Nettó
Nettó

Mannlíf

Krabbameinið hvarf og keramíkin tók við
Drífa sigraðist á veikindunum og breytti til í lífi sínu.
Laugardagur 11. maí 2019 kl. 09:00

Krabbameinið hvarf og keramíkin tók við

-Ekta núvitund sem losar mann við íþyngjandi hugsanir.

„Leirinn er ómótuð drulluklessa og maður veit í rauninni ekkert hvað verður úr henni fyrr en maður byrjar. Maður reynir, miðlar allri sinni þekkingu, kröftum og orku. Svo verður þetta ákveðin afurð. Verður hún hundrað prósent eins og þú ætlaðir? Ég veit það ekki. Ég held að lífið sé líka þannig. Maður reynir eins og maður getur að gera betur á hverjum degi og svo skilar það manni í vonandi betra lífi. Mér finnst líf og leir næstum því það sama. Við erum endalaust að móta það sjálf.“

Arnbjörg Drífa Káradóttir rekur verkstæðið Drífa keramik í Reykjanesbæ. Hún er lærður kennari frá Háskólanum á Akureyri og keramikhönnuður frá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Í dag býður hún upp á skapandi námskeið í leirkerarennslu. Drífa, eins og hún er oftast kölluð, hefur gengið í gegnum margt á lífsleið sinni en hún hefur meðal annars barist við krabbamein og staðið uppi sem sigurvegari. Blaðamaður, og fyrrum nemandi Drífu, ræddi við hana um keramíkina, baráttuna við krabbameinið og lífið í Keflavík.

Með gæsina í gegnum lífið
„Ég reyndi að læra á píanó sem krakki og fór í tónlistarnám í Sandgerði. Ég var hins vegar ekki með neitt píanó svo ég teiknaði nóturnar á pappaspjald og lærði þannig í einn vetur. Ég hugsaði: „Ég skal,“ því mig langaði svo að gera þetta. Þegar ég tek eitthvað svona í mig þá reyni ég yfirleitt að klára það,“ segir Drífa og skellir upp úr.

Þetta er það sem einkennir hana, staðfestan og dugnaðurinn. Í Holtaskóla, þar sem hún starfaði við kennslu í mörg ár, var hún dugleg að minna nemendur sína á GÆS-ina, sem gat, ætlaði og skyldi, og hvatti þá til að reyna sitt allra besta og hafa trú á sjálfum sér.

„Ég hef hugsað þetta síðan ég lifði af lyfjagjafirnar. Ég held bara að ég geti þetta. Þetta er gæsin. Ég hugsa oft til allra minna nemenda og ég sakna þeirra. Ég held ég gæti ekki lifað án þess að fá að kenna. Það er ómetanlegt að fá að taka þátt og geta miðlað til annarra.“


Keramikupplifun í Bókasafni Reykjanesbæjar.

Kynntist ástinni í Keflavík
Drífa flutti frá Sandgerði í Kópavoginn en þar bjó hún á meðan hún lærði hárgreiðslu í Iðnskólanum í Reykjavík. „Ég ætlaði ekki að flytja aftur suður með sjó en Hörður Guðmundsson, rakari, vildi fá mig í vinnu til sín og ég kom hingað um helgar. En svo kynntist ég ástinni minni og fór bara ekkert aftur.“
Eiginmaður Drífu er Keflvíkingurinn Guðmundur Jón Bjarnason og saman eiga þau þrjú börn, þau Bjarna Ragnar, Salome Rós og Hólmfríði Rún.

Fjölskyldan saman í Kaupmannahöfn.

Það var svo um aldamótin sem krabbameinið bankaði á dyr hjá Drífu og við tók ár af lyfjameðferð. „Þegar ég greindist varð ég svo ofboðslega reið. Ég hvorki reykti né drakk, nema einstaka sinnum hvítvín. Ég á þrjú börn og hef alltaf reynt að fara eftir reglum. Mér fannst þetta mjög ósanngjarnt. En þá hitti ég Steinunni Marteinsdóttur sem er leirkerasmiður í Mosfellsbæ og ég fór á námskeið hjá henni. Þá fann ég bara þennan innri frið. Ég og leirinn urðum eitt,“ segir Drífa sem leit þó þá á leirinn sem áhugamál, leið til að komast undan í augnablik.

Til að fara svo aftur út í samfélagið eftir lyfjameðferðina ákvað Drífa að fara í kennaranám. „Það var eitthvað sem sagði mér að vera hinum megin við borðið og hjálpa þessum elskum. Ég sé alls ekki eftir því að hafa farið í kennaranám, ég átti yndisleg ár í kennslu og ég er náttúrulega ennþá að kenna núna, bara öðruvísi. Ég er og hef verið kennari allt mitt líf.“

Sendi tölvupóst og flutti til Köben
Eftir að hafa starfað við kennslu í grunnskóla í nokkur ár greindist Drífa aftur með frumubreytingar. Þær reyndust þó sem betur fer ekki illkynja en hreyfðu við henni engu að síður. Það var þá sem hún ákvað að breyta til í sínu lífi. „Ég ætlaði bara að hætta að kenna, fara í hvíld og lifa lífinu. Ég sótti um nám í Myndlistaskólanum í Reykjavík og útskrifaðist þaðan árið 2016. Ég hafði áður verið þar á námskeiðum á kvöldin, á meðan ég vann í Holtaskóla og Heiðarskóla, og þá fann ég bara svo mikinn frið. Þetta er hugleiðsla. Maður er ekki að hugsa um það hvað verði í kvöldmatinn eða hvort maður þurfi að fara yfir einhverjar ritgerðir,“ segir Drífa kímin og lýsir keramíkinni sem ekta núvitund sem losi mann við íþyngjandi hugsanir.

Þegar Drífa var að ljúka náminu kom það upp að mögulegt væri að sækja um styrk til að komast í mastersnám eða á samning. „Það komu nokkuð margir gestakennarar í skólann og einn af þeim var Dani sem heitir Christian Bruun, einn af virtustu keramikerum Danmerkur. Ég fékk þá eitthvað í höfuðið, kannski voru það bara englarnir, og ég sagði við Gumma að ég ætlaði að senda tölvupóst á Christian Bruun og að ég væri að fara að flytja til Danmerkur. Hann hélt ég væri orðin klikkuð,“ segir Drífa og hlær. „Í stað þess að Gummi fái sér aðra konu þá breyti ég alltaf bara um. Fyrst var ég hárgreiðslukonan, svo mamman, kennarinn, og nú keramikhönnuðurinn.“


Christian og Drífa.

Lærir mest á móti straumnum
Stuttu síðar var Drífa mætt til Köben og við tók árs samingur þar sem hún starfaði á verkstæði Christian Bruun í Charlottenlund, ríku hverfi á Kaupmannahafnarsvæðinu, alein og farandi út um allt á hjóli. „Þetta var yndislegur tími. Ég grenjaði mig samt stundum í svefn, ég segi það ekki. En ég var endalaust að fara út fyrir þægindarammann minn, oft mörgum sinnum á dag. Fyrsta daginn minn úti hitti ég Christian og hann sagði: „Hérna er borvél. Ég ætla að biðja þig um að taka þetta í sundur og svo sjáumst við á eftir,“ lýsir Drífa en það verkefni reddaðist á endanum líkt og annað sem hún þurfti að reyna í Danmörku. „Ég vann á verkstæðinu með Christian, aðstoðaði hann við ýmsa keramikvinnu og námskeiðahald, auk þess að vinna með eigin hönnun. Við fórum til Jótlands og Óðinsvé með stórar krukkur og postulín og vorum talsvert á rúntinum að selja og setja upp sýningar. Ég fékk svo nokkrar heimsóknir frá fjölskyldunni minni. Það er erfitt að synda á móti straumnum en þannig lærir maður helling.“

Hjálpar andlegri líðan ungmenna
Þegar Drífa flutti aftur til Íslands var hún ákveðin í því að opna hér keramikverkstæði og bjóða meðal annars upp á námskeið og upplifanir, líkt og hún hafði kynnst á verkstæðinu í Danmörku. „Á verkstæðinu úti var boðið upp á þessa upplifun. Hópar gátu komið og notið þess að vera saman að skapa. Það var ekkert svoleiðis hérna heima. Ég hugsaði líka þá til fyrrum nemendanna minna sem margir hverjir eru í ójafnvægi og líður illa. Þetta er frábær leið til að styrkja það innra og finna rónna.“

Í dag býður Drífa upp á ýmis námskeið í keramik fyrir fólk á öllum aldri og saumaklúbbar, vinnustaðir og aðrir geta pantað námskeið hjá henni. Þá er mögulegt fyrir ungmenni í Reykjanesbæ að greiða fyrir námskeiðin með hvatagreiðslum frá bænum. Hægt að nálgast nánari upplýsingar og hafa samband við Drífu á Facebook-síðunni Drífa keramik og á heimasíðunni drifakeramik.is.

„Við þurfum að stoppa, slaka á og finna okkur. Maður þarf bara að gefa sér tíma í það. Ég vona að ég geti miðlað því til annarra að maður getur gert nákvæmlega það sem mann langar til að gera, ef maður vill það.”

-Sólborg Guðbrands

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs