Nettó
Nettó

Mannlíf

Lokaorð Ragnheiðar Elínar: Fyrirmynd og frumkvöðull
Föstudagur 10. maí 2019 kl. 06:00

Lokaorð Ragnheiðar Elínar: Fyrirmynd og frumkvöðull

Ég ólst upp í Keflavík, Bítlabænum sjálfum. Og þó svo að ég muni seint vinna stórsigra á tónlistarsviðinu get ég þó státað af því að hafa sungið í Barnakór Keflavíkur undir stjórn Hreins Líndal og lært á klarinett í Tónlistarskóla Keflavíkur. Klarinettið varð reyndar fyrir valinu af því að mamma mín var einlægur aðdáandi Benny Goodman og eftir á að hyggja hefði kannski verið skynsamlegra að mamma hefði sjálf lært á klarinettið! Þrátt fyrir áberandi skort á tónlistarhæfileikum var þetta góður grunnur og kenndi mér að kunna að meta góða tónlist.

Tónlistin, nefnilega auðgar lífið og gerir það betra, hvort sem um er að ræða fallega klassíska tónlist, dauðarokk eða dúndrandi diskó. Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, tónlistin sameinar í flestum tilfellum frekar en að sundra (með augljósum undantekningum eins og Duran eða WHAM og Bítlarnir eða Stones eru klárlega dæmi um). Tónlistin endurspeglar tíðarandann, menningu þjóða, menningu kynslóða og er órjúfanlegur hluti heimssögunnar.

Þetta kom upp í huga minn þegar tilkynnt var um andlát Ingibjargar Þorbergs í vikunni og framlag hennar til íslenskrar tónlistarsögu var rifjað upp. Ingibjörg, sem ég kynntist lítillega á síðustu árum í gegnum móðursystur mína, var ótrúleg kona. Mér kom hún fyrir sjónir sem hógvær kona og lítillát en á sama tíma fannst mér hún algjör töffari, ákveðin og hnyttin. Sú arfleifð sem hún skilur eftir sig, bæði fyrir íslenska tónlist en ekki síst fyrir íslenskar konur er mögnuð. Hún var sannur frumkvöðull og var fyrst til að gera svo ótal margt; Hún samdi fyrsta íslenska jólalagið sem ekki var sálmur, hún var fyrsta konan sem söng eigið lag og texta inn á plötu og hún var fyrsti Íslendingurinn til að ljúka einleikaraprófi á klarinett. Já sko, klarinettið tengir okkur Ingibjörgu - kannski höfðu hún og mamma mín hlustað saman á Benny Goodman í Skerjafirðinum á sínum tíma, hver veit? Ingibjörg var afkastamikill tónsmiður og samdi á þriðja hundrað lög, gaf út barnalög sem við syngjum enn í dag með okkar börnum og munu án efa heyrast um ókomna tíð.

Ingibjörg Þorbergs bjó í Keflavík síðustu æviárin og í viðtali við Víkurfréttir fyrir nokkrum árum sagði hún að það hafi verið vel tekið á móti þeim hjónum þegar þau fluttu hingað á sínum tíma. Hér leið henni vel og því finnst mér að bærinn okkar, með sína sterku tónlistarhefð, eigi að taka frumkvæði í því að heiðra minningu Ingibjargar Þorbergs. Það mætti gera með því að koma upp safni henni til heiðurs eða setja upp sýningu, til dæmis innan Rokksafnsins, á ævistarfi hennar. Saga hennar á erindi við okkur öll, saga frumkvöðuls og fyrirmyndar. Hér með skora ég á bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ að taka þetta verkefni upp á arma sína og sýna í verki þakklæti okkar allra fyrir framlag hennar.

Blessuð sé minning Ingibjargar Þorbergs.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs