ýkja alla hluti , t.d hvernig þeir vinna við sjúklinginn í sjónvarpinu og það sem er gert í alvöru er bara ekkert líkt því sem við sjáum á skjánum.  Annað dæmi er þegar menn fara í reykköfun, þá setja menn maskann á sig og tengja sig áður en þeir fara í brennandi hús, en í sjónvarpsþáttnum fara þeir í brennandi húsið og þegar þeir eru komnir inn setja þeir grímuna á sig og tengja sig við kútin,n komnir í reykinn og drulluna. Þetta sérðu menn aldrei gera í alvörunni.“

Æfing á svínsbarka var meðal þess sem félagarnir þurftu að gera í náminu.

„Námið snýst aðallega um að ná sér í meiri þekkingu og meiri færni í starfi sem vonandi skilar sér í betri þjónustu við íbúa á svæðinu.“