Mannlíf

Margt fallegt að  gerast í samfélaginu
Sólborg Guðbrandsdóttir
Sólborg Guðbrandsdóttir skrifar
fimmtudaginn 9. janúar 2020 kl. 07:31

Margt fallegt að gerast í samfélaginu

Sandra Ólafsdóttir, viðskiptafræðinemi við Háskóla Reykjavíkur og starfsmaður á Heilsuleikskólanum Kór svaraði áramótaspurningum Víkurfrétta:

Hvernig fagnaðir þú áramótunum?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Ég verð í faðmi foreldra minna. Fyrsta árið sem systir mín verður ekki með okkur svo það verður smá skrítið. En ætli maður kíki ekki á lífið þegar líður á nóttina.“

Ertu með áramótaheiti fyrir 2020?

„Ég legg voða lítið upp úr því að setja mér áramótaheiti þó það blundi stundum á því hvað mig langi að gera á nýju ári ómeðvitað. Ætli það sé ekki að lesa fleiri bækur mér til skemmtunar, njóta þess að vera í kringum fjölskyldu og vini, sjálfsvinna og að leyfa mér að gera eitthvað annað en að læra án þess að fá samviskubit. Þetta síðasta er mjög erfitt og líklega margir sem kannast við það.“

Hvað var það besta sem gerðist hjá þér persónulega 2019?

„Ég hélt áfram þó vindar blésu á móti. Kláraði skólann vel, hélt áfram í minni baráttu og lærði mjög mikið á sjálfa mig. Held ótrauð áfram á nýju ári.“

Hvað var það besta sem gerðist í samfélaginu 2019 að þínu mati?

„Án efa vitundarvakning kynferðisofbeldis og mikilvægi þess að virða mörk annarra. Það er margt fallegt að gerast í samfélaginu okkar, þetta er rétt að byrja!“