Mannlíf

Mikil matarhefð í Póllandi
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
föstudaginn 8. nóvember 2019 kl. 07:05

Mikil matarhefð í Póllandi

Katarzyna Pozezinska er aðal konan á bak við matargerðina á pólsku hátíðinni í Reykjanesbæ en hún gerði pottréttinn Bigos í fyrra sem rann ljúft ofan í maga gesta hátíðarinnar. Hún mun endurtaka eldamennskuna í ár en fleiri koma að matargerðinni svo í boði verða ýmsir réttir.

Við kíktum í heimsókn til Katarzynu á hundasnyrtistofuna hennar og forvitnuðumst um matinn sem hún ætlar að bjóða gestum og gangandi upp á næstkomandi laugardag.

„Ætlar þú að taka viðtal við mig,“ spyr Katarzyna blaðakonu sem jánkar „en ég hef aldrei farið í blaðaviðtal,“ segir hún og heldur áfram að klippa lítinn sætan kjölturakka á meðan blaðakona heldur áfram að spyrja út í pólsku menningarhátíðina.

Katarzyna Pozezinska rekur vinsæla hundasnyrtistofu í Reykjanesbæ og hefur gert í mörg ár. Hún er menntuð í faginu og lærði upphaflega í Póllandi en viðbótarnám hefur hún tekið í Englandi, Svíþjóð og Þýskalandi.

„Já, ég gerði „street food“ í fyrsta skipti í fyrra fyrir svona marga, það gekk mjög vel. Í Póllandi elda allar konur matinn heima. Þar er mikil matarhefð og ömmur kenna mæðrum og mæður kenna dætrum sínum. Það er hefð að konur í pólskum fjölskyldum kenna hver annarri. Bigos er mjög vinsæll matur í Póllandi, yfir 300 ára gamall réttur og allar fjölskyldur eiga sína útgáfu af þessum rétti. Ég mun gefa fólki að smakka ættaruppskrift mína. Það verður allskonar annar matur í boði til dæmis, pierogi, súpa, barszcz czerwony og zurek, allt mjög vinsæll matur í Póllandi. Það var mjög gaman að gefa gestum í fyrra að smakka þessa pólsku rétti og ég vona að það komi margir gestir núna líka til að borða matinn,“ segir Katarzyna sem margir Íslendingar þekkja undir nafninu Kata.

Nú eigum við heima á Íslandi

„Mér finnst mjög fallegt af Íslendingum að leyfa Pólverjum að búa til sína eigin hátíð hér á landi. Ég fer líka á hátíðir sem Íslendingar halda, til dæmis 17. júní og Ljósanótt í Reykjanesbæ. Auðvitað vil ég einnig kynnast menningu Íslands því ég elska Ísland og er mjög ánægð hér. Við hjónin, Jaroslaw og ég, fluttum hingað fyrir tólf árum og höfum eignast börnin okkar tvö hér sem heita Patrycja 11 ára gömul og Ólaf sem er 9 ára gamall. Hann var skírður íslensku nafni sem er líka hægt að segja á pólsku. Börnin okkar tala mjög flotta íslensku og gengur vel á íslenskuprófum í skólanum. Þau tala bæði góða íslensku og góða pólsku. Nú eigum við heima á Íslandi en förum yfirleitt einu sinni á ári í heimsókn til Póllands. Foreldrar okkar hafa komið hingað en mamma mín hefur komið oftast,“ segir Kata á annars ágætri íslensku en hún hefur lagt sig fram um að læra málið en er stundum feimin að tala það. Blaðakona skilur það vel enda hefur hún sjálf upplifað að búa sem útlendingur í öðru landi og þá fannst henni hún sjálf stundum hljóma kjánalega þegar hún var að tala tungumál heimamanna. Best er samt að halda áfram að æfa sig, því æfingin skapar meistarann. Íslendingar sýna því fullan skilning og það gleður þá þegar einhver hefur áhuga á að læra þetta forna tungumál, sem íslenskan er.

Vonar að það komi margir gestir

Kata hefur gaman af starfi sínu sem hundasnyrtir. „Mér finnst mjög gaman að klippa hunda, þeir eru svo mikið krútt og með svo fallegt hjarta. Mér finnst ég aldrei vera að mæta í vinnuna þegar ég kem á stofuna mína, þetta er frekar eins og hobbý því það er svo gaman að hitta allskonar hunda og allskonar foreldra þeirra,“ segir hún og bætir við þegar blaðakona spyr hana um lokaorð; „Vonandi koma margir að prófa og skoða pólska hátíð um helgina. Allar þjóðir þurfa gera eitthvað saman og kynnast betur svoleiðis. Við sýnum okkar bestu hliðar. Það eru allir velkomnir, það kostar ekkert, bara brosa og hafa gaman með okkur.“

Reykjanesbær blæs í annað sinn til pólskrar menningarhátíðar í samstarfi við hóp íbúa af pólskum uppruna. Hátíðin verður haldin á Nesvöllum laugardaginn 9. nóvember 2019 klukkan 13 - 16. Hátíðin mun gleðja augu, eyru og maga gesta.

Áhersla ársins eru persónulegar sögur íbúa Reykjanesbæjar af pólskum uppruna og verður sett upp listsýning tengd áherslunni. Pólskur „street food“ markaður verður á hátíðarsvæðinu, tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og pólski þjóðdansinn Polonez stiginn. Fluttar verða hátíðarræður og ýmis afþreying verður í boði. Hátíðinni lýkur með rokkuðu ívafi hljómsveitarinnar Demo.

Að undirbúningi og skipulagningu hátíðarinnar kemur hópur fólks, bæði starfsmanna og sjálfboðaliða. Fjöldi sjálfboðaliða hefur boðist til þess að gera mat fyrir pólskan fingramat eða „street food“ markað sem settur verður upp.

Katarzyna með manni og börnum.