Mannlíf

Mamma og pabbi duttu í lukkupottinn
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 2. apríl 2021 kl. 09:55

Mamma og pabbi duttu í lukkupottinn

Íris Valsdóttir faldi páskaegg í Sólbrekkuskógi en hefur ekki farið á gosslóðir

„Langtímaplanið var að vera annað hvert ár í bústaðnum hjá mömmu og pabba um páskana og árin á móti hjá tengdafjölskyldunni á Spáni. Mamma og pabbi duttu heldur betur í lukkupottinn því þau fá að hafa okkur tvö ár í röð! Á dagskrá er svo bara bústaðarkósý, spil, gönguferðir, grill og pottur,“ segir Íris Valsdóttir, kennari í Sandgerðisskóla.

– Eru fastar hefðir hjá þér um páskana?

Public deli
Public deli

„Nú erum við fjölskyldan einmitt að byrja að skapa okkar eigin hefðir. Við ákváðum að fara í Sólbrekkuskóg með börnin og fela þar lítil páskaegg sem eldri stelpan okkar fékk svo að leita að. Hún var alsæl með þetta svo ég held að við munum halda okkur við þessa hefð hér eftir.“

– Páskaeggið þitt?

„Ég hugsa að ég fái mér Appolo-bitaegg í ár.“

– Uppáhaldsmálsháttur?

Svo lærir lengi sem lifir er minn uppáhalds en ég fékk líka einn mjög áhugaverðan um daginn og þar stóð: Allir vilja lifa lengi en enginn vill verða gamall.“

– Hvað verður í páskamatinn?

„Valur bróðir bauð okkur í sous vide hamborgarhrygg í fyrra sem smakkaðist svona líka dásamlega vel. Ég er að vona að það hafi verið upphafið að nýrri páskahefð fjölskyldunnar og set hér með smá pressu á hann að halda henni við.“

– Ertu búin að fara á gosstöðvar og ef hvernig var upplifunin?

„Ég hef ekki enn látið mig hafa það að ganga upp en kærastinn minn er búinn að fara tvisvar og hann er frá Spáni! Ég get eiginlega ekki látið það gerast að hann sjái eldgos en ekki ég svo ég verð að fara reima á mig gönguskóna.“

– Hvað viltu segja nú þegar nýjustu takmarkanir voru settar vegna Covid-19?

„Við þurfum víst að standa af okkur enn einn storminn en svo birtir aftur til.“