Mannlíf

Lítið Sóleyjar-maraþon á Suðurnesjum til styrktar Krafti
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 17. september 2021 kl. 12:50

Lítið Sóleyjar-maraþon á Suðurnesjum til styrktar Krafti

Vinir og aðstandendur Sóleyjar Bjargar Ingibergsdóttur ætla að hlaupa lítið maraþon á morgun, laugardaginn 18. september. Sóley Björg greindist með illkynja brjóstakrabbamein fyrr á árinu og munu hlauparar hlaupa til styrktar Krafti, en það er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein.

„Þetta er svona okkar maraþon og sú hugmynd kom upp úr því Reykjavíkurmaraþoninu var aflýst. Við æltum að hittast heima hjá Tedda bróður við Gónhól í Njarðvík og hlaupa þaðan um það bil 5 km. hring, upp í Njarðvíkurskóga og hring í bænum þar sem m.a. verður farin strandleiðin. Eftir hlaupið verðum við með veitingar og stemmningu,“ segir Sóley Björg í samtali við Víkurfréttir. Hlaupið verður á milli kl. 13 og 14 og þeir hlauparar sem vilja fara 10 km. geta hlaupið tvo hringi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hún segist hafa nýtt sér alla þjónustu Krafts sem hafi skipt hana miklu máli. Kraftur er í góðu samstarfi við Apótekarann varðandi lyfjamál sem hafa verið Sóleyju að kostnaðarlausu, sálfræðiþjónusta og fleira sem Sóley segir að hafi verið mikilvægt í hennar baráttu.

„Það væri gaman að sjá sem flesta og í leiðinni að styrkja Kraft. Þetta er mikilvægt félag en ekki með styrki frá hinu opinbera og þarf því að stóla á aðra. Í gegnum Kraft hef ég hitt fólk í svipuðum málum og ég er að eiga í, sérstaklega ungt fólk og það hefur verið gott að ræða við það. Krabbamein spyr nefnilega ekki um aldur,“ segir þessi unga Suðurnesjamær.

Sóley er aðeins 27 ára og greindist sama dag og hún lauk síðasta prófinu í flugkennaranáminu í mars á þessu ári en Sóley var búin að ljúka öllu í flugmanninum og bíður eftir því að komast í háloftin þegar heilsa hennar leyfir og ástandið í flugheiminum verður orðið betra.

https://www.rmi.is/hlaupastyrkur/hlaupahopar/370-hlaupakraftur-soleyjar?fbclid=IwAR3CDcsqbQ4aFFHkhjYbEgOOVT0CbZIXi8I4KEbQVmyqTjAH5hy6QrDuP-A