Bílrúðuþjónustan
Bílrúðuþjónustan

Mannlíf

Miðill er manns gaman - menning í Reykjanesbæ í samkomubanni 
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 26. mars 2020 kl. 14:28

Miðill er manns gaman - menning í Reykjanesbæ í samkomubanni 

Tónleikar með Ásgeiri Trausta fimmtudagskvöldið 26. mars

„Miðill er manns gaman“ er vonandi ekki orðatiltæki sem leysir af hólmi hið gamalkunna „maður er manns gaman“ en þegar fólkið kemst ekki til okkar förum við til fólksins,“ segir Þórdís Ósk Helgadóttir skrifstofustjóri Súlunnar verkefnastofu í Reykjanesbæ. Þar vísar Þórdís í sameiginlegt framtak menningarstofnana bæjarins í samkomubanni, að færa menninguna heim til fólks á meðan það hefur ekki kost á að stunda hana með öðrum hætti. Þórdís segir yfir 50 viðburði af ýmsum toga í undirbúningi hjá þeim og munu þeir líta dagsins ljós jafnt og þétt á meðan á samkomubanni stendur. 

Guðlaug María Lewis verkefnastjóri menningarmála hjá Reykjanesbæ segir að forsvarsmenn allra stofnana hafi tekið mjög vel í þá hugmynd að standa saman að slíku verkefni, því jafnvel þótt allir komist af í einhvern tíma án þess að njóta menningar er hún dálítið eins og gamla og góða Opalið; bætir, hressir og kætir og veitir víst ekki af. Hugmyndin er þannig að vikulega birtist auglýsing þar sem megin dagskrá allra stofnana verður að finna á einum stað svo fólk geti betur áttað sig á hvað er í boði, hvar og hvenær en óhætt er að segja að þar kenni ýmissa grasa. Auglýsinguna verður að finna á facebooksíðum stofnananna, auk facebooksíðu Reykjanesbæjar og í viðburðadagatali á vefsíðu Reykjanesbæjar, reykjanesbaer.is. 

Menningarstofnanirnar taka höndum saman 

Þeir sem að verkefninu koma eru Bókasafn Reykjanesbæjar, Byggðasafn Reykjanesbæjar, Listasafn Reykjanesbæjar, Hljómahöll og Rokksafn Íslands og Skessan í hellinum. Meðal viðburða má nefna að Bókasafnið stendur fyrir hugleiðsluhádegi, notalegri sögustund fyrir börnin með Höllu Karen, krakkajóga auk þess að streyma ýmsu úr starfsemi safnsins, svo sem pokasaumi og kynningu á erlendu efni safnsins. Að sögn Stefaníu Gunnarsdóttur forstöðumanns safnsins er mikil eftirvænting í herbúðum starfsfólks fyrir verkefninu. 

Ljósmyndir, leiðsagnir og sögulegur fróðleikur frá Byggðasafninu 

Byggðasafn Reykjanesbæjar birtir daglega mynd dagsins úr myndasafni byggðasafnsins með tilheyrandi fróðleik, m.a. verða birtir sögumolar frá Árna Daníel Júlíussyni sagnfræðingi sem nú starfar við ritun á sögu Keflavíkur 1949-1994. Að sögn Eiríks P. Jörundssonar forstöðumanns safnsins eru myndirnar eins og inngangur að sérstökum ljósmyndavef safnsins sem til stendur að setja í loftið á næstu vikum. Á vefnum mun fólk geta skoðað myndir, leitað eftir leitarorðum, pantað myndir og ekki síst verður auðvelt fyrir fólk að senda inn ábendingar og upplýsingar um hverja mynd. Þetta er langþráður vefur og mun án efa verða mörgum gleðiefni um ókomna tíð. Þá er ætlunin að vikulega verði boðið upp á stafræna leiðsögn á netinu um sýningar og geymslur safnsins og verður fyrsta leiðsögnin um sýninguna Varnarlið í verstöð í fylgd Helga Biering þjóðfræðings. 

Nýjar heimildamyndir og fleira frá Listasafninu 

Listasafn Reykjanesbæjar mun daglega deila fróðlegu efni um myndlist til áhugasamra. Því til viðbótar hefur Helga Þórsdóttir, nýr safnstjóri safnsins, unnið að gerð stuttra heimildarmynda með viðtölum við listamenn og sýningarstjóra þeirra sýninga sem nú eru í gangi í safninu, „Sögur úr Safnasafni“ og „Lífangar.“ Þau á safninu telja mikilvægt að manneskjan þrói með sér skilning á eigin efnislega umhverfi til að teljast hæf í leik og starfi. Í grein sem birtist þann fyrsta desember 2008 í Netlu, veftímariti um uppeldi og menntun, eftir Guðrúnu Helgadóttir segir: 

 „Fullyrt er að við lifum á tímum þar sem sjónrænt áreiti er meira en nokkru sinni fyrr, að myndmálið sé æ mikilvægara, að hið sjónræna og myndlæsi sé jafnvel að verða öðru læsi mikilvægara. Þessi viðhorf þróuðust á sama tíma og segja má að vestræn samfélög að minnsta kosti séu að leggja meiri áherslu á menningu. Menning er að verða stór atvinnugrein og fræðimenn, s.s. innan félagsfræði, mannfræði, viðskiptafræði og fjölmiðlafræði, eru að snúa sér meira að því að skoða viðfangsefni sín sem menningarfræði.“ 

Tónleikum Ásgeirs Trausta og fleiri streymt úr Hljómahöll og popppunktur í Rokksafni 

Í Hljómahöll og Rokksafni Íslands eru ýmsir tónleikar og viðburðir í undirbúningi að sögn Tómasar Young framkvæmdastjóra. Í þessari viku verður stórviðburður þegar tónleikum með Ásgeiri Trausta verður streymt úr Stapa á fimmtudag kl. 20 en eins og flestir vita hefur Ásgeir Trausti verið á tónleikaferðum erlendis um langt skeið. Í Rokksafninu verður einnig skemmtilegur viðburður á föstudag þegar Dr. Gunni  mætir á svæðið og verður með Popppunkt í safninu. Að sögn Tómasar eru fleiri spennandi viðburðir í undirbúningi og hvetur hann alla til að fylgjast vel með. 

Skessan vill fá myndir af börnunum 

Að lokum má geta þess að Skessan í hellinum fer ekki varhluta af samkomubanni og hún vill leggja sitt af mörkum til að stytta smáfólkinu stundirnar með því að deila daglega inn á Facebooksíðuna sína hugmyndum að skemmtilegri afþreyingu fyrir börn og fjölskyldur og hefði hún einstaklega gaman af að fá sendar til sín myndir af krökkum sem eru að leysa Skessuverkefnin. 

Það er því ljóst að af nægu verður að taka í menningunni á næstunni og hvetja þær Þórdís og Guðlaug fólk til að líka við síður allra þessara stofnana, kynna sér vikulegar auglýsingar sem munu birtast og njóta þess sem í boði er.