Reykjanes Optikk
Reykjanes Optikk

Mannlíf

Melrakkar horn í horn
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 4. september 2022 kl. 09:13

Melrakkar horn í horn

„Þetta er félagsskapur fyrir alla sem hafa gaman af því að ferðast um náttúru Íslands og eiga skemmtilegar stundir saman,“ segja þær Íris Sigtryggsdóttir og Karitas Sara G Haesler, talskonur Melrakka. Í dag eru Melrakkar deild innan Akstursíþróttafélags Suðurnesja en svo gæti farið að Melrakkar verði sjálfstætt félag þar sem starfsemi deildarinnar er mun meira í þá átt að vera ferðafélag en íþróttafélag. Í Melrökkum ferðast fólk um á fjórhjólum og Buggybílum og hópurinn, sem telur um eitt hundrað manns, er duglegur að skipuleggja ferðalög og viðburði.

Nú seint í ágúst fóru á annan tug Melrakka í sex sólarhringa ferðalag frá Reykjanestá og að Fonti á Langanesi, horn í horn. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem félagar í Melrökkum fara þessa leið en þetta er í fyrsta skipti sem ferðalagið er tekið á svona löngum tíma og er ekki kapphlaup við klukkuna.

Á slóðir þar sem heimilisbíllinn kemst ekki

Það sem sameinar fólk í Melrökkum er ferðamátinn, fjórhjólin og buggybílarnir. Það eru tæki sem komast á þær slóðir sem hinn venjulegi heimilisbíll fer ekki. Mikil áhersla er lögð á virðingu við náttúruna og aldrei er farið út fyrir slóða og þær stöllur, Íris og Karitas, segjast svíða að sjá þegar náttúrunni hefur verið spólað upp á fjöllum, eins og sýnt hefur verið í fjölmiðlum að undanförnu.

Ferðanefndin hjá Melrökkum skipuleggur reglulegar ferðir um landið, stórar sem smáar. Þá er framundan fjölskylduferð þar sem börnin eru tekin með í smá útivist, grillað og haft gaman. Sumar ferðir eru skipulagðar með löngum fyrirvara á meðan hnoðað er í aðrar með nær engum fyrirvara.

Margra mánaða skipulag

Melrakkar hafa nokkrum sinnum farið horn í horn en leiðin er ekki alltaf sú sama. Drög að ferðinni núna voru lögð upp úr síðustu áramótum. Þegar þátttaka liggur fyrir þarf að skipuleggja leiðina og hvar séu gistimöguleikar, hvar sé hægt að taka eldsneyti og hvar sé hægt að komast í mat, því það er takmarkað sem hægt er að ferðast með á hjólunum. Stundum þarf að koma fyrir eldsneyti og vistum á leiðinni, en þess þurfti ekki núna þar sem ferðin var skipulögð með aðgengi að bensínstöðvum, þó svo allir væru með varabirgðir á hjólunum.

Ferðalagið núna hófst á Reykjanestá. Fyrsta gisting var í Hrauneyjum, síðan í Bárðardal og þar hófst síðasti leggurinn út á Font á Langanesi. Á bakaleiðinni var gist rétt við Þórshöfn. Þaðan var farið að Laugafelli á miðhálendinu og síðasta nóttin var svo í Húsafelli.

Spurðar hvort það hafi verið eitthvað vesen eða bilanir, þá segja þær að það hafi ekki verið. Eitt hjól hafi bilað á bakaleiðinni og það hafi verið skilið eftir í Varmahlíð. „Svo eyðilagðist eitt dekk og það fór hosuklemma hjá mér en það reddaðist allt. Dekkinu var bara reddað á næsta bóndabæ,“ segir Íris. Karitas bætir við að það sé óhjákvæmilegt að það verði smá vesen en það séu bara áskoranir fyrir hópinn. Það sé bara leiðinlegt þegar einhver dettur út úr hópnum með miklar bilanir. „Þetta eru þaulvanir hjólarar. Þarna erum við með bifvélavirkja, rafvirkja, pípara, kokka. Það er öll flóran, þannig að allir geta gert eitthvað,“ segir Íris.

Með náttúruna í fanginu

„Þetta er hrá ferðamennska. Það er ekkert sambærilegt við þetta, nema kannski ganga. Þú ert með náttúruna í fanginu,“ segir Karitas þegar þær eru spurðar um hvernig sé að upplifa landið með þessum hætti, að fara um það á fjórhjólum og buggybílum. Í ferðinni horn í horn fékk hópurinn gott veður mestan hluta leiðarinnar en einnig rigningu og rok. Það var þó ekki nema einn dagur sem var þungu veðurfarslega, þegar verið var að fara yfir Sprengisand. Íris segir betra að vera á þungu hjóli þegar keyrt er í miklum vindi, því það geti verið áskorun að halda sér á hjólinu í mesta vindinum. Þau segjast hafa farið hratt yfir Sprengisand í því veðri sem var þar, enda svo sem lítið að sjá annað en sand og auðn.

Það er nauðsynlegt að vera með góðar varnir þegar ferðast er með þessum hætti. Góðir hjálmar, brynjur, kragar, góðir gallar og skóbúnaður skipta öllu. Þá er ekki verra að hafa nýrnabelti til að taka álagið í hristingnum, því slóðarnir til fjalla eiga það nú flestir sameiginlegt að vera ekki rennisléttir.

Bæði skemmtilegt að keyra og vera farþegi

Íris keypti sér fjórhjól fyrir fjórum árum síðan og lét þar gamlan draum rætast. Í dag er hún á þriðja hjólinu á þessum tíma. Karitas er nýlega búin að kaupa sér buggybíl en eiginmaður hennar hefur verið fjórhjólamaður. Þau hjónin skiptast því á að keyra bílinn og Karitas segir bæði skemmtilegt að keyra og vera farþegi. Þú upplifir náttúruna öðruvísi sem farþegi, því við aksturinn eru augun föst á leiðinni sem ekin er og á þeim sem er fyrir framan þig í röðinni.

Melrakkar vekja athygli þar sem þeir eru á ferð. Þar sem er stoppað koma ferðamenn oft að til að forvitnast um ferðalagið. Sama á við um heimamenn. Þannig komu örugglega flestir þorpsbúar á Þórshöfn til að skoða hjólin og buggybílana þegar hópurinn stoppaði í kvöldmat þar eftir að hafa náð áfanganum horn í horn. Fólk sé forvitið um þennan ferðamáta og þá vekur athygli að nær öll tækin eru frá sama framleiðanda, Can Am.

Adrenalín og ánægja

Það getur fylgt því mikil líkamleg áreynsla að fara um á þessum tækjum en það fylgir þessu mikið adrenalín og ánægja. Þó svo fólk komi dauðuppgefið úr fjórhjólaferð, þá sé alltaf spenningur að komast í næsta ferðalag. Framundan er fjölskylduferð í september og svo í framhaldinu verða lögð drög að vetrarferðum, því félagsskapurinn starfar allt árið. Það eru Melrakkar sem hafa meiri áhuga á sumarferðalögum, á meðan aðrir Melrakkar eru frekar fyrir vetrarferðir og að keyra í snjó.

Sjáið myndasafn hér neðar í fréttinni.

Melrakkar horn í horn 2022