Blik- mannstu eftir Eydísi
Blik- mannstu eftir Eydísi

Mannlíf

Leiklist hjálpar okkur að gera heiminn betri
KEF101 leikhópur Myllubakkaskóla sýndi leikritið Iris. Hér ásamt leikstjórum sínum, þeim Írisi Dröfn Halldórsdóttur og Ingibjörgu Jónu Kristinsdóttur. Heba Friðriksdóttir var þeim einnig innan handar.
Sunnudagur 26. maí 2019 kl. 13:00

Leiklist hjálpar okkur að gera heiminn betri

-Þjóðleikur er mannbætandi verkefni

Á Sumardaginn fyrsta var mikið um dýrðir í Grunnskólanum í Garði þegar stærsta leiklistarhátíð Suðurnesja fór fram. Þarna komu nokkrir leikhópar af Suðurnesjum saman og sýndu leikrit á Þjóðleik. Leik­list­ar­verk­efnið Þjóðleik­ur, sem Þjóðleik­húsið hleypti af stokk­un­um fyr­ir tíu árum, hef­ur vaxið og dafnað ár frá ári. Mark­miðið var frá upp­hafi skýrt og hef­ur ekk­ert breyst: Að tengja Þjóðleik­húsið á lif­andi hátt við ungt fólk, 13-20 ára, á lands­byggðinni og efla þannig bæði áhuga þess og þekk­ingu á list­form­inu.


Leikhópurinn LUDO Sandgerði, ásamt Guðnýju K. Snæbjörnsdóttur leikstjóra.

Verkefnið hófst á Aust­ur­landi, en hef­ur síðan breiðst út til sex annarra lands­hluta; Suður­lands, Suðurnesja, Vest­ur­lands, Vest­fjarða, Norður­lands eystra og Norður­lands vestra. Björn Ingi Hilm­ars­son, leik­ari, er verkefnisstjóri Þjóðleiks en hann starfar sem deild­ar­stjóri barna- og fræðslu­starfs Þjóðleik­húss­ins.

Fyr­ir­komu­lagið er með þeim hætti að annað hvert ár eru þrjú eða fjög­ur þekkt, ís­lensk leik­skáld feng­in til að skrifa krefj­andi og spenn­andi leik­rit fyr­ir ungt fólk. Í sam­ráði við leiðbein­anda leik­hóps­ins, sem verður að vera eldri en tví­tug­ur, velja ung­menn­in síðan eitt verk­anna til að setja upp í heima­byggð sinni og njóta til þess stuðnings fag­fólks frá Þjóðleik­hús­inu.

Á vor­in er svo alltaf mikið um dýrðir þegar blásið er til leik­list­ar­hátíðar þar sem leik­hóp­ar, sem oft eru nokkr­ir í hverj­um lands­hluta, koma sam­an og hver og einn sýn­ir upp­færslu sína. Hátíðin er vett­vang­ur fyr­ir leik­hóp­ana að sýna sig og sjá aðra og ræða sam­an um leik­list og leik­rit. Á hátíðinni sjá leik­ar­ar og áhorf­end­ur glögg­lega hversu ólík­ar leiðir hægt er að fara að ein­um og sama text­an­um. Að þessu sinni voru eftirfarandi leikverk; Dúkkulísa, eftir Þórdísi Elvu Bachmann og Iris, eftir Ólaf Egil Egilsson og Bryndhildi Guðjónsdóttur. Víkurfréttir voru á staðnum og tóku púlsinn á þátttakendum Þjóðleiks, sem endurspeglar gleði og ánægju leikhópanna.

Leikhópurinn LUDO er áhugamannaleikhópur fyrir þrettán ára og eldri sem staðsettur er í Sandgerði. Þau sýndu leikritið Dúkkulísa í leikstjórn Guðnýjar K. Snæbjörnsdóttur. 

Styrmir Þór Wium:
„Við erum að sýna leikritið Dúkkulísa þar sem unglingar eru að eiga börn og einnig um unglingadrykkju. Í leikritinu kem ég af brotnu heimili og heiti Diddi.“

Sandra Dís Arnardóttir:
„Ég leik Lísu sem er fimmtán ára að eignast barn og hittir pabbann í fyrsta skipti eftir að barnið er fætt. Ég er að reyna að vera aftur partur af vinahópnum en nú er ég öðruvísi því ég er búin að eignast barn.“

Aron Rúnar Hill Ævarsson:
„Ég leik pabbann sem er ágætlega ábyrgur miðað við það að hann er nýorðinn pabbi. Það er mikið mál að verða pabbi svona ungur. Það er búið að vera mjög skemmtilegt og gaman að vera í þessum hóp.“

Sandra Dís Arnardóttir:
„Þetta var mjög krefjandi en rosalega skemmtilegt og góður hópur. Þetta er rosalega fróðlegt leikrit, talar um hversu erfitt það er að eiga börn svona ungur, þegar við erum börn sjálf. Erum að leika krakka í 10. bekk sem allt í einu eru komin út í fullorðinslífið. Við erum búin að vera að æfa nokkrum sinnum í viku, í marga klukkutíma og finna út ljós og hljóð. Að standa uppi á sviði og sýna fyrir framan fullt af fólki er krefjandi en líka rosalega gefandi fyrir framtíðina, að þora að tala fyrir framan fólk.“

Krakkalakkarnir er leikhópur Akurskóla í Reykjanesbæ sem sýndu Iris nútímaævintýri í leikstjórn Kristínar Þóru Möller.

Krakkalakkarnir er leikhópur Akurskóla í Reykjanesbæ sem sýndu Iris nútímaævintýri í leikstjórn Kristínar Þóru Möller.

Bergþóra Sif Árnadóttir:
„Leikritið okkar fjallar um stelpu sem fer í fíkniefnaneyslu.“

Nína Björg Ágústsdóttir:
„Hún hittir úlfinn og þá fer allt niður á við í lífi hennar. Hann er svona vinur hennar sem hún hittir og er líka í fíkniefnaneyslu.“

Þórhildur Erna Arnardóttir:
„Ég leik úlfinn og það mætti segja að ég sé vafasamur félagsskapur. Ég er að heilla stelpuna, bjóða henni dóp þannig að hún verður kærasta mín og við erum að fara niður veginn til dauða.“

Hópurinn er nokkuð sammála um eftirfarandi ummæli:
„Stressandi en skemmtilegt. Æðisleg upplifun að fá að gera þetta. Erfitt að læra línurnar. Við erum búin að læra að þora að sýna fyrir framan aðra, þátttakan eflir sjálfstraust okkar.“

Hvar eru strákarnir?
„Strákarnir eru einhvers staðar heima hjá sér. Þeir eru heima að spila Fortnite. Þeim finnst erfitt að koma fram og eru hræddir við að gera sig að fífli. Það væri flott að fá leiklist fyrir alla inn í stundatöflu skólans allt árið. Við fengum ákveðna útrás og fengum að láta ljós okkar skína. Við erum í rosalegu miklu stuði rétt fyrir sýningu.“

Kristín Þóra Möller, kennari í Akurskóla:
„Í leikritinu er stelpunni líkt við Rauðhettu sem úlfurinn platar út af stígnum í slæman félagsskap og neyslu. Þetta er nútíma ævintýri. Ég er rosalega stolt af þessum krökkum. Það er algjör tilviljun að ég er hérna, ég er bara áhugamanneskja og vildi sjá leiklist í skólanum. Kennarinn forfallaðist síðast þegar Þjóðleikur var haldinn og ég hoppaði þá inn í þetta verkefni því mig vantaði tíma í töflu og er hérna ennþá. Rosalega gaman, rosalega stressandi en rosalega hollt. Ég er með krakka sem þorðu varla að standa fyrir framan bekkinn sinn. Þau hafa öðlast meira sjálfstraust og ég fæ gæsahúð og tár í augun til skiptist þegar ég horfi á þau núna.“

Leikfélag Holtaskóla sýndi leikritið Dúkkulísa. Hér ásamt leikstjóranum Maríu Sigurðardóttur og Önnu Þrúði Auðunsdóttur.

Nemendur úr Leikhóp Gerðaskóla sýndu Dúkkulísa í leikstjórn Vitor Hugo.

Leikhópur Gerðaskóla ásamt Vitor Hugo leikstjóra.

Amelía Björk Davíðsdóttir:
„Ég er að leika Gísla barnsföður í Dúkkulísu leikritinu. Ég var að reyna að fá stelpuna sem átti barnið með mér að koma á ball og drekka áfengi. Ég var kannski óafvitandi að reyna að vera með stelpunni eftir að hún eignaðist barnið. Það voru engir strákar sem tóku þátt í þessu verkefni í skólanum okkar og þess vegna urðum við að nota stelpur í strákahlutverk. Þetta er búið að vera rosalega gaman og ég hefði ekki viljað missa af þessu. Ég reyndi að breyta röddinni en gleymdi mér stundum. Hann Gísli er ekkert í mútum eða svoleiðis, ég er ekkert að reyna að flækja þetta hlutverk neitt frekar.“

Halla Líf Marteinsdóttir:
„Ég leik 15 ára stelpu sem eignast barn í sýningunni um Dúkkulísu. Leiklist er búin að opna mann meira og hjálpa manni að vera ekki feimin. Það er mjög spennandi að fá að sýna áhorfendum sýninguna okkar eftir nokkrar mínútur.“

Karolina Taudul:
„Ég leik vinkonu hennar. Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt og gaman og margir nemendur búnir að taka þátt hjá okkur í kringum sýninguna.“


Halla Líf Marteinsdóttir t.v. leikur barnsmóður Gísla og Karolina Taudul leikur vinkonu hennar.

Vitor Hugo, kennari í Gerðaskóla: Hvenær tókst þú við sem verkefnastjóri Þjóðleiks á Suðurnesjum?„Ég var með í Þjóðleik fyrir tveimur árum þegar Suðurnes tóku þátt í fyrsta skipti og var lokahátíðin þá haldin í 88 húsinu. Þegar við fórum af stað núna þá fékk ég leyfi til að bjóða fram aðstöðu í Gerðaskóla þar sem sá skóli hefur einna bestu aðstæður í grunnskólum hér á svæðinu til leiksýninga. Ég tók að mér verkefnastjórastöðu á þessu ári ásamt Ingibjörgu Jónu Kristinsdóttur í Myllubakkaskóla. Ég sá auk þess um að sækja um styrk til Uppbyggingasjóðs Suðurnesja til að dekka kostnað.“

Finnst þér krakkarnir hafa haft gott af þessu?
„Já, alveg tvímælalaust. Þetta er verkefni þar sem enginn bikar er í lokin heldur eru allir þátttakendur sigurvegarar á sinn hátt. Sumir nemendur eru ófeimnir að fara á svið á meðan aðrir þurfa að leggja meira á sig og þannig verður hver og einn að sigra sjálfan sig. Krakkarnir fá ýmsa reynslu, ekki bara að standa á sviði, heldur líka eru nemendur sem taka að sér hljóðvinnslu, ljós, sviðshönnun og búningahönnun. Það eru nemendur sem sjá um hár og förðun, þannig geta allir sem hafa áhuga, fengið eitthvað að gera og það þarf ekki endilega að standa á sviði til að taka þátt. Mjög mikilvægt í öllu þessu ferli er að þau fá líka að sjá uppsetningar hjá hinum leikhópunum. Þá verða þau á einhvern hátt óhræddari í sinni eigin uppsetningu þegar þau sjá aðra jafningja, setja upp sín verk. Þetta var mjög gaman en mikil vinna liggur í því að setja svona sýningu upp, ekki bara hjá mér sem verkefnastjóra og leikstjóra, heldur einnig hjá öllum nemendunum sem tóku þátt.“

Ari Matthíasson Þjóðleikhússtjóri setti leiklistarhátíðina í Garðinum og Björn Ingi Hilmarsson, verkefnastjóri Þjóðleiks var einnig á staðnum. Hvaða þýðingu hefur Þjóðleikur að mati þeirra?

Björn Ingi Hilmarsson t.v. er verkefnastjóri Þjóðleiks á landsvísu og Ari Matthíasson er Þjóðleikhússtjóri.

Ari:
„Þjóðleikur er gríðarlega mikils virði fyrir Þjóðleikhúsið. Þetta er mjög stórt samfélagslegt og menningarlegt verkefni. Mannbætandi verkefni. Það eru fjögur til fimmhundruð þátttakendur á öllu landinu í Þjóðleik. Í fyrsta lagi er Þjóðleikhúsið að vinna að leikhúsuppeldi með Þjóðleik og við erum þess meðvituð að við komum öll fyrst úr áhugaleikhúsi. Hér erum við að ala upp framtíðar atvinnumenn í faginu. Leikhús er sérlega mikilvægt nú á tímum. Engin miðill er betri til þess að fá útrás tilfinningalega en í leiklist. Fyrir ungt fólk til að takast á erfiðar spurningar um sorg, gleði, ofbeldi, einelti, útskúfun og eiturlyf er enginn miðill eins góður til þess og leiklistin. Mjög gott að gera þetta í leikhúsi. Hér ertu að setja þig inn í aðstæður fólks og tilfinningar með því að leika þær á sviði. Leiklist hjálpar okkur að gera heiminn betri.“

Björn Ingi:
„Þetta verkefni er búið að vera til í tíu ár og hefur alltaf verið mjög mikilvægt fyrir Þjóðleikhúsið. Ég tók við sem verkefnastjóri fyrir tveimur árum þegar Suðurnesin tóku þátt í fyrsta sinn og því eru sýningarnar hér mér mjög kærar því við erum jafngömul í Þjóðleik, höfum verið þátttakendur jafn lengi. Reykjaneshátíðin er mér mjög kær.“

marta@vf.is

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs