Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Lokaorð Ragnheiðar Elínar: Mistök og framfarir
Laugardagur 6. apríl 2019 kl. 14:00

Lokaorð Ragnheiðar Elínar: Mistök og framfarir

Eitt það skemmtilegasta sem ég gerði í minni ráðherratíð var að heimsækja nýsköpunarfyrirtæki og frumkvöðla sem unnu að margvíslegum verkefnum, brunnu fyrir hugsjóninni og lögðu allt í sölurnar til að sjá hugmyndina verða að veruleika. Ég, sem hef aldrei byggt upp fyrirtæki, hreinlega dáist að fólki sem hugsar stórt og lætur drauma sína rætast, sér tækifæri í því sem aðrir sjá ekki og framkvæmir. Krafturinn, kappið og þrautsegjan ótrúleg og endalausar hindranir tæklaðar. En stundum ber kappið forsjána yfirliði og verkefni ganga ekki upp. Saga frumkvöðla og framfara í heiminum öllum er vörðuð af tilraunum sem mistókust og áætlunum sem þurft hefur að endurmeta.

Og í því er mikil fegurð fólgin. Að geta lært af mistökum og gert betur. Þannig og einungis þannig verða framfarir.

Public deli
Public deli

Ég minnist þess að hafa rætt við frumkvöðla sem voru að leita fjármögnunar bæði hér á landi og í útlöndum. Þeir voru komnir af stað aftur, eftir að hafa byggt upp fyrirtæki sem hafði ekki gengið. Í stað þess að leggja árar í bát, nýttu þeir reynsluna og lærðu af mistökunum, stofnuðu annað fyrirtæki sem fór vel af stað. Þegar kom að næsta stigi fjármögnunar fengu frumkvöðlarnir alls staðar neitun frá íslenskum fjármálastofnunum, neitun vegna þess að þeir höfðu mistök á ferilskránni. Viðmótið reyndist annað þegar út í hinn stóra heim var komið. Þar kynntu þeir áformin, og einmitt vegna þess að þeir höfðu farið í gegnum þann lærdóm að mistakast þóttu þeir mun vænlegri fjárfestingarkostur en ella.

Mistök, eins erfið og þau geta verið, eru nefnilega vanmetin, alla vega þegar menn viðurkenna þau, draga af þeim lærdóm og standa saman að úrbótum. Það er tómlegt á flughlöðunum í Keflavík án fjólubláu vélanna og stemningarinnar sem WOW bar með sér allt um íslenskt samfélag. Ég er óendanlega sorgmædd yfir þessum málalokum og finn virkilega til með stofnendum og starfsfólki félagsins sem börðust eins og ljón fram á síðustu mínútu, sem og öllum hinum sem horfa upp á atvinnumissi. Til skamms tíma er líka tilefni til að hafa áhyggjur fyrir hönd okkar neytenda, sem og áhrifum á samfélagið hér á Suðurnesjum.

Það er hægt að hafa allar skoðanir á því hvernig þetta gat gerst, sannarlega voru mistök gerð og Skúli Mogensen stofnandi WOW var fyrsti maðurinn til þess að viðurkenna það. Ég held samt að þrátt fyrir allt hafi þetta litla litríka flugfélag haft meiri jákvæð áhrif á íslenskt samfélag en við getum ímyndað okkur akkúrat í dag og ef okkur ber gæfa til að draga lærdóm af mistökunum hafi þetta ekki verið unnið fyrir gýg.

Það mun taka tíma að vinna úr þessu áfalli, en sem betur fer eru undirstöðurnar traustar. Lærdómurinn fyrir okkur Suðurnesjamenn er ekki síst sá að við þurfum að fjölga stoðunum og gæta þess að setja ekki öll eggin í eina körfu. Við sáum það þegar herinn fór og við sjáum það aftur núna. Stöldrum við, stöndum saman og nýtum tækifærin.