Sporthúsið
Sporthúsið

Mannlíf

Meistarahjón og bestu vinir
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 3. janúar 2023 kl. 09:35

Meistarahjón og bestu vinir

Hjónin Guðmundur Steinarsson og Anna Pála Magnúsdóttir hafa verið saman ... nánast alltaf. Þau kynntust sem börn á leikjanámskeiði, urðu bestu vinir, svo kærustupar og loks hjón. Það er ekki annað að sjá en að þau séu alltaf yfirmáta hamingjusöm og ánægð með tilveruna – og hvort annað. Bæði eru þau afreksfólk í íþróttum, Gummi markahrókur í fótboltanum og Anna Pála var hluti gullaldarliðs Keflavíkur í körfuboltanum.

Víkurfréttir hittu hjónin á fallegu heimili þeirra í Keflavík og við ræddum um lífið fyrir og eftir að íþróttaferlum þeirra lauk en bæði hafa þau náð afbragðsárangri, hvort í sinni íþróttagrein. Anna Pála lék körfubolta með Keflavík og varð Íslands- og bikarmeistari með liðin en Gummi lék fótbolta með Keflavík. Hann lék með liðinu þegar Keflavík lenti í öðru sæti á Íslandsmótinu árið 2008 en þá varð hann markahæstur í deildinni. Hann er jafnfram leikja- og markahæstur Keflvíkinga í efstu deild. Gummi hefur einnig náð ágætis árangri sem þjálfari en hann var lengi aðstoðarþjálfari hjá Ágústi Gylfasyni og Anna Pála var sjúkraþjálfari kvennaliðs Keflavíkur í körfunni. Nú eru þau hjónin komin á kaf í vinnu með körfuknattleiksdeild Keflavíkur en Gummi var ráðinn framkvæmdastjóri deildarinnar í ár.

Einhver fíkn

„Sko, ég er framkvæmdastjóri. Við erum fimm í aðalstjórn og níu í varastjórn – og það veitir ekkert af öllum þessum fjölda,“ segir Gummi. „Ég er meira svona verkefnastjóri, sé um að deila út verkefnunum.“

Bílakjarninn /Nýsprautun
Bílakjarninn /Nýsprautun

„Þetta er bara einhver fíkn. Þú verður að fá að skipta þér af,“ segir Anna Pála og bætir við að fólk hafi skoðanir og vilji fá að gera eitthvað. „Ég var búin að vera viðloðandi körfuna lengi; ég var búin að vera í stjórn, búin að vera sjúkraþjálfari hjá kvennaliðinu, búin að vera í kvennaráði og framvegis. Svo hætti Gummi að þjálfa og allt í einu höfðum við allan tímann í heiminum fyrir okkur sjálf og sá tími fór fram í sófanum fyrir framan sjónvarpið – en við nenntum því ekki. Þá spurði Gummi hvað við ættum að gera, við nenntum ekki að fara að vinna í kringum fótboltann því það tekur frá manni sumrin. Okkur langaði að eiga frí á sumrin; við erum ekki lengur með ungabörn, vorum að byrja í golfi og okkur langar að ferðast. Svo Gummi stingur upp á hvort við ættum að athuga með körfuna og upphaflega fórum við saman inn sem eitt stöðugildi. Við fórum oftar en ekki bæði á fundina en Gummi var oftar í kringum leikina. Ég vissi svo sem frá upphafi að hann myndi aldrei láta það duga að vera bara á hliðarlínunni, gleymdu því, hann þarf að fá að skipta sér aðeins meira af.“

„Það fer fækkandi því fólki sem er tilbúið að taka ákvarðanir – stundum óvinsælar og þú veist að þú átt eftir að fá gagnrýni fyrir,“ segir Gummi. „En það þarf að taka þessar ákvarðanir.

„Og Gummi er bara vanur því að vera óvinsæll inn á fótboltavellinum,“ skýtur Anna Pála inn í og þau hlægja bæði. „Ég meina, þú verður stundum að taka erfiðar ákvarðanir. Þá bara tekur maður það á kassann.“

„Pabbi þjálfaði mikið í yngri flokkunum og var meira viðloðandi starfið hjá yngri flokkunum en bæði mamma og pabbi voru á tímabili í stjórn í fótboltanum. Mamma var fyrsti kvenmaðurinn í stjórn knattspyrnunnar í Keflavík – brautryðjandi,“ segir Gummi. „Hún byrjaði í stjórninni seint á níunda áratugnum og var í þeirri stjórn sem tók þá drastísku ákvörðun að Keflavík hætti að spila í gulu. Þau ætluðu að fara í svart en í þá daga mátti það ekki þar sem dómarar voru svartklæddir. Það var sennilega árið ‘90 að Keflavík fór í svarbláan búning, eins nálægt svörtum og hægt var.“

Eruð þið bæði héðan úr Keflavík?

„Ég ólst ekki upp hérna í Keflavík fyrstu árin, ég bjó á Stöðvarfirði til tíu ára aldurs. Mamma, Helga Sveinsdóttir, er Keflvíkingur í húð og hár og við fluttum hingað ‘89 ... og þá kynntumst við Gummi,“ segir Anna. „Ég var látinn kynnast henni,“ skýtur Gummi inn í og Anna segist ekki hafa vitað af því.

Upphaf gullaldar kvennakörfuboltans í Keflavík

Anna Pála varð bæði Íslands- og bikarmeistari með meistaraflokki Keflavíkur í körfuknattleik en hún lék í gegnum alla yngri flokka með einu sigursælasta flokki liðsins. „Ég held að við höfum orðið Íslandsmeistarar í minnibolta og upp úr. Þetta er ‘78 árgangurinn, ég er reyndar fædd ‘79 en spilaði alltaf með þeim,“ segir Anna Pála.

Þau hjónin hafa skemmtilega sögu að segja af uppgangi kvennakörfuboltans í Keflavík en upphafið má rekja til þess að dóttur þáverandi formanns langaði að spila körfubolta. Á þeim tíma náði Keflavík í Kana sem hafði verið rekinn frá liði í Finnlandi fyrir slagsmál og auk þess að leika með karlaliði Keflavíkur var hann fenginn til að þjálfa kvennalið.

„Það var smalað saman einhverjum hópi til að byrja að æfa í Myllubakkaskóla. Svo var þessi Kani fenginn til að þjálfa og hann þótti svo ofboðslega sætur að hann mokaði inn kvenfólkinu á æfingar. Fyrir vikið varð kvennakörfubolti allt í einu rosalega vinsæll í Keflavík – allt einhverjum slagsmálahundi frá Finnlandi að þakka,“ segja hjónin og hlægja.

Var látinn kynnast henni

Gummi er uppalinn Keflvíkingur og hann segir að það hafi verið mikið sport á þessum tíma að vera vatnsberi hjá karlaliðinu í körfunni. „Það var hart barist um það að fá að vera vatnsberi hjá körfuboltaliðinu hérna í Keflavík, þ.e. karlaliðinu, en ég sjá mér leik á borði og gerðist vatnsberi hjá konunum. Þá voru þær að byrja að vinna.

Pabbi þekkti svo margar af þessum stelpur, bæði úr fótboltanum og svo hafði verið að kenna þeim líka, og hann hengdi mig svolítið á Önnu Maríu [Sveinsdóttur, móðursystur Önnu Pálu]. Þegar að Anna Pála flytur þá voru náttúrlega leikjanámskeið á sumrin og Anna María var leiðbeinandi þar ...“

„... og til að ég myndi kynnast einhverjum krökkum var ég send með Önnu Maríu frænku á leikjanámskeið. Svo kem ég á leikjanámskeið, tíu ára, og í fyrsta nestistímanum kemur sætasti strákurinn á námskeiðinu og segir: „Hæ, hvað heitir þú?,“ og við urðum bestu vinir upp frá þeim degi. Ég hélt alltaf að hann hefði fallið fyrir þessari sveitastelpu sem var nýkomin í bæinn – en svo frétti ég það upp við altarið árið 2008, þegar ég var að giftast honum, þegar Sigfús prestur segir: „... og það var Anna María, frænka Önnu Pálu, sem bað Gumma um að vera ...“ Ég var gapandi hissa og sagði bara: „Ha?“

Þá var hann vatnsberi hjá liðinu og Anna María frænka sagði við hann: „Ég er að koma með frænku mína, sem var að flytja í bæinn, á námskeiðið. Ertu til í að leika við hana og vera góður við hana?“ En hann er kannski búinn að vera aðeins of góður við mig.“

Anna Pála og Gummi hafa eiginlega verið saman síðan þá en þau urðu kærustupar fimmtán, að verða sextán, ára gömul – eða eins og Anna Pála orðar það: „Við erum búin að vera bestu vinir í 33 ár, síðan við vorum tíu ára, og höfum verið kærustupar í næstum tuttugu ár.“

Þegar maður sér til ykkar þá virðist þið alltaf vera voðalega skotin hvort í öðru.

„Já, ég held að við séum það,“ segja þau bæði. „Okkur finnst líka ofsa gaman að vera saman.“

„Ég held að lykillinn að okkar sambandi sé að við erum bestu vinir,“ segir Anna Pála. „Og eigum sama vinahóp og svoleiðis,“ bætir Gummi við. „Við hittumst í haust, hópurinn sem varð bikarmeistari fyrir tuttugu og fimm árum, og ég held að ég hafi þurft að segja henni frá því svona fimm sinnum. Við erum svo óvön því að gera eitthvað í sitt hvoru lagi.“ Þau hlægja innilega og Gummi bætir við: „Hún spurði mig alla vega þrisvar hvort við ættum að hafa þetta í matinn á laugardaginn.“

Brúðkaupsdagurinn.


Mikil Keflavíkurfjölskylda

Guðmundur Steinarsson er leikja- og markahæstur Keflvíkinga en hann skoraði 147 mörk í 326 leikjum með Keflavík í efstu deild og bikar á Íslandi auk þriggja marka í tíu Evrópuleikjum.

Keflavík hefur fjórum sinnum orðið bikarmeistari í knattspyrnu. Gummi var í liðinu í þremur af þeim skiptum (1997, 2004 og 2006) og Steinar, pabbi hans, þegar Keflavík varð fyrst bikarmeistari (1975). Þá hefur Keflavík orðið fjórum sinnum Íslandsmeistari og í þau skipti voru ýmist pabbi eða föðurbróðir Gumma, bræðurnir Steinar og Jón Jóhannssynir, í liðinu.

Guðmundur Steinarsson fékk viðurkenningu þegar hann varð bæði leikja- og markahæsti  leikmaður meistaraflokks Keflavíkur í efstu deild í knattspyrnu eftir leik Keflvíkinga og Grindvíkinga í Pepsi-deild karla 2011. Guðmundur skoraði eina mark Keflvíkinga í leiknum sem tapaðist 1:2 og það var 74. mark hans í 215 leikjum í efstu deild. Faðir hans, Steinar Jóhannsson, átti gamla markametið en Sigurður Björgvinsson hafði leikið flesta leiki Keflvíkinga á undan Guðmundi.