Mannlíf

Lokaorð Ingu Birnu: Móðir
Inga Birna Ragnarsdóttir.
Laugardagur 18. maí 2019 kl. 09:00

Lokaorð Ingu Birnu: Móðir

Mæðradagurinn var haldinn hátíðlegur um allan heim síðastliðinn sunnudag. Ég er svo heppin að eiga móður sem vildi svo sannarlega eignast mig. Af því að mamma mín þráði að eignast mig þá lagði hún allt á sig til að ala mig upp með sínum góðu gildum og gerði mig að mörgu leyti að þeirri manneskju sem ég er í dag. Ég á henni ótal margt að þakka því ég held það hafi ekki alltaf verið hægðarleikur að ala mig upp, en aldrei kvartar hún samt undan mér. Takk mamma.

Það er óumdeilt að börn þurfa umhyggju, ást og öryggi og svo margt fleira og já endalausan pening. Óvelkomið barn fær slæma vöggugjöf. Það verður byrði í stað þess að vera blessun.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í bókinni Freakonomics er meðal annars fjallað um hvaða áhrif lögleiðing fóstureyðinga hafði á glæpatíðni í Bandaríkjunum. Í stuttu máli var niðurstaðan sú að með lögleiðingu fóstureyðinga árið 1973 þá byrjaði glæpatíðni að lækka upp úr árinu 1990. Færð eru sterk rök fyrir því að með því að veita verðandi mæðrum þennan ákvörðunarrétt þá hafi færri börn fæðst sem óvelkomnir einstaklingar, byrði. Þessi fækkun óvelkominna barna skilaði sér í lægri glæpatíðni í framtíðinni. Sem sagt, óvelkomið barn er líklegra til að búa við verri aðstæður en velkomið barn, sem eykur líkurnar á því að það feti glæpabrautina. Miðað við þessa tölfræði þá eru verðandi mæður vel færar um að meta það hvort þær séu að fæða barn í góðar aðstæður eða slæmar.

Í nýsamþykktu frumvarpi á Alþingi Íslendinga mega konur láta eyða fóstri fyrstu 22 vikur meðgöngu en sá tími var áður 18 vikur.  Miklar umræður hafa skapast í þjóðfélaginu, bæði með og á móti þessari samþykkt.  Einhverjir vildu ganga enn lengra og lengja þann tíma í 24 vikur líkt og í Englandi, meðal annars Sigurlaug Benediktsdóttir fæðingarlæknir sem skrifaði magnað opið bréf til Ingu Sæland í tilefni þessa lagafrumvarps.
Inn í þessa umræðu tvinnast áleitnar líffræðilegar og siðfræðilegar spurningar, eins og hvenær er fóstur orðið sjálfstæður einstaklingur? Í því samhengi má líta til þess að andvana fædd börn fá ekki kennitölu hjá Hagstofunni þrátt fyrir fulla meðgöngu.

Það má flækja þetta mál og teygja og toga í allar áttir en mín skoðun er einföld. Ef kona metur það sem svo að fóstur sem hún gengur með verði óvelkomið og/eða muni ekki búa við nægilega góðar aðstæður þá eigi hún að fá eins mikinn tíma og hægt er til að meta ákvörðun um að enda meðgönguna. Það er enginn aðili, nefnd eða stofnun betri til að taka slíka ákvörðun en verðandi móðirin sjálf. Aukinn tími og sveigjanleiki fyrir svo afdrifaríka ákvörðun getur að mínu mati bara verið til bóta fyrir allar verðandi mæður.