Mannlíf

Lokaorð Örvars Þórs: Vor
Örvar Þór Kristjánsson.
Föstudagur 26. apríl 2019 kl. 06:00

Lokaorð Örvars Þórs: Vor

Nú er farið að vora all hressilega og þegar þetta er ritað er sannkallað íslenskt sumarveður úti, 9 gráður og grenjandi rigning. Afar notalegt samt og þessi ilmur í lofti sem kætir alla. Sumarið í fyrra var reyndar afar blautt og dapurt en bjartsýnir menn, eins og undirritaður, spá sólríku og góðu sumri núna. Ef sú spá rætist ekki verða fáir fyrir vonbrigðum því fátt bregst okkur hér á landi jafn reglulega og veðurspár, nema þá kannski loforð stjórnmálaflokkanna fyrir kosningar. Þessi spá verður eiginlega að rætast enda bíður pallaolían ennþá inni í skúr síðan í fyrra og spurning hvort þetta renni nokkuð út. Það er með miklum ólíkindum hvað einn og einn sólardagur gerir fyrir sálina, núna um páskahelgina, eða réttara sagt annan í páskum, var sól í rúmlega fjóra tíma og það lifnaði heldur betur yfir öllum, meira að segja United stuðningsmönnum!

Við fjölskyldan létum t.d. renna í pottinn á mettíma og það var hver einasti sólargeisli nýttur, meira að segja var grillað þrátt fyrir að veðrið hafi ekki verið neitt spes seinnipartinn þegar grillið var tekið út. Sólin fyrr um daginn gerði það að verkum að grillið var vígt við hátíðlega athöfn þetta vorið og 120 gramma hamborgurum (sem þó voru ekki nema 85 gr. þegar þeir voru teknir úr umbúðunum) var skellt á grillið. Ótrúlegt hvað svona börgerar minnka við það að vera teknir úr umbúðunum, magnaður andskoti, einn þeirra datt á milli raufanna á grillinu meira að segja. Það skyggði þó ekki á gleðina á heimilinu því þrátt fyrir tveggja munnbita hamborgarann þá fór brosið ekki af heimilisfólkinu þegar grillbragðið lék um munninn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Úrslitakeppnin í körfuboltanum er núna á lokametrunum. Karlaliðin úr Reykjanesbæ féllu úr leik allt, allt of snemma en Keflavíkurstelpur halda uppi heiðri bæjarins og eru komnar í lokaúrslit gegn Val. Staðan í einvíginu er 1-0 fyrir Vals stúlkur eftir fyrsta leik og það vakti athygli mína hversu illa var mætt á þennan fyrsta leik. Stuðningsmenn liðanna geta betur, mun betur. Keflavíkurstelpur þurfa stuðning til þess að koma þeim stóra í land og eiga hann skilið. Persónulega hef ég fulla trú á þeim, ætla að spá þeim sigur eftir oddaleik. Bjartsýnn að vanda enda þýðir ekkert annað.

Gleðilegt vor!