Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Langaði að starfa við eitthvað sem viðkom heilsu og hreyfingu
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 6. september 2020 kl. 07:46

Langaði að starfa við eitthvað sem viðkom heilsu og hreyfingu

Grindvíkingurinn Guðlaugur Eyjólfsson og kona hans, Hugrún Ósk Óskarsdóttir, stunda nám í kíópraktík í Wales þar sem veiran hefur mikil áhrif á allt samfélagið eins og á Íslandi.

„Veiran hefur haft mikil áhrif á allt hér í Wales eins og annars staðar, öllum skólum var lokað um miðjan mars og hefur skólahald nánast legið niðri síðan. Það er auðvitað verst fyrir börnin og þegar þetta er orðinn svona langur tími er orðið erfitt fyrir okkur foreldrana að hafa ofan af fyrir þeim. Við erum heppin að hafa stóran og góðan garð við húsið okkar og aðgang að fallegri velskri náttúru hér í kring,“ segir Grindvíkingurinn Guðlaugur Eyjólfsson en hann og kona hans hafa síðustu þrjú árin dvalið í Wales við nám.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

– Hvað fékk Grindvíkinginn Guðlaug Eyjólfsson til að fara til Wales?

Eftir um tólf ár sem stjórnandi í sölu, þjónustu, vöru- og verkefnastjórnun ákvað ég að skipta um starfsvettvang. Mig langaði að starfa við eitthvað sem viðkom heilsu og hreyfingu. Konan mín, Hugrún Ósk Óskarsdóttir, var í sömu hugleiðingum og tókum við ákvörðun um að flytja með fjölskylduna til Wales og leggja þar stund á nám í kírópraktík.

– Liggur leiðin ekkert heim til Grindavíkur á næstu mánuðum eða árum?

Nú er þessu ævintýri okkar senn að ljúka, við munum flytja aftur til Íslands næsta sumar.

Mér finnst ólíklegt að leiðin liggi til Grindavíkur en við fjölskyldan bjuggum í Kópavogi áður en við fluttum til Wales og stefnum á að flytja þangað aftur að námi loknu – en maður á nú aldrei að segja aldrei. Grindavík er frábær staður, þar búa foreldrar mínir og systir með sína fjölskyldu. Við heimsækjum Grindavík reglulega og þangað er alltaf gott að koma.

– Hvað geturðu sagt okkur meira um kírópraktík?

Kírópraktík er fagstétt og kírópraktorar vinna til dæmis með fólki sem glímir við ýmiss konar stoðkerfisvandamál, aðstoðar fólk við endurhæfingu og í raun allt sem teljast má til almennrar heilsu. Kírópraktorar notast við mismunandi aðferðir en við hjónin höfum lagt áherslu á hreyfingu, styrktarþjálfun og endurhæfingu í okkar námi og nálgun á viðfangsefnið.

– Hver er munurinn á Grindavík og Wales?

Wales er ekkert mjög frábrugðið Íslandi að mörgu leyti, fámennt land með stórt hjarta. Við búum um fimmtán kílómetra fyrir utan höfuðborgina Cardiff í litlum bæ sem minnir mikið á Grindavík. Stutt í alla þjónustu, skóla og tómstundir fyrir dætur okkar. Skólinn okkar hjóna er mjög alþjóðlegur og stundum við nám með fólki (aðallega ungum krökkum sem kalla okkur mömmu og pabba) frá öllum heimshlutum. Wales býr yfir ótrúlegri náttúrufegurð og höfum við verið dugleg að flækjast hér um og njóta hennar.

– Og breska lífið – pöbbar og fótbolti er það ekki? Annar kúltúr en á Íslandi?

Breska lífið og breskur kúltúr er frekar ólíkur íslensku lífi og kúltúr, sumt á jákvæðan hátt og annað á neikvæðan. Okkur var rosalega vel tekið hér í bænum og allir vildu allt fyrir okkur gera svo við aðlöguðumst sem best. Wales-verjar leggja ekki mikið upp úr veraldlegum hlutum, eru mjög hjálpsamir og miklir húmoristar. Pöbbarnir eru vinsælir hjá infæddum og einskonar félagsmiðstöðvar fyrir hverfin, þar hittist fólk eftir vinnu og gerir upp daginn. Þetta leiðir hins vegar af sér ýmis vandamál sem tengjast áfengisdrykkju. Cardiff City er okkar lið í fótboltanum og við náðum einu ári þar sem liðið spilaði í úrvalsdeildinni, við vorum með ársmiða og mættum á alla heimaleiki. Fyrstu tvö árin okkar hér spilaði Aron Einar með liðinu sem gerði það enn skemmtilegra að styðja liðið.

– Hvað með foreldra og fjölskyldu, tengslin við þau eftir flutning?

Það erfiðasta við að flytja er auðvitað fjarlægðin við fjölskyldu og vini. Fjölskyldan hefur þó verið dugleg að heimsækja okkur hingað og við höfum nýtt fríin til að skjótast til Íslands. Nútímatækni gerir þetta hins vegar bærilegra og erum við í daglegum samskiptum við fjölskyldu og vini með tækninni.

– Þú fylgist náttúrlega með þínum mönnum í körfunni í Grindavík sem þú lékst með.

Jú, ég fylgist alltaf með úr fjarlægð og styð mína menn í öllum íþróttum. Ég hef samt ekki verið duglegur að fara á völlinn, ég fékk nóg af körfubolta um tíma og kúplaði mig alveg út. Fékk mikinn áhuga á hlaupum og hljóp nokkur maraþon en núna finnst mér áhuginn vera að koma aftur og er planið að fylgjast betur með þegar ég kem aftur til Íslands. Ég get nú heldur ekki neitað því að þar sem við búum við íþróttasvæði Breiðabliks í smáranum í Kópavogi þá er græni liturinn aðeins farinn að blandast við þann gula í íþróttunum.

– Hvernig hefur ykkur gengið að lifa með veirunni þarna úti?

Nú er hins vegar allt að fara af stað aftur, vonandi mun veiran ekki ná að dreifa sér það mikið að grípa þurfi til eins drastískra aðgerða og áður. Við höfum hins vegar sagt að við séum í raun heppin að vera námsmenn á þessum tímum á meðan við horfum upp á fjölda fólks missa atvinnuna.

Hér að neðan má sjá myndir úr albúmi fjölskyldunnar, flestar teknar í Wales.