Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Mannréttindi að fá að vera maður sjálfur
Laugardagur 8. september 2018 kl. 06:00

Mannréttindi að fá að vera maður sjálfur

Harpa og Thelma segjast heppnar með hlutverk foreldris

„Það eru forréttindi að eignast börn, en það eru ekki mannréttindi. Það eru mannréttindi að fá að vera maður sjálfur.“

Tónlistarkennarinn Harpa Jóhannsdóttir og grunnskólakennarinn og kynjafræðingurinn Thelma Björk Jóhannesdóttir kynntust árið 2006 í Suð-suðvestur, listarými sem Thelma rak á Hafnargötunni í Keflavík. Sameiginlegir vinir kynntu þær fyrir hvorri annarri, skilaboð fuku á milli á Myspace og síðan þá hafa þær tvær verið saman.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Guðmundur Hrafnkell, fjögurra ára, tekur vel á móti blaðamanni Víkurfrétta ásamt mæðrum sínum á fallegum degi í Keflavíkinni. Hamingjan er ríkjandi á heimilinu hjá þessari ósköp venjulegu fjölskyldu.

Vann í því að vera ekki lesbía
„Fyrst og fremst erum við hjón og foreldrar og við erum í þeim hlutverkum í lífinu. Ég er komin á þann stað í dag að ég gleymi því oft að ég sé lesbía og að við séum eitthvað öðruvísi en hinir. Eins mikið og maður var með þetta á heilanum þegar maður kom fyrst út úr skápum,“ segir Harpa sem, að eigin sögn, var dregin út úr skápnum af móður sinni.
„Ég vissi þetta þegar ég var tólf ára og mér fannst þetta algjör martröð. Ég var lengi að sætta mig við að þetta væru mín örlög og vann í því á unglingsárunum að vera ekki lesbía. Ég fór úr því að vera í Wu-Tang Clan peysunni minni yfir í kvartbuxur og þröngan bol,“ segir hún og hlær. „En svo gat ég bara ekki meir.“
Thelma kom svo út úr skápnum á svipuðum tíma og Harpa. „Fyrir marga kom þetta á óvart með mig. Ég var svo ómeðvituð um þetta sjálf. Það var mjög flókið að koma út úr skápnum og það er það ennþá í rauninni því maður er alltaf að koma út fyrir nýju fólki,” segir Thelma, en hún skilgreinir sig sem tvíkynhneigða. „Ég á mjög jákvæða reynslu með karlmönnum og konum. Mér finnst skilgreiningin hinsegin líka æðisleg.”

Kóngulóarmaðurinn með barnaefnið
Harpa og Thelma tóku ákvörðun mjög snemma í sambandinu að eignast barn, en uppteknar konur, í námi og öðru, gáfu sér góðan tíma í að hugsa ferlið út frá öllum mögulegum sjónarhornum. „Við þurftum að anda að okkur smá hugrekki áður en við tókum af skarið og ákváðum að gera þetta. En eftir það tók ferlið ekki langan tíma,“ segir Harpa. „Þetta er búið að vera ógeðslega skemmtilegt ferli og alls engin eftirsjá. Þetta er í raun mjög einfalt mál frá byrjun. Við fengum barnaefni til þess að búa til barn,“ segir Thelma kímin, en Guðmundur Hrafnkell kemur svo til með að mega deila öllum upplýsingum um ferlið þegar honum hentar, ef hann kýs að gera það. „Það er bara af virðingu við hann, engin spéhræðsla. Kannski langar hann til að segja að Kóngulóarmaðurinn hafi búið til barnaefnið og þá munum við bara styðja það í nokkur ár,” bætir hún við og hlær.

Gott stell í Hörpu
Ferlið að eignast barn saman er stórt og mikið og felur í sér aðkomu margra utanaðkomandi aðila. „Við fórum ekkert bara inn í herbergi og kokkuðum þetta sjálfar. Þessu fylgdi ákveðin spéhræðsla,” segir Harpa, en þar að auki er ferlið dýrt og því fylgir eðlilega mikil tilfinningaleg spenna.
Harpa gekk með Guðmund Hrafnkel, en hún er tíu árum yngri en Thelma. „Tíu ára yngra leg, bara auðvitað. Við vorum ýkt heppnar. Gott stellið í Hörpu maður,” segir Thelma og þær skellihlæja. „Við völdum þessa leið, en við berum mikla virðingu fyrir leiðum sem aðrir velja. Það eru algjör forréttindi að eignast barn og maður er ótrúlega heppinn ef maður fær þetta hlutverk. En þú ert algjörlega í vinnu fyrir þennan einstakling, ekki hann fyrir þig.”

Spurðar um barnaefnið í Bónus
Eftir að ljóst var utan heimilisins, að von væri á barni, segjast þær hafa áttað sig á því, eins og eflaust flestir foreldrar, að hversu mikilli almenningseign þær urðu. „Fólk er stundum alveg hryllilega ófeimið við að spyrja, sem getur verið æðislegt, en um leið þarf að virða mörk. Það er kannski ekki alveg málið að króa mann af í kælinum í Bónus.“
Þær segja spurningar fólks þó oftast einungis komnar af einskærri forvitni og vilja alls enga þöggun í kringum þetta. „Við erum alveg komnar með breitt bak og búnar að undirbúa þetta vel. Við þolum ýmislegt.

Kerfið gerir ráð fyrir samkynja samböndum
Að fara út í þann pakka að eignast fjölskyldu stækkar samfélagið til muna, þjónustu þarf að sækja víðs vegar og maður kynnist nýju fólki. „Maður þarf alltaf að vera að koma út úr skápnum, það er bara staðreynd. En við fáum ótrúlega gott viðmót alls staðar. Kerfið gerir allavega ráð fyrir okkur og það er mjög gott að finna fyrir því,“ segir Thelma sem gleymir því stundum að fjölskyldan sé eitthvað „öðruvísi”. „Það er ótrúlega fallegt. Við höfum aldrei fundið fyrir því að við séum eitthvað minna virði sem fjölskylda, frekar en Kalli og Gunna úti í bæ með sín börn.”

Pennastrik getur breytt öllu
Þó viðmótið á Íslandi gagnvart hinsegin fólki sé betra en víðs vegar í heiminum segja þær mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvað hinsegin fólk annars staðar þurfi að ganga í gegnum dagsdaglega. „Á mörgum stöðum þarf hinsegin fólk í alvöru að lifa í felum. Ég á fjölskyldu í Bandaríkjunum og þar er ástandið fyrir samkynhneigða skelfilegt. Við þurfum að hugsa okkur tvisvar um áður en við ferðumst þangað sem fjölskylda. Mig langar ekki að bjóða okkur í þannig aðstæður,” segir Thelma.
„Mér finnst það alveg óþægilegt þegar við erum að leiðast úti á götu og fólk rífur sig nánast úr hálslið því það er að glápa á okkur, en í einhverjum samanburði, ef það er það sem ég þarf að leggja á mig til að láta fólk venjast því að hinsegin fólk sé til, þá bara verður það þannig,“ bætir Harpa við.
Þær segjast finna það að kerfið styðji þær, en það þurfi þó mjög lítið til að hlutirnir fari úr skorðum. „Það þarf ekki nema nýjan forseta, eins og gerðist í Bandaríkjunum, og þá er búið að höggva á réttindi mjög margra sem búið var að berjast fyrir með blóði, svita og tárum. Það þarf ekki nema eitt, tvö pennastrik eða að einhver flokkur bjóði sig fram í næstu Alþingiskosningum með þessi viðhorf. Þetta er stanslaus barátta.”

Boðið sæði í páskaboði

En upplifa Harpa og Thelma mikla fordóma á Íslandi?

„Fordómar og ekki fordómar, þetta er meira bara þekkingarleysi,“ segir Thelma og Harpa bætir því við að flest af því sé alls ekkert viljandi. „Þegar við lendum í einhverju þannig þá er það ekki út af illkvittni heldur meira bara því að fólk er ennþá að læra á þetta.”

Þær hafa þó báðar lent í ansi skrautlegum atvikum sem lýsa því ágætlega hversu hávær tvíhyggjan í samfélaginu okkar er og sköluð karlmennska. „Við vorum í fjölskyldupáskaboði, með fullri virðingu fyrir málsaðilum, og þangað var kominn pólitískur félagi þá stundina ásamt konu sinni. Ég var þá kynnt sem tengdadóttir og var klædd í stóran kjól. Félaginn spyr mig þá hvort ég sé ólétt, byrjar á þeirri spurningu þegar hann er að kynnast mér í veislu. Ég sletti því fram að ég sé nú bara svona stór og í stórum fötum, en annars sé ég líka í lesbísku sambandi og ekkert sæði þar að finna og ákvað bara að senda haltu kjafti-brjóstsykurinn í fordómana, haldandi það að hann myndi bakka. En nei, þá heyrðist þessi geggjaða athugasemd frá kallinum: „Það er nóg til af sæði hér.“ Þarna var hann, sjötugur maðurinn, að bjóða okkur sæði og við vorum að fara að borða lamb saman. Þá stakk ég bara af út í skúr og fékk mér rauðvín. Þeir meina allir svo vel”.

Stolt hinsegin fjölskylda

Varðandi hugtakið hinsegin eru stelpurnar á sama máli. „Einu sinni fannst mér þetta bara eitthvað bullorð, eitthvað sem setti mann út á kantinn. En það þarf að vera eitthvað regnhlífarhugtak fyrir hinsegin samfélagið. Það er ótrúlega fallegt að umvefja það að maður sé hinsegin. Ég get stolt sagt að við séum hinsegin fjölskylda,” segir Harpa.
„Mér finnst fólk sem endurvinnur ekki ferlega hinsegin,“ skýtur Thelma inn í kímin.

Opinská umræða um alls konar fólk er mikilvæg að sögn stelpnanna í heimi sem fullur er af vonbrigðum, en meiri kærleikur er að þeirra sögn ávallt lausnin. „Don´t worry be oncé.”

Viðtal: Sólborg Guðbrands