Mannlíf

Metfjöldi í skötuveislu á Réttinum
Magnús Þórisson
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
föstudaginn 23. desember 2022 kl. 17:13

Metfjöldi í skötuveislu á Réttinum

Skötuveislur eru víða á Þorláksmessu en metmæting var í árlegt skötuhlaðborð á Réttunum í dag. „Árið 2020 gátum við ekki haldið skötuveislu en 2021 gátum við haldið hana í „mýflugna-mynd“ vegna samkomutakmarkanna. Við keyrðum þetta svo aftur í gang núna og þetta er langstærsta skötuveislan sem hefur verið haldin. Það komu 250 manns frá kl. 11-14 í skötu hjá okkur,“ segir Magnús Þórisson, eigandi Réttarins. 

Boðið var upp á hlaðborð með tilheyrandi hátíðarmat, saltfisk, hangikjöti og að sjálfsögðu skötu. Þá nutu gestir matarins við ljúfa tóna Mumma Hermannssonar. 

Aðspurður hvernig viðtökur gesta voru segir hann: „Það voru allir að dásama skötuna en hún kom núna í fyrsta skipti frá Fiskikónginum. Ég tók prufukeyrslu á skötunni í gær og hún er alveg frábær, líklega nálægt þeirri bestu sem ég hef verið með en sú besta kom frá Grétari Einarssyni heitnum úr Garðinum. Það var hrikalega gaman og fólk var ánægt, það var líka mjög góð stemmning yfir mannskapnum. Að sjálfsögðu tók ég lagið með meistara Mumma Hermanns sem hefur spilað á skötumessunni hjá okkur frá upphafi.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þakklæti er Magga efst í huga eftir viðburðaríkt ár. „Ég vil fyrst og fremst þakka öllum viðskiptavinum okkar fyrir að standa með okkur á þessu ári, við erum gríðarlega þákklát fyrir hvað komu margir hingað í dag. Starfsfólkið mitt á líka stórt hrós skilið, þau eru búin að standa sig frábærlega á erfiðum tímum í Covid-inu en líka núna eftir að allt fór af stað aftur. Án þeirra væri fyrirtækið ekki neitt.“

Myndir frá skötuveislunni má sjá hér að neðan