Mannlíf

Lífga upp á bæjarlífið
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
þriðjudaginn 14. júlí 2020 kl. 10:30

Lífga upp á bæjarlífið

Hildur Hlíf Hilmarsdóttir og Krummi eru verkefnastjórar fyrir verkefnið Skapandi sumarstarf í Reykjanesbæ. Þau eru með fimmtán manna hóp ungmenna úr öllum áttum þegar kemur að skapandi greinum. Hópurinn fór í hugmyndavinnu í sumarbyrjun með það að markmiði að lífga uppá bæjarlífið með ýmsum mögulegum hætti.

„Við erum með leikara, tónlistarfólk, smiði, rafvirkja, dansara og fjöllistafólk á okkar snærum. Við skiptum hópnum upp í tvær einingar. Annar er smíðahópur sem er þessa dagana að smíða kofa sem verða settir á túnið framan við Fischershús. Einnig er verið að gera leikföng sem verða sett á lóðina við Svarta pakkhúsið,“ sagði Krummi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hópur ungmenna var að vinna að torgi á baklóð Fischershúss í blíðunni á dögunum. Þar voru penslar á lofti. Þar verður settur upp pizzaofn og grill á staðnum og þar verður einnig svið þar sem mögulegt er að taka í gítar og skapa stemmningu.

„Það er metnaðarfullt starf í gangi og mörg verkefni,“ segir Hildur en verkefnið með ungmennunum mun standa út júlímánuð. Þau eru á aldrinum 17 til 27 ára en verkefnið var styrkt af ríkisvaldinu í vetur. Ef að vel tekst til verður vonandi hægt að halda áfram á svipuðum nótum næsta sumar, bæta um betur og byggja ofan á það sem nú er verið að gera.

Hópurinn var með tónleika á Nesvöllum og í Hæfingarstöðinni á Ásbrú. „Svo erum við opin fyrir því að taka fleiri gigg,“ segja þau í samtali við Víkurfréttir.

Ef fólk vill fylgjast með verkefinu, þá er það á Instagram undir Hughrif í bæ. Þar má sjá vikuleg kynningarmyndskeið þar sem farið er yfir það sem er verið að vinna að á hverjum tíma.